Tegundir jóga

Talið er að til séu um 280 tegundir af jóga og fjölbreytileikinn gríðarlegur, það ættu því allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi þegar það kemur að jógaiðkun. Hérlendis eru þó aðeins vinsælustu tegundirnar á Vesturlöndum kenndar.

H E L S T U   T E G U N D I R

Fyrst ber að nefna Hatha jóga, sem langflestir þekkja sem hefðbundið jóga, en bókin Jóga fyrir alla byggir einmitt á þeirri tegund. Hatha þýðir sól og máni og Hatha jóga er æfingin í því að skapa jafnvægi og sátt á milli þessara andstæðu afla og orku í náttúrunni. Það eru til u.þ.b. 80 grunnstöður í Hatha jóga en líklega þúsundir af útfærslum sem gerir það afar fjölbreytt. Þessi jógategud er því fyrirferðarmest en hún er alls ekki flókin þrátt fyrir að fræðin að baki séu ævaforn. Í Hatha jóga er unnið með öndun, stöður og slökun. Með því að stunda Hatha jóga nærir þú líkamann og skapar jafnvægi í stoðkerfinu, nánar tiltekið í starfsemi liðamóta, beina og hreyfivöðva. Einnig hefur iðkunin víðtæk áhrif á innkirtlakerfi, taugakerfi, ónæmiskerfi, vöðva og hringrás öndunar, blóðrásar og meltingar. Þegar þú stundar Hatha jóga eflirðu núvitund, eykur einbeitingu þína og skapar jafnvægi í líkama og huga.

Auk Hatha jóga eru aðrar tegundir af jóga vinsælar hérlendis sem vert er að minnast stuttlega á. Ashtanga jóga byggir á fjórum seríum (e. Primary Series) sem samanstanda af jógastöðum. Ashtanga er kraftmikið og líkamlega krefjandi jóga þar sem lögð er áhersla á flæði, öndun og fókus. Það er ekki fyrir alla en þá líklega helst vegna þess hversu mikill agi hefur einkennt þessa tegund jóga. Þessi tegund hentar sérstaklega vel þeim sem eru lengra komnir og þeim sem sækjast sérstaklega eftir því að koma líkamanum í hugleiðsluástand.

Vinyasa jóga, Power jóga og flestar tegundir af flæðandi jóga með sólarhyllingum heyra beint undir Ashtanga jóga.

Kundalini jóga er stundum nefnt jóga upplifunar en þar byggja æfingarnar á endurteknum, taktföstum hreyfingum þar sem öndunin fylgir með og þannig næst fram hugleiðsluástand.

Kripalu jóga er kennt við meðvitund og er ein tegund Hatha jóga en segja má að allar tegundir jóga sem byggja á líkamsstöðum séu Hatha jóga í grunninn.

F Y R I R   H V E R N   E R   J Ó G A ?

Jóga er fyrir alla, unga sem aldna, létta sem þunga, liðuga og stirða hvort sem það er stundað heima, í köldum sal eða heitum sal. Persónulega finnst mér engu máli skipta hvaða tegund jóga er iðkuð, hvað hún heitir, hvaðan hún kemur og þar fram eftir götunum. Þótt sagan gefi okkur alltaf vissan skilning á því hvers vegna hlutirnir eru eins og þeir eru, eru jógafræðin engin trúarbrögð heldur mannræktarkerfi sem á rætur sínar að rekja til fornrar menningar Indverja síðan 3000 árum fyrir krist.

Jógafræðin eru lifandi vísindi sem hafa þróast í þúsundir ára, en við Vesturlandabúar erum líklega örlítið seinþroska sálir því við fengum ekki veður af þessu kerfi fyrir alvöru fyrr en um miðja síðustu öld. Swami Sivananda, indverskur læknir og jógagúru, kom til Ameríku árið 1957 og rannsakaði lífshætti og þarfir okkar Vesturlandabúa og aðlagaði hinn forna vísdóm jógafræðanna að okkar þörfum með því að skipta þeim í fimm grundvallarreglur. Þær fimm grundvallarreglur sem Sivananda þróaði fyrir Vesturlandabúa eru öndun, stöður, slökun, hugleiðsla og næring. Þessar grundvallarreglur eru ekki aðeins mannbætandi heldur auðgandi fyrir samfélagið í heild. Ef við tileinkum okkur þennan einfalda lífstíl hlúum við ekki aðeins að okkur sjálfum og eigin heilsu heldur verðum við um leið umhverfisvænni og upplifum aukinn frið og hamingju.

Og hver vill það ekki? Ekki eltast við að reyna að breyta heiminum, breyttu þér og heimurinn þinn mun breytast.

Textinn er brot úr bókinni Jóga fyrir alla 

EF ÞÚ ERT ÓVISS HVAÐA TEGUND JÓGA HENTAR ÞÉR, TAKTU ÞÁ PRÓFIÐ:

YogaQuiz_0
Próf frá vefsíðunni The Greatist

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *