Margir eru safnarar að eðlisfari og nota það hugtak til að réttlæta neysluhyggju og kaupæði, og það er ég sjálf sek um.
En ég er einnig að eðlisfari mikið hreinlætisfrík, ég vil hafa hreint í kringum mig og ekki mikið drasl. Mér hefur reynst það mjög erfitt eftir því sem börnunum fjölgar og neyslan eykst, oft hefur draslið safnast upp hraðar en ég hef náð að losa það út. Reglulega tek ég kast og vill henda ÖLLU og byrja á einhverjum bunkanum eða skápnum en fjölskyldumeðlimir taka jafnóðum hlutina sem þau vilja ekki selja, gefa eða henda úr höndunum á mér, mér til mikils ama.
HREINSAÐ ÚR SKÁPUM
En um daginn fórum við þó í gegnum alla fataskápa heimilisins, ég sendi hlýjar flíkur til Lesbos og við skelltum okkur í Kolaportið með restina. Af þeim þúsund flíkum sem við fórum með þangað seldum við svona 20 og þar sem ég gat ekki hugsað mér að fara aftur heim með öll þessi föt setti ég helminginn af því sem eftir var í rauða kross gámana en er nú samt með 4 ikea poka fulla af fötum á svefnherbergisgólfinu, því ekki ætla ég að setja þetta aftur inn í fataskáp og ekki er pláss í geymslunni heldur.
Geymslan er full af drasli sem við tímdum ekki að henda fyrir ári þegar við fluttum hingað inn. (samt hentum við þá 3 kerrum fullum af dóti svo ekki erum við algjörir safnarar..)
Þessi neysla er auðvitað bilun, hvað erum við að gera með hirslur fullar af drasli sem við þurfum ekki!
„FREE STUFF“
Ég las nýlega að það sé svipuð vellíðan sem við upplifum við það að losa okkur við drasl og við finnum þegar við kaupum nýtt, ég er að hugsa mér að nota mér það til að losa mig við óþarfan.
Mér leið allavega mjög vel þegar ég flutti fyrir ári. Ég bý miðsvæðis og setti kassa út á stétt sem á stóð “Free stuff”. Í kassann setti ég allskonar sem ég þurfti að losna við; potta, bolla, herðatré, lampa, fægiskóflu, styttur ofl. Það týndist jafnóðum flest allt úr kassanum og ég gat alltaf bætt í hann og var svo ánægð að einhverjir vildu dótið sem ég hafði ekki lengur not fyrir.
Jafnvel tilfinningatengdu hlutirnir hafa fengið að fjúka; þar síðustu jól ákváðum við að minnka þessa 5 kassa af jólaskrauti sem við áttum í geysmlunni niður í 2 kassa og jólin eftir vorum við búin að gleyma hvað það var sem við losuðum okkur við, það var ekki merkilegra en það dótið sem við höfðum haldið upp á í mörg ár.
Ég var með mikið skápapláss og skúffur á baðherberginu á gamla staðnum en bara einn skáp á þeim nýja svo að ég gaf og henti 2/3 af snyrtivörunum mínum, vinkonur mínar fengu að taka það sem þær vildu eiga og ég var ánægð að ilmvötn ofl. sem mér fannst ekki passa mér fór í notkun annars staðar.
JÓLIN FRAMUNDAN
Nú eru að koma jól og mig langar að gleðja einhverja aðra með því sem við fjölskyldan erum búin að njóta góðs af. Við krakkarnir gerðum nokkra “Jól í skókassa” saman og ég er að finna til jólaföt og ýmislegt sem við ætlum að gefa á facebook síðunni “Jólakraftaverk“, ég er viss um að við munum fá mun meiri ánægju af því að gefa þessa hluti en við fengum við að fá þá.
Sjálf hef ég ekki keypt mér “jólakjól” í mörg ár og er ekkert á leið að gera það núna heldur nema þá að selja einhvern af þeim sem ég á inni í skáp, ég elska síður á facebook þar sem maður getur selt og keypt notuð flott föt og hef nýtt mér það reglulega.
Smátt og smátt ætla ég að breyta þessu kaupæði, þessarri biluðu neysluhyggju sem hefur ríkt í naumhyggju, ég vil losna við sem mest og ég vil ekki kaupa nýtt nema það sé nauðsyn, ætli það verði ekki næsta áramótaheit?