FIMMTÍU ÞÚS. KR. AFSLÁTTUR TIL ÁSKRIFENDA ÍBN (sjá neðar)
Ferðalög á framandi slóðir, eins og Balíferðin sem við fjölskyldan fórum í um árið, gleymast seint eða aldrei. Við bjuggum í fallegu húsi inni í litlu þorpi fjarri skarkala ferðamannastraumsins og það sem við rifjum oftast upp þegar rætt er um þessa ferð er bálförin sem vinalegur nágranni okkar bauð okkur í. En útför á Balí snýst um að fagna lífi viðkomandi og er því mikið lagt upp úr skúðgöngu, fórnum og bálkesti í lokin þar sem líkið er brennt. Slíka uppákomu hefðum við ekki upplifað ef við hefðum verið á hóteli einhvers staðar við ströndina fjarri lífi almennings í landinu. Þegar ferðaskrifstofan Farvel kom að máli við mig með þá hugmynd að skipuleggja ferð til Bali í anda Í boði náttúrunnar og bjóða áskrifendum ÍBN góðan afslátt, þá ákvað ég að slá til enda einstök leið til að kynnast þessari framandi og fallegu eyju. Ásta Þóris ævintýrakona með meiru verður farastjóri og hefur hún hannað einstaka ferð sem sniðin er að þörfum þeirra sem vilja ná djúpum tengslum við náttúru og menningu heimamanna, auk þess að upplifa Nyepi, en það er dagurinn þegar öll eyjan þagnar. Ásta fór fyrst til Balí fyrir tuttugu árum síðan og bjó þar m.a. einn vetur og hefur kynnst innfæddum og menningu þeirra mjög vel. Við spurðum hana út í þessa þriggja vikna ferð sem farin verður í mars á þessu ári.
Eftir mikla skrúðgöngu og framandi athafnir fór Bálförin fram á auðri lóð inni í miðju hverfinu.
Hvert er markmið með ferðinni?
Að njóta og aftur njóta. Kynnast íbúum Balí og þeirra einstaklega fallegu hugsun, viðhorfum og hefðum. Upplifa hamingju, samkennd og þessa einstöku ró sem þeir búa yfir. Stress er eitthvað sem þeir vita ekki hvað er. Tímasetning ferðarinnar er ákvörðuð með það í huga að ná hinum einstaka degi sem nefnist Nyepi og er dagur þagnar, föstu og íhugunar á Balí. Þá er allt lokað, bannað að vera með hávaða og einnig ferðast á milli staða. Algjör kyrrð á að ríkja.
Hvernig verður dagskráin?
Við munum spila þetta eftir tilfinningunni, hvað dagurinn færir okkur hverju sinni. Líf Balíbúa stýrist af náttúrunni og trúarathafnir og viðburðir eru ákvarðaðir af stöðu tungls og stjarna. Daglega verður þó boðið upp á ferðir og uppákomur sem hjálpa okkur að skilja hugsanagang og lífsklukku Balíbúa og um leið að tengjast betur eigin tilfinningalífi og draumum.
Við kynnumst m.a. ræktun og uppskeru margvíslegra suðrænna ávaxta, kryddjurta og grænmeti, eins og t.d. papaya, kaffi, hrísgrjón, kakó, te o.fl. Við hjálpum til við undirbúning athafnar í fjölskylduhofinu og fræðumst um hinar ýmsu trúarathafnir. Förum á markaðinn og undirbúum matarveislu að hætti Balí fjölskyldu. Við stúderum sígildan byggingarmáta á Balí sem byggir á fornum reglum um afstöðu og umgengni hverrar fjölskyldu. Lærum grunninn í indónesísku sem er skemmtilega einfalt mál. Heimsækjum græna skólann (Green School) sem er mjög virtur grunnskóli byggður eingöngu úr bambus. Síðan má ekki gleyma að njóta hinnar einstaklega fallegu náttúru sem Balí hefur upp á að bjóða, frumskógar, akrar, hvítar strendur, heitur sjór, klettar, fjöll og dýralíf. Slaka svo á, njóta og hafa gaman.
Hvar dveljið þið á Eyjunni?
Við munum gista mestmegnis í fjallabænum Ubud og ferðast víða um Balí þaðan en einnig munum við gista við ströndina t.d. í fiskimannabænum Amed. Dvalið verður í þægilegri heimagistingu á einföldum og fallegum heimilum Balíbúa.
TILBOÐ
Dagsetning: 12 mars – 1 apríl 2017
Fullt verð: 495.000 kr.
Verð til áskrifenda ÍBN: 445.000 kr.
Innifalið: Flug, gisting með morgunverði í heimahúsum, allur akstur á milli staða, blönduð dagskrá hvern dag með hádegisverði sem er innifalinn og fararstjórn.
Sjá nánar á Farvel.is (Balí náttúra)
——————————————————————-
Texti og myndir Guðbjörg Gissurardóttir
Ásta Þóris á Balí með apa á öxlinni.