Skammdegið

Nú er kominn sá tími árs þegar það byrjar að dimma og ófáir Íslendingar verða varir við skammdegisþunglyndi að einhverju leyti. Ég fann fyrir þessum vágesti um daginn og gerði það sem ég geri alltaf þegar eitthvað truflar mig; ég skrifaði mig frá því.

Afraksturinn varð pistill sem snérist um það hversu auðvelt ég ætti með að finna leiðir til að slaka á þegar ég finn fyrir kvíða og áhyggjum (að kíkja á rúntinn, hlusta á afslappandi tónlist og syngja með, fara í heitt bað, kveikja á kertum, hugleiða, fara í jóga eða sund, skrifa niður draumana mína og skipuleggja framtíðina svo ég hefði eitthvað til að hlakka til).

Hins vegar fannst mér erfiðara að finna leiðir til þess að gleðja mig og lyfta orkunni upp þegar ég finn fyrir depurð og vantar sárlega að hlægja en gat engu að síður sett eftirfarandi á blað; skella í hitting með góðu fólki, fara á uppistand eða horfa á slíkt á Youtube, horfa á fyndna þætti eða bíómyndir.

Þrátt fyrir að þetta sé allt gott og blessað fór ég samt að sjá þetta vandamál frá öðru sjónarhorni eftir því sem leið á skrifin. Þau opnuðu augu mín fyrir því að það að finna leiðir til að dreifa huganum og reyna að komast í betra skap væri ekki endilega lausnin. Ég áttaði mig smá saman á því að ég var víst ekki döpur af engri ástæðu. Ég vissi bara ekki hver ástæðan fyrir þessari vanlíðan var fyrr en ég settist niður og horfðist í augu við það hvernig mér leið.

Þegar við leyfum okkur að dvelja aðeins í þessari líðan, án þess að reyna að deyfa hana með mat, áfengi eða verslunarferð, svo dæmi séu tekin, þá er oft hægt að komast til botns í henni og uppgötva einhverja undirliggjandi ástæðu – sem er kannski ekki svo hræðileg og áhyggjurnar af henni gufa þar af leiðandi upp um leið og hún er fundin.

Stundum getur einfaldlega verið að þú sért ekki ánægð/ur þar sem þú ert – á ákveðnu sviði lífs þíns – og þú gerir þér grein fyrir því að það er kominn tími til að breyta til. Á hinn bóginn gætir þú átt í samskiptaerfiðleikum í vinnunni eða í tengslum við vini þína eða fjölskyldu. Hver svo sem ástæðan er, er fullkomlega í lagi að leyfa sér að vera leið/ur í smá stund ef það hjálpar þér að komast að því hvað er að trufla þig undir niðri.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.