Látum jákvæðar hugsanir yfirgnæfa óþarfa áhyggjur og kvíða til að vinna bug á svefnleysi.
TEXTI Guðný Guðmundsdóttir
Frá því að ég man eftir mér hef ég átt erfitt með að sofna á kvöldin. Sem barn var ég öfundsjúk út í móður mína sem var ávallt sofnuð innan fimm mínútna eftir að hún lagði höfuðið á koddann. Þegar ég uppgötvaði að það var eitthvað til sem hét svefnlyf þá vildi ég endilega taka slík og skyldi ekki af hverju það var ekki í boði – ef gamla fólkið á elliheimilinu mátti fá þau, af hverju ekki ég?
Á hverju kvöldi þegar leið að svefntímanum vissi ég sem var að það myndi taka mig að minnsta kosti klukkutíma þangað til ég kæmist á þann langþráða stað, draumalandið. Þetta ástand var einfaldlega veruleiki minn og viðhélst fram á fullorðinsár. Að vissu leyti vissi ég upp á mig skömmina því þegar ég var unglingur var ég orðin forfallinn gosfíkill en vökvann góða drakk ég fram eftir kvöldi þó svo að ég vissi sem var að slíkur drykkur væri ekki til þess falinn að svæfa manneskju. Það að ég komst loksins á þann stað, fyrir ekki svo löngu síðan, að geta sofnað frekar fljótlega eftir að ég leggst til hvílu tel ég þó ekki vera afleiðing þess að ég náði loksins tökum á gosfíkninni og skipti yfir í sódavatn.
Nei, ástæðan fyrir því að ég get loksins sofnað á kvöldin – og það fyrir miðnætti – er sú að ég áttaði mig loksins á því að áhyggjur og kvíði eru ekkert nema hugsanir og það tilgangslausar hugsanir í þokkabót. Sjáðu nú til, það sem ég var að gera allan þennan tíma sem ég lá andvaka í rúminu mínu var að hugsa. Og hugsa, og hugsa, og hugsa.
Ég vissi það ekki þá en ég geri mér grein fyrir því núna að það er engin ástæða til að leyfa hugsunum sínum að flögra um í kollinum á sér án eftirlits. Við getum nefnilega alveg stjórnað þeim ef við viljum. Það er það sem hugleiðsla og núvitund gengur út á, að átta sig á því að við erum ekki hugsanir okkar, eða röddin sem hugsar heldur vitundin sem tekur eftir því að við hugsum.
Þegar tíminn fer í það að magna upp hugsanir þar sem við sjáum fyrir okkur allt sem gæti hugsanlega farið úrskeiðis, sem gerist oft og iðulega á kvöldin þegar við eigum að vera að fara að sofa og höfum ekkert annað til að trufla þankaganginn, þá erum við ekki að einbeita okkur að því að róa hugann sem myndi verða til þess að við slökuðum nægilega á til þess að geta sofnað.
Áhyggjur eru tilgangslausar því það sem við höfum áhyggjur af gerist sjaldnast – og ef það gerist þá verða áhyggjurnar engu að síður ekki til þess að við séum betur undirbúin fyrir það sem við óttuðumst. Að einbeita sér að því að hugsa jákvætt eða að minnsta kosti vona það besta gæti hins vegar orðið til þess að hrekja svefnleysið á brott.