Litaðu þig í gegnum jólin

Litabækur eru ekki nýtt fyrirbæri en nýverið fékk einhver þá snilldarhugmynd að markaðssetja sérstakar litabækur sem eiga að hjálpa okkur fullorðna fólkinu að slaka á. Í kjölfarið varð sprengja í sölu slíkra litabóka og þær skipta nú hundruðum og myndefnið er jafn fjölbreytt og þær eru margar. En hver skyldi ástæðan vera fyrir þessum gríðarlegu vinsældum? Hvort sem það er nostalgía, flótti, slökun, skemmtun, tölvuhvíld eða einfaldlega leið til að drepa tímann, þá er víst að þetta nýja æði er komið til að vera, í bili a.m.k. Elsa Nielsen er grafískur hönnuður sem lét sér ekki nægja að lita í þær erlendu litabækur sem hún átti heldur ákvað að búa til sína eigin og nota íslenska náttúru og dýralíf sem innblástur. Bókin heitir Íslensk litadýrð en í jólablaðinu er að finna falleg sýnishorn úr bókinni hennar ásamt sérhönnuðum gjafamiðum fyrir ÍBN.

ÍBN: Hvernig kviknaði sú hugmynd að gera þína eigin litabók?

EN: Ómeðvitað byrjaði þetta ævintýri um áramótin þegar ég ákvað að teikna eina litla trélitamynd á hverjum degi í eitt ár, svona einhvers konar myndræna dagbók sem ég deili á Instagram undir #einádag. Vinkonu minni sem hafði fylgst með mér og trélitamyndunum mínum fannst upplagt að gefa mér litabók sem hún hafði keypt erlendis frá og ég heillaðist um leið. Þá fékk ég þessa hugmynd að það væri gaman að gera svona alíslenska litabók. Þegar ég fæ hugmynd þá hjóla ég vanalega í hana og deili með öðrum – svona til að það verði líklegra að hún verði að veruleika.

ÍBN: Hvað getur litabók gert fyrir okkar andlegu heilsu?

EN: Að lita er álitin slökunaraðferð og sumir sálfræðingar eru farnir að mæla með litabókum þar sem það er talið draga úr streitu að lita og virkar því einnig vel gegn kvíða. Þetta áhugamál skapar ró, næði og vellíðan um leið og við örvum þann hluta heilans sem stýrir hreyfingum, skynjun og sköpun. Það sem mér finnst samt dýrmætast við að setjast niður og lita er að börnin mín koma ósjálfrátt og vilja taka þátt og úr verður notaleg samverustund. Þannig að það er eiginlega allt gott við þetta litabókaæði.

FullSizeRender (3)

ÍBN: Hvernig sérðu fólk nota bókina?

EN: Ég lít á þetta sem samstarfsverkefni – ég teikna myndirnar og svo litar einhver annar. Það er svo skemmtilegt að sjá hvernig ein teikning getur orðið að mörgum ólíkum myndum. Fólk (aðallega konur) deilir oft með mér lituðu myndunum sem mér þykir afar vænt um. Ég vonast svo eftir að bókin skapi margar notalegar stundir, hvort sem það er fjölskyldustund eða hugarró í einrúmi.

Íslensk litadýrð er gefin út af Eddu útgáfu og fæst í öllum helstu bókabúðum.


Screen Shot 2015-11-23 at 2.31.50 PMGREININ BIRTIST Í HEILD SINNI Í JÓLABLAÐI

Í BOÐI NÁTTÚRUNNAR = KAUPA HÉR