Innri hamingja og friður

Hugurinn okkar er frábært hjálpartæki fyrir okkur í svo ótrúlega mörgu sem við tökum fyrir hendur. Hann hjálpar okkur meðal annars að skipuleggja og ímynda okkur framtíðina okkar, greina og túlka umhverfið okkar og aðstæður. Hann vinnur á ógnahraða og meira að segja án þess að við biðjum hann um það! Magnaður alveg hreint…

Því miður getur hann líka komið okkur í ógöngur, eins og við sjáum í formi ýmissa andlegra vandamála, sem við þurfum mörg okkar að þola í mis miklu magni á mismunandi tímabilum lífs okkar.

Eitt af þeim vandamálum sem hugurinn okkar getur valdið, er þegar við teljum okkur trú um að við þurfum að vera eitthvað, upplifa eitthvað, ná einhverju eða öðlast eitthvað til þess að vera elskuð eða hamingjusöm. Það er þegar við teljum okkur trú um það, með ,,hjálp” hugans, að við þurfum að vera með ákveðinn starfstitil, hafa ákveðin lífsgæði, vera í ákveðnu sambandi, upplifa ákveðin draum sem við höfum fest í hugann okkar, til þess að verða hamingjusöm eða elskuð.

Þótt það sé gott og blessað að stefna að þessum markmiðum og hafa hugmyndir um líf sem maður vill upplifa er mikilvægt að muna að þessir hlutir eða upplifanir breyta aldrei gildi okkar og virði sem manneskjur sem við höfum nú þegar innra með okkur.

Við erum nú þegar elskuð, við eigum nú þegar skilið að vera hamingjusöm, upplifa gleði, frið og kærleika. Algjörlega óháð því hvað við gerum, hvað við eigum og hvað við höfum.

Það getur enginn tekið þetta frá okkur og það getur enginn eða ekkert gefið okkur þetta gildi. Við höfum þetta nú þegar og munum alltaf hafa, kærleika og frið innra með okkur. Það eru einfaldlega hugsanir og truflanir sem taka okkur frá þessum frið og kærleika sem er nú þegar innra með okkur. Hugsanir og draumar um hamingju, frið og kærleika í fjarlægð. Hugsanir og draumar sem telja okkur trú um að við þurfum hitt og þetta til þess að verða hamingjusöm og elskuð. En það kaldhæðnislega við það er að við endum í endalausum eltingaleik við hitt og þetta sem veldur okkur stöðugum ófrið og kvíða. Það getur einnig orðið til þess að við verðum háð því að hafa hitt og þetta, til þess að finna frið og kærleika, sem við höfum nú þegar innra með okkur… en við látum bara truflast af hugmyndum um fjarlægan frið og kærleika.

Það eru eflaust ýmsar leiðir til þess að vera vakandi fyrir þessum truflunum og dvelja meira í sínum innri kærleika og frið sem er nú þegar innra með okkur. Ein öflug leið er að hugleiða (t.d. núvitundar hugleiðsla) , þjálfa þessa meðvitund um hugsanir okkar sem toga okkur að hugmyndum um fjarlæga hamingju. Hugleiðsla hjálpar okkur líka að þjálfa athyglisbeitingu, læra að stjórna hvert við beinum athyglinni okkar. Hún hjálpar okkur að fá yfirsýn yfir allar þessar hugsanir, læra að taka þeim ekki sem staðreyndum, læra að horfa á þær með gagnrýnum augum, sérstaklega þessar hugsanir og hugmyndir okkar um að við öðlumst hamingju ef við fáum hitt og þetta eða verðum hitt og þetta.

Með því að iðka hugleiðslu lærum við smátt og smátt að ,,spotta” þessar hugmyndir hugans sem tosa okkur frá okkar innri frið og kærleika sem er nú þegar innra með okkur. Þá lærum við smátt og smátt að láta ekki blekkjast af þessum hugmyndum. Við áttum okkur á því að við getum náð þessum markmiðum í rólegheitum án þess að óttast, vegna þess að við ,,þurfum” ekki á þessum hlutum eða upplifunum að halda. Við erum nú þegar með allt sem við þurfum.

Fyrir þá sem hafa áhuga á að prufa núvitund þá er t.d. hægt að skoða mikið úrval námskeiða hjá núvitundarsetrinu → http://www.nuvitundarsetrid.is sem eru samtök sérmenntaðra fagaðila sem bjóða upp á námskeið og þjálfun í núvitund fyrir fólk á öllum aldri. Þar að auki getið náð ykkur í íslenska appið Happ sem er frítt og inniheldur m.a. núvitundarhugleiðslu 🙂

Megiði finna allan þann frið og kærleika sem býr innra með ykkur.

Sigrún

Tögg úr greininni
, , ,

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.