Morgunvenjur Elísabetar heilsumarkþjálfa

Elísabet Anna Finnbogadóttir eða ElísabetaBoga er menntuð sem HeilsuMarkÞjálfi frá IIN í N.Y. Hún er einnig Rope- og Hláturyoga kennari, búin að kenna alls kyns jóga í 10 ár, er með 240 tíma Raja/Hatha jógakennara réttindi og er um þessar mundir að klára 560 tíma framhalds Yoga nám hjá Kristbjörgu Kristmunds. Yoga heimspekin á hug hennar og hjarta og svo nýtur hún þess að vinna með fólki í ráðgjöf. Matargerð tekur einnig stóran sess í hennar tilveru, útivist ýmiss konar, náttúran, menning og listir. Eftir að hún flutti aftur til Íslands er hún búin að vera frekar upptekin af sorpflokkun landsmanna og segir það vera áhugamál útaf fyrir sig. Við heyrðum í henni til að forvitnast meira um hana og hvernig hún byrjar daginn:

elísabet anna„Í meira en 20 ár er ég búin að vera viðloðandi „heilsuheiminn“ en það kom til af því ég vildi finna lausnir á mínu heilsufari, seinna barna minna og svo koll af kolli. Ég sökk dýpra og dýpra og nördaði nær yfir mig, svo að ég er sjálfmenntuð í heilsubransanum, hef lesið og grúskað, gert tilraunir á mér og mínum nánustu með góðum árangri. Ég hef sótt alls kyns námskeið og ráðstefnur um víða veröld t.d í lifandi fæði, og grænmetisfæði, heimsspeki og ýmis námskeið er lúta að mannlegum samskiptum. Mér finnst til dæmis atferlsfræði og orsök og afleiðing endalaust skemmtilegar pælingar. Ég hef verið búsett erlendis nær sleitulaust síðastliðin 20 ár, þar starfaði ég sjálfstætt sem ráðgjafi og stóð fyrir ýmsum námskeiðum; mest tengdum jóga og matreiðslu, og hef ég því haldið fjölda námskeiða í hráfæði- og grænmetisfæði. Ég hef líka lært útstillingahönnun, því ég hugðist á yngri árum að feta hönnunarveginn. Ég hef mest notað starfsheitið Húsmóðir, af því mér finnst það svo undurfallegt og í því felst svo margt og mikið. Það er gamalt og rótgróið starfsheiti og reglulega vanmetið. Ég hef tekið húsmóðurs hlutverkið mjög alvarlega, fjölskylda er ekkert annað en fyrirtæki, maður bara vandar sig og hefur góða yfirsýn inn í allar deildir fyrirtækisins …… svo þegar öllu er á botninn hvolft þá er ég kannski bara ,,framkvæmdastjóri´.“:

Hvernig og hvenær vaknar þú á morgnanna?

Ég vakna svona um 5:30-06:00. Ég hlakka til að leggjast til hvílu snemma á kvöldin, því ég hlakka svo mikið til að vakna snemma næsta morgun. Ég stilli oftast klukkuna en er undantekningalaust vöknuð á undan henni. Ég er nefnilega hressa týpan á morgnana.

Hvernig eru morgunvenjurnar?

Þegar ég vakna teygi ég pínu á mér og nýt þess að finna að ég get hreyft mig og andað. Þá næst er baðherbergis heimsókn þar sem tungan er skafin og fleira. 😉 Því næst er hveitigrasið pressað og nokkrir dropar fara í nefið, restin í munn, skola munninn vel með vökvanum áður en ég kyngi, hratinu nudda ég svo framan í mig, toppa svo með teskeið af Dropa fiskiolíu. Þegar þessu er lokið er það jógadýnan, öndun, tilbeiðsla, og jógastöður (suma morgna mæti ég í jógatíma út í bæ kl 06) Þegar þessu er lokið, er kroppurinn þurrburstaður snökkt, ólífuolía borin á kroppinn og svo er það blessuð sturtan. Þá tekur við vatnsdrykkja mikil, ½ -1 liter af volgu sítrónu vatni. Ég drekk líka mikið af grænum djús á morgnana, svo er misjafnt hvenær ég næ að borða morgungrautinn, sem alla jafna er grænn og vænn hlaðin orku og ást, hann endar stundum sem hádegismatur. Ég tek inn góða meltingargerla alla daga og mikið af omega3, Dvítamíni, Kelp og Rhodiola.

Nú hef ég verið að bústa mig upp fyrir haustið og tek því inn Pukka MushroomGold, Pukka Shatavari, Q10, B-complex , C- vítamín og 4 dropa af Oregano Olíu.

Hvernig heldur þú þessum venjum?

Að vera meðvituð og vita hvað er mér fyrir bestu hverju sinni. Ég leitast við að halda þessum venjum eins og ég mögulega get, því það setur svo tóninn fyrir daginn minn, það er jú bara mín ábyrgð að passa að minn dagur verði góður og að ég sé í góðu jafnvægi. Ég fer heldur ekki alveg úr skorðum ef eitthvað af ritualinu riðlast, því hver dagur er jú einstakur og ástand líkama og sálar líka. Þar sem ég er oft á flakki og ferðalögum þá á ég plan B og C fyrir breyttar aðstæður. Ég leitast við að vera í Auðmýkt og minni mig á að hver dagur er einstakur og þakka fyrir hann.

Hvað er framundan hjá þér?

Þessa dagana er ég að klára að leggja lokahönd á prógram haustsins, jógakennslu, námskeið, ráðgjöf og fleira. Er svo að ljúka 560 tíma framhaldsnámi í Yogaskóla Kristbjargar Kristmunds. Ég hóf svo einnig nýlega störf í heilsuvöruverslun Gló í Fákafeni og mun vera þar 3x í viku í vetur!

Við þökkum Elísabetu fyrir svörin!