Andaðu djúpt

Í amstri dagsins eru eflaust fáir sem eyða miklum tíma í að velta því fyrir sér hvernig þeir eru að anda yfir daginn. Algengt er að fólk andi grunnt frá brjóstkassanum þannig að einungis lítill hluti af lungunum er í notkun sem verður til þess að ekki nægilegt súrefni fer út í blóðið. Líkaminn bregst við þessu með því að hraða á önduninni til þess að reyna að auka súrefnis innkomu í líkamann. Þessi hraða öndun viðheldur streitu og spennu í líkamanum.

Að ná að dýpka öndunina, anda frá þindinni eða maganum í stað brjóstkassa, getur hjálpað okkur að slaka betur á, losa okkur við óþarfa streitu og aukið súrefnisflæði út í blóðið. Í jóga er mikið unnið með öndunina og eru jógaæfingarnar gerðar í takt við öndunina þannig að hreyfingar og öndunin vinna náið saman. Jógaæfingar auka skilning iðkandans á því hvernig best sé að hafa stjórn á öndunni og vinna með hana á betri hátt ásamt því að læra að anda djúpum andardráttum, sem getur reynst mörgum mjög krefjandi. Þegar unnið er með öndunina t.d. í jóga eða með önduræfingum (pranayama) þá erum við að styrkja hugann, auka orkuflæði líkamans, styrkja einbeitinguna, efla athyglina og tengjast betur umhverfinu í kringum okkur.

Með því að vera meðvitaðari um öndunina og gera reglulega öndunaræfingar yfir daginn getum við minnkað streitu, kvíða, vöðvaspennu, höfuðverk og margt fleira. Æfingarnar þurfa ekki að vera flóknar né taka langan tíma. Stundum getur meira að segja verið nóg að taka nokkra djúpa andardrætti og halda svo áfram með verkefni dagsins.

Hér að neðan eru nokkrar hugmyndir af öndunaræfingum sem hægt er að gera hvar sem er. Komdu þér fyrir í þægilegri stöðu, með beinan hrygg, slakar axlir og lokaðu augunum ef aðstæður leyfa, til þess að auka einbeitinguna og róa hugann. Veldu þér eina æfingu og gerðu hana 10-15 sinnum í senn, 1-2 sinnum á dag (t.d. kvölds og morgna) :

  1. Andaðu inn um nefið með því að telja rólega upp á fjóra, fylltu lungun eins vel og þú getur af lofti og síðan andar þú út um nefið á fjórum og reynir alveg að tæma lungun. Þú vilt halda sama hraða allan tímann þannig að þú náir jöfnu flæði. Hugsaðu um fjóra punkta á hverri inn-og útöndun þ.e. magi, rifbein, bringa og háls. Þú vilt alltaf byrja öndunina í maganum og færa þig síðan upp. Þú þenur út magann á innöndun og dregur hann síðan inn á útöndun.

  1. Hér ætlar þú að halda inn í þér andann eftir hverja innöndun. Sama tækni gildir og í punkti 1 nema núna ætlar þú að telja upp á fjóra eftir innöndunina og halda inni andanum og síðan mjög rólega að anda út. Passaðu þig sérstaklega vel að missa ekki allt loft út á útöndun eftir að hafa haldið inn í þér andanum. Reyndu að hafa stjórn og halda jöfnu flæði.

  1. Núna ætlar þú að gera öfugt við það sem nefnt var í punkti 2. Þú ætlar að halda inn í þér andanum eftir útöndun. Passaðu þig hér að taka ekki hraða innöndun eftir að hafa haldið í þér andanum.

  1. Taktu eins djúpa andardrætti og þú mögulega getur. Teldu upp á 12 í huganum á hverri inn- og útöndun. Á innöndun ætlar þú að fylla lungun alveg eins mikið af lofti og þú mögulega getur og á útöndun tæmir þú allt loft úr lungunum alveg þar til það er ekkert eftir. Þessi er krefjandi fyrir marga en mjög hreinsandi og styrkjandi fyrir öndunarkerfið.

Sara

 

Tögg úr greininni
, , ,