Á floti

Margar frumlegar hugmyndir hafa kviknað í háskólum landsins í gegnum tíðina. Ein slík leit dagsins ljós þegar Unnur Valdís Kristjánsdóttir vann að vöruþróunarverkefni við Listaháskóla Íslands. Hún útskrifaðist frá vöruhönnunardeild og útskriftarverkefnið hennar var flothetta sem gerir fólki kleift að fljóta áhyggjulaust í vatni. Nú er hægt að fara í það sem kallast samflot í Seltjarnarneslauginni og víðar þar sem fólk hittist og flýtur saman. 

Baðmenning Íslendinga

Unnur Valdís hefur alltaf haft unun að því að fara í sund og vera í vatni og hafði því áhuga á að vinna með baðmenningu okkar Íslendinga í lokaverkefni sínu. „Sundferðir skipa stóran sess í lífi mjög margra á Íslandi, bæði félagslegan og heilsufarslegan, en ég var frekar ósátt við þróunina á baðmenningunni yfirhöfuð, þ.e. fannst hún vera of einslit. Flestar sundlaugar eru orðnar að hálfgerðum skemmtigörðum þar sem keppst er við að hafa stærri og fleiri rennibrautir, sem er jú gaman fyrir krakkana, en það er óþarfi að setja allan fókusinn á það,“ segir Unnur og heldur áfram: „Ef við skoðum hvað aðrar þjóðir gera á þessu sviði, eins og t.d. Ungverjar og Japanar, þá er mikið um heilsulindir og baðhús þar sem það er nokkurs konar serimónía, eða jafnvel æðri athöfn, að baða sig. Ég vildi því skoða hvað hægt væri að gera hér heima þar sem meiri áhersla væri lögð á slökun.“

Jákvæð áhrif á heilsuna

Í rannsóknarvinnu sinni komst Unnur Valdís að því að það er mun meira en góð slökun sem flotið gerir fyrir líkamann. Fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á ágæti þess að láta líkamann fljóta í vatni og hafa verið skrifaðar bækur um það. Sú þekktasta heitir The Book of Floating og er eftir Michael Hutchinson. Þar kemur fram að þegar líkaminn flýtur verður hann þyngdarlaus og við það að losna við áhrif þyngdaraflsins minnkar álagið á miðtaugakerfið, vöðvana og mænuna. Við það losnar úr læðingi orka sem eykur virkni heilans um leið og endurnýjun frumna líkamans verður hraðari. Ein klukkustund á floti jafngildir þannig um það bil fjögurra klukkustunda svefni. Þetta sést einnig þegar heilabylgjur eru skoðaðar. Þegar við erum við það að sofna fer heilinn í ástand sem kallast þeta. Það er slökunarástand þar sem heilinn tengist sterkar undirmeðvitundinni og ýmiss konar úrvinnsla fer í gang. Hægt er að ná þessu ástandi í hugleiðslu en oftast eftir margra ára þjálfun. Flotið örvar aftur á móti mjög fljótt þessar heilabylgjur. Þetta getur m.a. haft mjög góð áhrif á þá sem eru í skapandi vinnu. Rannsóknir hafa einnig sýnt að flotið eykur tenginguna á milli hægri og vinstri heilahvela. Vinstra heilahvelið tengist rökhugsun og skipulagi, eða því sem við notum einna mest dagsdaglega, á meðan hægra heilahvelið tengist meira sköpun og heildrænni hugsun. Fljótandi getum við því virkjað heilastarfsemina meira en okkur grunar.

Það hafa greinileg fleiri komið auga á ávinning þess að fljóta og hefur fyrirtækið Float Spa hannað og selur sérstaka vatnstanka þar sem fólki er boðið upp á flotmeðferðir. Vatnið í þessum tönkum er mjög salt svo að fólk flýtur auðveldlega en með hettunum hennar Unnar verður saltið óþarft. Á heimasíðu Float Spa er sagt frá þeim margþættu áhrifum sem flotmeðferð getur haft á fólk. Hún getur m.a. minnkað streitu, aukið sköpun, bætt einbeitingu, dregið úr námsörðugleikum, svefnvandamálum, þunglyndi og kvíða, haft góð áhrif á mígreni, skapað jafnvægi í líkamanum og styrkt ónæmiskerfið, svo eitthvað sé nefnt. 

Að fljóta á þæginlegan hátt er því ekki einungis skemmtileg viðbót við sundmenningu okkar og slakandi, heldur heilsusamleg athöfn að ýmsu leiti!

 
Float_9059
Tögg úr greininni
, , ,