Jóga er fyrir alla, unga sem aldna, létta sem þunga, liðuga og stirða hvort sem það er stundað heima, í köldum sal eða heitum sal. Persónulega finnst mér engu máli skipta hvaða tegund jóga er iðkuð, hvað hún heitir, hvaðan hún kemur og þar fram eftir götunum. Þótt sagan gefi okkur alltaf vissan skilning á því hvers vegna hlutirnir eru eins og þeir eru, eru jógafræðin engin trúarbrögð heldur mannræktarkerfi sem á rætur sínar að rekja til fornrar menningar Indverja síðan 3000 árum fyrir krist.
Jógafræðin eru lifandi vísindi sem hafa þróast í þúsundir ára, en við Vesturlandabúar erum líklega örlítið seinþroska sálir því við fengum ekki veður af þessu kerfi fyrir alvöru fyrr en um miðja síðustu öld.
Swami Sivananda, indverskur læknir og jógagúru, kom til Ameríku árið 1957 og rannsakaði lífshætti og þarfir okkar Vesturlandabúa og aðlagaði hinn forna vísdóm jógafræðanna að okkar þörfum með því að skipta þeim í fimm grundvallarreglur. Þær fimm grundvallarreglur sem Sivananda þróaði fyrir Vesturlandabúa eru öndun, stöður, slökun, hugleiðsla og næring. Þessar grundvallarreglur eru ekki aðeins mannbætandi heldur auðgandi fyrir samfélagið í heild. Ef við tileinkum okkur þennan einfalda lífstíl hlúum við ekki aðeins að okkur sjálfum og eigin heilsu heldur verðum við um leið umhverfisvænni og upplifum aukinn frið og hamingju.
Og hver vill það ekki? Ekki eltast við að reyna að breyta heiminum, breyttu þér og heimurinn þinn mun breytast.
Úr bókinni Jóga fyrir alla