Drullu sex-y

Ritstýran í vorverkunum

FÖGNUM VOR BLAÐI
Ritstýrupistill

Eitt vorið stóð ég í garðinum uppi í bústað, skítug upp fyrir haus, komin með í bakið eftir mokstur og við að bera stóra steina úr landinu til að skapa rými fyrir lítinn grasblett, eða það sem maðurinn minn kallaði G-blettinn (í höfuðið á mér)! Ég var sveitt, ómáluð og langt frá því að geta talist sexí. Þrátt fyrir að það stæði aftan á bakinu á mér! Ég var nefnilega í heilgalla frá dimmeteringunni í Versló um árið, og voru gallarnir merktir japanskri flugsveit og bekknum okkar, TF sex-Y (6-Y). En þegar ég stend þarna líkamlega búin á því, þá man ég eftir að hafa hugsað: „Af hverju eyði ég ekki meiri tíma hér? Þetta er eitt það skemmtilegasta sem ég geri.“ Það er nefnilega alveg stórmerkilegt hvað manni líður vel að vera úti í náttúrunni í gúmmístígvélunum sínum, með skít undir nöglunum við að bralla eitthvað. Ég komst síðar að því að Þessi vellíðan mín rímar við rannsóknir umhverfisfræðinga, þar sem kemur fram að góð áhrif náttúrunnar á mannfólkið er hægt að mæla á þremur mismunandi stigum. Fyrsta stigið er þegar við upplifum fallega náttúru, og útskýrir hversu gott ústýni er mikilvægt. Stigið þar fyrir ofan er að vera úti í náttúrunni, t.d. á göngu eða annarri útivist. Þriðja og hæsta stig vellíðunar er þegar við erum að aðhafast eitthvað úti í náttúrunni. Vinna úti í garði, við að gróðursetja, týna rusl og jafnvel slá G-blettinn! Það er einmitt sú vellíðunartilfinning sem ég upplifi þegar ég fer upp í bústað, skelli mér í sexígallann, og fer út að gera…ja bara eitthvað!


SÝNISHORN ÚR VOR BLAÐINU

EFNI
Vorblaðið er fullt af hugmyndum og innblæstri, sem fær þig vonandi til að klæja í puttana að aðhafast eitthvað, hvort sem það tengist ræktun, útivist eða umhverfismálum. Einnig inniheldur blaðið fróðlegar greinar, eins og t.d. um mosa, en ég komst að því að við vitum almennt alltof lítið um hann. Einnig rifjum við upp mikilvægan viðburð í umhverfisbaráttu Íslendinga en það var árið 1970 þegar Mývetningar sprengdu virkjunarstíflu til að varðveita Mývatns- og Laxársvæðið.

Kristín Sigurðardóttir, bráðalæknir, segir okkur persónulega sögu sína eftir að heilsan hrundi vegna myglu á Landspítalanum og hvernig náttúran hefur komið henni til hjálpar. Einnig höldum við áfram að fjalla um fyrirtæki til fyrirmyndar og nú er komin sú tíð að hægt er að fara í dagsferðir og mælum við með að heimsækja hana Dagný í Þorlákshöfn, sem rekur veitingastaðinn og kaffihúsið Hendur í Höfn. Hún gefur engan afslátt í gæðum og staðbundnu hráefni, enda segist hún einungis bjóða upp á hamingjusamar kaloríur.

Njóttu vorsins og finndu þína leið að hamingjunni!

Guðbjörg Gissuardóttir
Ritstýra

P.S. Þú tekur enga áhættu þegar þú kemur í áskrift. Borgar bara fyrir eina sendingu í einu (1.970) og getur hætt hvenær sem er.
Nýjasta Fæða / Food blaðið fylgir með í fyrstu áskriftar sendingunni með þessu tilboði, en það er nú komið í dreifingu um allann heim. M.a. í 125 Barnes & Nobels verlanir í Bandaríkjunum. Gera önnur blöð betur!

 

 

 

 

 

 

 

Tögg úr greininni
, , ,