Jóga í kuldanum

Það er kominn nóvember og það er svo sannarlega farið að kólna í veðri.  Persónulega finnst mér þessi tími æðislegur vegna þess að það er engin óvissa í veðurfarinu eins og á sumrin. Ég veit að það verður kalt næstu mánuðina og verð ekki fyrir neinum vonbirgðum með veðrið þar sem ég hef engar væntingar gagnvart því.  Ég nýt þess að klæða mig vel, kveikja á kertaljósum og eiga notalegar stundir í kuldanum.

Þegar kalt er í veðri á líkaminn okkar það til að verða stífur og jafnvel aumur, margir næla sér í flensu og húðin á það til að verða þurr. Nauðsynlegt er að huga vel að sér á þessum tíma með því að liðka líkamann reglulega til, bera á sig rakagefandi krem eða olíur, borða næringarríkan mat og taka vítamín.

Margar stöður í yoga geta hjálpað okkur við að halda góðri heilsu á veturna og haldið líkamanum mjúkum og heitum. Yoga stöður örva súrefnis- og blóðflæði líkamans og eru því frábærar til þess að bæta heilsuna.

Eftirfarandi stöður hjálpa við að styrkja öndunarfærin og losa stíflur í nefholum ásamt því að halda líkamanum mjúkum og liðugum í kuldanum.  Til þess að auka árangur og fá sem mestan ávinning frá æfingunum er gott að muna eftir djúpöndun við gerð æfinganna – öndum inn og út um nefið.

1.  Sólarhylling (Surya Namaskara):  Að gera nokkrar sólarhyllingar á hverjum degi hitar upp líkamann og losar úr honum spennu og streitu.  Hún bæði styrkir og eykur bæði liðleika og blóðflæði ásamt því að hreinsa líkama og huga.  Ávinningurinn verður töluvert meiri ef flæðið er gert með áherslu á öndun og ef reynt er að róa hugann. Hér má sjá mjög góðar leiðbeiningar um hvernig á að gera sólarhyllingu.

2.  Fiskurinn (Matsyasana):  Þessi frábæra teygja opnar vel allan efri hluta líkamans. Sagt er að hún útrými flensu þar sem hún losar um þrengsli í lungunum og hjálpar við að auka súrefnisflæði og fylla þau betur að lofti við hverja innöndun.   Einnig styrkir hún öndunarfærin og er góð fyrir fólk með astma. Hér er að finna góðar leiðbeiningar um hvernig á að gera stöðuna.

3.  Boginn (Dhanurasana): Þessi staða opnar brjóstkassann og hálsinn ásamt því að styrkja bakið.  Staðan teygir á mörgum ólíkum stöðum, m.a. öllum fremri hluta líkamans, ökklunum, lærvöðvunum, maganum, mjöðmunum. Hér má sjá frekari leiðbeiningar um hvernig á að gera stöðuna.

4. Loctus staða (Shalabahsanna):  Staðan er einföld, áhrifarík, styrkir og losar spennu úr líkamanum.  Hún styrkir mjóbakið, eykur liðleika í bakinu og getur hjálpað þeim sem glíma við verki í mjóbakinu.  Hún hjálpar við meltingu, eykur einbeitingu, minnkar stress og getur komið í veg fyrir stöðuga þreytu.  Hér má sjá nánari leiðbeiningar um hvernig á að gera stöðuna.

5. Slangan (Bhujangasana):  Hún opnar brjóstkassann og losar um spennu, stress og þreytu í líkamanum.  Hún styrkir bakvöðvana og losar verki og spennu úr mjóbakinu.  Ef staðan er gerð reglulega getur hún hjálpað þeim sem glíma við astma þar sem hún opnar vel öndunarfærin og eykur súrefnisflæði í lungun. Hér með sjá nánari leiðbeiningar um hvernig eigi að gera stöðuna.

6.  Sitjandi frambeygja (Paschimottanasana):  Þar sem lang flestar stöður hér að ofan innihalda mikið af bakfettum er gott að gera eina mótvægisstöðu (e. counterbalance) í lokin.  Frambeygja er ein af mínum uppáhaldsstöðum þar sem hún róar hugann, losar stress og streitu.  Hún teygir vel á bakinu og aftan á lærvöðvunum og því meira sem slakað er á, því dýpra kemst maður inn í stöðuna. Hér með sjá nánari leiðbeiningar um hvernig á að gera stöðuna.

Stöðurnar hér að ofan eru bara dæmi um hvað gott er að gera til þess að bæta heilsuna en auðvitað eru mun fleiri stöður sem geta einnig hjálpað. En einhversstaðar er gott að byrja og því ekki að æfa þessar stöður í vetrarkuldanum og bæta hægt við sig.  Gott er að kynna sér vel hvernig best er að gera hverja stöðu fyrir sig áður en hún er gerð og muna alltaf að gæta varkárni.

Hugsaðu vel um þig í kuldanum og taktu vetrinum opnum örmum í hraustum líkama með bros á vör.

Sara Snædís

 

Tögg úr greininni
, ,

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.