Hvað er nýtt tungl?

Þú hefur kannski heyrt um nýtt tungl undanfarið en það var 12 september síðastliðinn og er aftur þann 12 október n.k.. Nýtt tungl er þegar tunglið er beint á milli jarðar og sólar og virðist nánast ósýnilegt á þeim degi. Það er óumdeilanlegt að tunglgangurinn hefur áhrif á líf á jörðinni og er einna mest áberandi að sjá áhrif þess á sjávarstöður. Vísindamenn hafa þó ekki öðlast fullan skilning á hvernig áhrif hann hefur á líkamskerfin okkar en talið er samt með vissu að meiri kraftur sé í hormónakerfinu á fullu tungli heldur en því nýja.

Mannverur eru nátengdar náttúrunni og munum við eflaust fá betri útskýringar á þessum djúpu og órjúfanlegu tengslum í framtíðinni.

Í jógískum fræðum er talað um að það sé táknrænt fyrir nýtt upphaf eða endurfæðingu. Nýtt tungl er því góður tími til að setja orku og ásetning inn í það sem þú vilt í lífinu. Jafnframt er þetta besti dagurinn til að beina góðri orku í óskir þínar.

Viljir þú setja ásetning á nýju tungli mæli ég með að vera í hlutlausum huga varðandi mögulega útkomu og leyfa birtunni að komast að fræinu sem þarf stöðuga vitund og kærleika til að blómstra. Einnig geturðu gert hugleiðslu í 40 daga frá nýju tungli til að styðja við nýjan vana í lífi þínu.

Talið er að orkan í líkamskerfunum sé í lágmarki og því óhætt að gera jóga og/eða hugleiðslu sem reynir á líkamann. Margir jógar velja líka að fasta á þessum degi til að endurstilla líkamann og tengjast þannig náttúrulegum takti. Tekið skal fram að einnig er oft valið að fasta 11 dögum eftir nýtt tungl, á fullu tungli og 11 dögum eftir fulla tunglið.

11. dagurinn markar hlutlausan dag þar sem orkan í líkamskerfunum er í mestu jafnvægi sé líkaminn að starfa eðlilega. Hægt er að velja um einhverja af fyrrtöldum dögum, ekkert endilega alla dagana.

Það er einnig gott að byrja á hollum og jákvæðum lífsvenjum á nýju tungli. Ss. borða reglulega, fara að sofa á sama tíma og vakna á sama tíma, hrósa einhverjum, gera góðverk daglega eða fara í kalda sturtu og nota olíur daglega til að næra húðina.

Afstaða tungls gefur tækifæri til umbreytingar. Septembermánuður er hlaðinn orku og margt nýtt og farsælt að streyma til okkar séum við reiðubúin að taka á móti.

Séum við í vitund höfum við gott tækifæri í höndunum til að stilla okkur inn á tunglganginn og áhrif hans á líf okkar, td. í gegnum hugleiðslu.

Á nýja tunglinu  12/13. September 2015 síðastliðinn gætir einnig áhrifa deildarsólmyrkva og gaf dagurinn okkur því tækifæri til að vinna með eftirtalda þætti í lífi okkar:

  • Öðlast skýrari sýn á það sem er raunverulega okkar leið í lífinu.
  • Setja traust á það sem færir okkur varanlega hamingju.
  • Stíga fram af öryggi á sviðum sem hafa virst utan seilingar.
  • Stilla okkur inn á tíðni þess innra og æðra.

Njóttu nýja tunglsins, daganna á eftir því og þeirra hluta sem byrja að vaxa og dafna í kjölfarið á því.

Smelltu HÉR til að sjá hvar tunglið er núna

Hlý kveðja

Arnbjörg Kristín Konráðsdóttir

Jógakennari og jógískur ráðgjafi