Þríhyrningurinn: Við streitu og kvíða

Jógastaða vikunnar

ÞRÍHYRNINGUR:  Trikonasana

Margir halda að jóga sé bara til að liðka liði og lengja vöðva, en jógaáhrifin eru nánast óteljandi, því jógastöðurnar örva líka ákveðin líffæri með þrýsting á ákveðin svæði, stuðla að almennu jafnvægi jafnt innra sem ytra og styrkja bæði súrefnis og blóðflæði, sem hefur aftur áhrif á heilsuna yfirhöfuð.

STAÐAN: 

Stattu með fætur ca. fótleggjalengd í sundur  með hendur út til hliðar. Snúðu svo vinstri fæti aðeins út en hægri fótur er örlítið innskeifur. Andaðu að og lengdu þig yfir til vinstri. Andaðu frá um leið og þú beygir þig á hlið frá mjöðmum. Vinstri hendi sígur niður meðfram vinstri fótlegg en hægri handleggur teygir sig upp til himins, beint fyrir ofan öxlina. (Má nota kubb eða bókastafla til stuðnings) Horfðu upp á eftir handleggnum og finndu opinn faðminn lengjast milli himins og jarðar. Sterkir fótleggir halda góðri jarðtengingu og hjálpa hryggnum í betri stöðu. Öndunin er djúp og róleg. Mikilvægt er að draga kviðinn inn í stöðunni og rófubein undir líkamann; hugsa líkamann eins og flatann á milli tveggja veggja. Haltu stöðunni í sirka 10 andardrætti. Á aðöndun kemurðu rólega upp úr stöðunni og ferð á hina hliðina. 

ÁHRIF:

Eins og margar standandi jógastöður þá styrkir þríhyrningurinn bæði bak og fótleggi, getur losað um kryppu í efra baki og losað um spennta settaug. Staðan opnar mjaðmir, nára, læri, kálfa, axlir og hrygginn. Styrkir hné og ökla og getur létti á ilsigi. Staðan örvar einnig meltingu, flæði í nýrum og getur jafnvel losað um sýru í líkamanum (gert hann basískari). Staðan hjálpar einnig við streitu og kvíða. Að teygja og opna líkamann styrkir líka kjarkinn okkar að takast óhrædd á við lífið. Njóttu vel. 

Tögg úr greininni
, , , ,