Lifðu núna

Jógaflæði í daglegu lífi

TEXTI Sara Snædís

Hvernig væri að staldra við, líta í kringum þig og taka eftir því sem er að gerast núna?

Í jóga gerir þú flæði af jógastōðum (asana) og heldur yfirleitt hverri stöðu í nokkra andardrætti áður en þú skiptir yfir í þá næstu. Flæðið er samblanda af hreyfingum og öndun og þótt þú staldrir við í einhverri stöðu þá heldur flæðið áfram með andardrættinum.

Þegar þú heldur stöðu er gott að beina huganum frá því að hugsa hvenær skipta skuli um stöðu, hversu lengi þú þurfir að halda, hvaða staða komi næst eða hvað sé langt í slökun. Beindu huganum heldur að því að njóta þess sem að gerast í hverri stöðu fyrir sig, fá eins mikið út úr henni og finna leiðir til þess að fara dýpra inn í hana bæði líkamlega og andlega.

Hafðu það hugfast að vanalega er hverri jógastöðu ekki haldið nema í nokkra andardrætti og því kjörið tækifæri til þess að njóta, skynja og finna fyrir því sem að gerast.

Hægt er að tengja jógaflæði við  daglegt líf. Staldraðu við og sjáðu alla þá góðu hluti sem eru að gerast í kringum þig og fáðu eins mikið úr hverju augnabliki og þú getur. Reyndu að gera hversdagslífið skemmtilegt og ekki venja þig á að hugsa stöðugt til einhvers sem gerist seinna og gleyma því sem er að gerast núna.

Að lifa lífinu í bið og með hugann við það sem er framundan kemur í veg fyrir að við njótum þess sem er að gerast núna. 

Hver dagur og hver klukkutími er ómetanlegt tækifæri til þess að læra eitthvað nýtt og taka með sér í vegnestið. Með því að festa sig í biðstöðu og verða ónæm(ur) gagnvart núinu er hætta á að þú missir af þeim tækifærum sem augnablikið býður upp á.

Lífið er núna og njótum þess á meðan við getum. Höldum stöðunni, njótum hennar og verum næmari fyrir sjálfum okkur og umhverfinu.

Tögg úr greininni
, , , ,