Yoga kennarinn Rakel Sigurðardóttir er með MA próf í Bókmenntum, menningu og miðlun frá enskudeild Háskóla Íslands. Áður starfaði hún sem snyrtifræðingur og veit því hvað hún syngur þegar kemur að heilsu og snyrtingu.
HÚÐ
Mér hefur alltaf verið umhugað að hugsa vel um húðina og byrja morgnana á því að baða andlitið upp úr köldu vatni, 5 til 10 skvettur eftir því hversu syfjuð ég er þegar ég fer á fætur. Þetta örvar blóðrásina, dregur úr svefnbólgum í kring um augun og gerir húðina ferskari. Þessa dagana er ég að nota lífræn krem frá Lavera. Á kvöldin nota ég kókosólíu til að hreinsa af farðan bæði af andliti og augum. Einu sinni til þrisvar í viku nota ég peeling, og ef mig vantar extra búst nota ég lífrænt hunang sem maska. Húðin fær nýjan ljóma og verður þéttari og ferskari.
Morgunsturtan er nauðsynleg til að takast fersk á við það sem dagurinn ber í skauti sér, og ég þurrbursta húðina kannski þriðja eða fjórða hvern dag, en stefni á að það verði að daglegri venju. Stundum er ég svo lengi að komast í gang á morgnana að það gleymist. Eftir baðið nota ég sítrus húðmjólk frá Weleda eða líkamsolíu frá Logona með Aloe vera og Verbena, en á axlirnar nota ég Arnicu olíu frá Weleda sem er frábær við vöðvabólgu. Bæði merkin eru lífræn.
HÁR
Hárið þvæ ég yfirleitt tvisvar í viku og nota sjampó og næringu frá Hempz sem eru án allra aukaefna og henta vel fyrir mitt hár sem er frekar þykkt og með náttúrulega liði. Þegar ég er upp á mitt besta þá þvæ ég hárið einungis upp úr köldu vatni, ekki í sturtunni. Þetta gefur hárinu meiri glans og fer betur með hárið. Ég er algjör hárvöru „junky“, alltaf að leyta að hinu fullkomna efni sem hemur úfið hár án þess að þyngja það en á sama tíma heldur utan um lokkana. Núna nota ég Intense curling cream frá Moroccan oil og frábæra froðu frá Joico sem er í K-Pak línunni. Ég nota aldrei hárblásara heldur læt hárið þorna á náttúrulegan hátt.
ILMUR
Ég elska góðan ilm og er mikið fyrir ilmkjarnaolíur, en Lavender er í algjöru uppáhaldi. Ég var að klára yndislegt ilmvatn sem einkennist af ferskleika og kókos og heitir Thai Sunset frá Escada. Núna er ég að prufa ilmvatn frá Rhiönnu sem dóttir mín var að gefa mér.
FARÐI
Ég hef óbilandi trú á sólarvörn og vil helst ekki fara út fyrir dyr án þess að verja andlitið. Farðinn sem ég nota kemur úr öllum áttum, ég hef enn ekki fundið mig í að nota lífrænar förðunarvörur. Núna er ég að nota BB krem frá Esteé Lauder með vörn 35. Fljótandi hyljari frá Lancomé hefur verið partur af minni rútínu í fjölda ára og einnig Sensai 38 gráðu maskarinn frá Kanebo, en ég er svo viðkvæm í augunum en hann smitar ekki og veldur ekki ertingi. Þar sem ég verð svo föl á veturna þá nota ég afskaplega fallegt sólarpúður frá Guerlaine sem ein yndisleg vinkona mín gaf mér í afmælisgjöf.
NÆRING
Næring og heilsa er mikið áhugamál en ég er búin að vera grænkeri í nær tólf ár og byrjaði að taka út rautt kjöt fyrir rúmum tuttugu árum og fikraði mig svo smátt og smátt áfram í framhaldi vegna meltingarvandamála og fæðuóþols og ofnæmis. Á morgnana byrja ég á einum bolla af heitu vatni með kókosolíu og skvettu af sítrónu, en þetta er mjög gott til að hreinsa kerfið og koma meltingunni í góðan farveg. Berjasmoothie með kókosvatni, gulrótarsafa, spíruteini, ferskri myntu og lífrænu engiferi ásamt teskeið af lífrænni klórellu, hveitigrasi og hempspróteini er algjört must til að byrja daginn. Þegar ég er í stuði geri ég einnig grænan drykk úr spínati, sellerí, gúrku, sítrónu, engiferi, myntu og kókosvatni, æðislega hressandi og rífandi drykkur í morgunsárið.
Einnig passa ég upp á að taka inn Omega olíur, Lecitín, D-vítamín og Kvöldrósarolíu, en kvöldrósarolían er eitthvað sem allar konur komnar yfir fertugt ættu að taka inn því hún kemur jafnvægi á hormónakerfið og slímhimnur. B-12 vítamín fæ ég úr spírulínu og tek einnig inn alhliða B-vítamín og fólinsýru. Floradix járn tek ég inn sem kúr á ca 5 til 6 vikna fresti. Ég hræri líka CCFlax út í heilsusafa á morgnana sem er blanda af trönuberjum, kalki og hörfræjum. Gott fyrir nýrun, beinin og meltinguna.
Ég elska allt sem er grænt en ég elska líka gott kaffi og quinoa rískex með franskri, sykurlausri bláberjasultu og osti. Þrátt fyrir að borða nánast engar mjólkurvörur þá læt ég eftir mér brauðost og svo kryddleginn fetaost út á salatið. Mangó, epli, perur og ananas eru uppáhalds ávextirnir og svo slær ekkert út gott avókadó, eitt og sér eða út á salatið.
Chili, túrmerik, hvítlaukur, kóriander og cummin eru uppáhalds kryddin enda eru sterkir réttir frá Indlandi, Mexíkó, Afríku eða Miðjarðarhafinu í uppáhaldi og spilar ólífuolían þar stórt hlutverk. Möndlur finnst mér gott að narta í á milli mála en ég hef lengi barist við sætinda- og súkkulaðipúkann en læt eftir mér kökur og annað bakkelsi þegar ég fer í afmæli eða saumó!