Ertu svöng/svangur?

Það var á gráum rigningardegi fyrir 6 árum þegar ég heimsótti hómópata sem tilkynnti mér að „ég liti alveg hræðilega illa út …..að innan!” Hún mældi mig með furðulegu tæki og sagði mér svo að ég þyrfti að breyta mataræði mínu undir eins. Ég skildi ekki alveg hvernig hún komst að þessari niðurstöðu á þessum stutta tíma, en ég vissi svosem að þetta var satt hjá henni, ég lifði algjörlega á ruslfæði. Og ef maður er það sem maður borðar þá var ég skyndibiti. Þetta var mín fyrsta vakning í sambandi við mat og ein af mörgum. Smátt og smátt fór ég að breyta mataræðinu eftir að hafa reynt að breyta öllu á einum degi maaargoft.

Ég byrjaði á því að fræðast meira um mat, lesa bækur og horfa á “heilsusamlegar” heimildarmyndir. Þó svo að þetta upplýsti mig töluvert um hvað ég ætti að forðast varð ég einnig virkilega ringluð með tímanum. Það voru svo mörg mataræði í gangi og alltaf eitthvað nýtt sem var “best”. Það var oftast þannig að ég var rétt byrjuð að ná tökum á einu mataræði þegar eitthvað annað “kom í ljós” og var talið betra.

HVAÐ ER BEST?

Ég veit ekki ennþá svarið við því hvers konar matarræði er “best” en hef á tilfinningunni að þau svör komi frá innsæi hvers og eins. Fyrir stuttu lærði ég einmitt annað sem styrkti þá trú, en það var að nálgast sjálfa athöfnina að borða á nýjan hátt. Ég var í jógakennaranámi á Indlandi þar sem mikil áhersla var lögð á að borða á meðvitaðan hátt (conscious eating). Lexíurnar sem ég lærði þar tengdust því að vanda hvernig ég borða og spá í hvaðan maturinn kemur, frekar en nákvæmlega hvað það er sem ég læt ofan í mig. Þessi nálgun hjálpaði mér þó samstundis að borða betri fæðu án þess að það væri jafn mikið áták og breytti einnig heilmiklu fyrir meltinguna og almenna vellíðan. Einungis með því að vera meðvitaðri og taka mér tíma.

5 spurningar:

1. Er ég svöng? Stundum þá borða ég einungis af því að mig langar til þess eða af því að ég held að ég eigi að borða. Ég ét líka mjög oft tilfinningarnar mínar sem er ekkert sérstaklega sniðugt (að borða þegar ég er leið, þegar ég er glöð o.sv.fr.) Svo það að spyrja sjálfa mig hvort að ég sé virkilega svöng er virkilega sniðugt fyrir manneskju eins og mig.

2. Hvað er ég að borða? Þessi spurning tengist því hvaðan maturinn kemur og hvernig hann var framleiddur. Er fæðan erfðabreytt? Varð umhverfið, manneskja eða dýr fyrir skaða þegar þessi matur var búin til? Er hann úr nágrenninu eða er búið að flytja hann yfir hálfan hnöttinn? Siðferðislegar spurningar í tengslum við mat hjálpuðu mér hvað mest við að breyta hugarfarinu.

3. Hvernig er ég að borða? Er ég að taka mér tíma í að borða eða er ég að gúffa í mig. Þetta var alveg glænýtt fyrir mér. Ég var týpan sem hámaði í mig yfir tölvunni eða drakk kaffið mitt á hlaupum. Í náminu borðuðum við morgunmat í þögn og tókum okkur tíma í það. Að sitja þarna og gera ekkert annað en að borða án truflana var stórkostlegt. Ég fann strax að ég þurfti minni mat og gat betur fundið fyrir því þegar ég var orðin södd.

4. Hvar er ég að borða? Mér finnst mikilvægt að hafa snyrtilegt rými í kringum mig þegar ég borða. Einnig er gott að hugsa út í hvernig hljóðin eru í umhverfinu, hvort að það sé næði eða þæginleg stemmning. Þá skiptir máli að spá í því í hvernig stól maður situr í, hvort að setið sé í réttri og góðri stöðu, með beint bak svo að meltingin sé sem best.

5. Hvað er ég að hugsa? Að vera þakklát fyrir matinn sem ég borða og að hugsa jákvætt á meðan ég neyti hans segir líkamanum að ég sé að gera eitthvað mjög gott. Neikvæðar hugsanir og annars konar niðurrif sendir líkamanum röng skilaboð. Sama hvað þú ert að borða hugsaðu á meðan að þetta sé það besta sem þú hefur nokkurn tíman fengið!

Takmark innan jógafræðanna er að jógar líti einungis á mat sem orku sem notuð er til að hlaða líkaman en snúist ekki um nautnina sem því fylgir. Ég veit ekki hvort ég mun nokkurn tímann ná því stigi eða hvort mig langi nokkuð til þess en hey, ég er að nálgast meðalveginn!