Þunglyndi og kvíði

TEXTI Guðný Guðmundsdóttir

Ég lít ekki á þunglyndi og kvíða sem sjúkdóm, og ég skal segja þér af hverju. Ég þjáðist af þunglyndi og þá sérstaklega af kvíða sem hefur plagað mig alla tíð. Þegar ég leitaði mér hins vegar hjálpar þá komst ég að því að þunglyndið og kvíðinn var afleiðing en ekki orsök og raunar fullkomlega eðlileg vanlíðan eftir það sem ég hafði upplifað sem barn og unglingur. Með hjálp góðra meðferðaraðila tókst mér að komast á þann stað að ná kvíðanum niður þangað til hann féll undir eðlileg mörk en það var langt frá því að vera auðvelt og tók bæði langan tíma og mikla vinnu.

Ég skil hins vegar vel að sú krafa sé gerð að þunglyndi sé skilgreint sem sjúkdómur því það gerir það ósjálfrátt að verkum að meira tillit sé tekið til þeirra sem af því þjást, kannski sérstaklega á vinnumarkaði, enda er full ástæða til. Þú vilt ekki þurfa að útskýra það í vinnunni að þú eigir erfitt með að svara í síma þegar þú veist ekki hver er að hringja, eða fara á fundi með viðskiptavinum sem eru kröfuharðir af því að þú átt erfitt með að standa með sjálfri þér, eða sért jafnvel kvíðin(n) yfir því á hverjum einasta morgni að þurfa að mæta í vinnuna yfirleitt.

Það eru nefnilega svo margir möguleikar á því að klúðra einhverju, gera mistök sem er auðvitað ófyrirgefanlegt, vera ekki nógu klár eða fá ekki nógu góðar hugmyndir. Að dagarnir fari raunar í að hafa áhyggjur af öllu sem gæti mögulega, hugsanlega, farið úrskeiðis af því að það er hætta á því að þú vitir ekki hvernig eigi að bregðast við þegar eitthvað óvænt kemur upp.

Það er erfitt að útskýra fyrir yfirmanni þínum eða samstarfsfólki að þér finnist einfaldlega óþægilegt að vera í nýjum aðstæðum eða jafnvel að eiga almennt í samskiptum við fólk. Að kröfurnar sem fólk geri til þín um að „gera þetta bara“, harka af sér, séu óraunhæfar því fyrir þér eru þetta allt að óyfirstíganleg verkefni. Ekki síst þar sem þú ert raunverulega að játa að þú eigir erfitt með að sinna starfinu þínu og það er engin leið að vita hver viðbrögð yfirmannsins verða við því – hver veit nema þér verði hreinlega sagt upp ef viðkomandi er ekki nægilega skilningsríkur?

Það sem mér finnst engu að síður hættulegt við að tala um þunglyndi og kvíða sem sjúkdóma er að þar með er gefið í skyn að þessi vandamál séu komin til að vera, að fólk muni óhjákvæmilega þjást af þessari vanlíðan út ævina og geti ekkert í því gert. Samkvæmt minni reynslu er það ekki kjarni málsins.

Ég er dæmi um einstakling sem hefur unnið sig út úr þessari vanlíðan þar til hún hætti að hafa dagleg áhrif á líf mitt. Það hefur tekið mikinn tíma, hálfa ævina raunar, ótrúlega orku og vinnu, og töluvert af peningum sem fóru til afar hjálplegra meðferðaraðila, en þökk sé því er ég allt önnur manneskja í dag en ég var fyrir aðeins nokkrum árum síðan.

Að sjálfsögðu lendi ég ennþá í aðstæðum sem ég á erfitt með að kljást við, en í dag lít ég engu að síður á slíkt sem verkefni sem ég þarf að leysa með því að fara út fyrir þægindarammann. Það reynir á en ég hef fulla stjórn á því hver ég vil vera og hvernig ég vil að líf mitt sé – það er algjörlega á mína eigin ábyrgð.