Ávinningur jógaiðkunar

Eftir að ég kynntist jóga, fyrir nokkrum árum síðan, hef ég lært og upplifað svo margt sem ég er þakklát fyrir á hverjum degi. Ég komst að því að jóga er ekki bara stöður, teygjur eða leið til þess að koma sér í gott form. Jóga hefur miklu fleiri víddir og þegar ég opnaði hugann fyrir því upplifði ég ótrúlega hluti. Þetta hefur fyrir mig verið lærdómsríkt og ómetanlegt ferðalag sem hefur kennt mér að vinna með sjálfum mér og líkama mínum á svo marga ólíka vegu.

Ávinningur jóga er margvíslegur en einnig er hann mjög einstaklingsbundinn. Hann getur verið bæði líkamlegur og andlegur, allt eftir upplifun einstaklingsins. Ávinningur sem jógaiðkandinn öðlast fylgir honum inn í hið daglega líf og gerir hann sterkari, einbeittari og í betra jafnvægi.

Hér eru helstu ávinningarnir sem ótal margir segjast hafa öðlast með reglulegri jógaiðkun:

Þolinmæði: Þegar tekist er á við krefjandi og erfið verkefni í hinu daglega lífi getur oft verið gott að vera með þolinmæðina að vopni. Það að vera þolinmóð/ur heldur þér í jafnvægi og hjálpar þér að vinna betur úr erfiðum aðstæðum. Jóga kennir þér að upplifa núið, læra að vera og halda þér svo í núinu. Það kennir þér að njóta og upplifa augnablikið. Það gerist með því að við jógaæfingar þarftu að einbeita þér að hverri jógastöðu fyrir sig, skilja hana og átta þig á því hvað líkaminn er að gera hverju sinni. Að halda einbeitingu og núvitund er krefjandi verkefni sem tekur mikla þolinmæði. Við jógaæfingarnar lærir þú hægt og bítandi, að efla og styrkja þolinmæðina og með tímanum byrjar þú að tileinka þér hana betur í daglegu lífi.

Aukið sjálfstraust: Mikil sjálfsskoðun og vitundavakning á sér stað við jógaiðkun og þar af leiðandi öðlast maður dýpri skilning á bæði líkama og huga. Með því að kafa inn á við og styrkja tengslin á milli líkamans og hugans eflist sjálfsöryggið og meira jafnvægi myndast. Betri innri þekking eykur sjálfstraustið og styrkir trúna á sjálfum sér. Sjálfstraust er gjöf sem beita verður rétt og gæta verður að misnota ekki. Það getur komið manni langt en einnig unnið gegn manni og því mikilvægt að hver og einn finni sitt jafnvægi.

Einbeiting: Þegar jógastöður eru gerðar þarf að hafa hugann við efnið og læra að vinna með einbeitinguna. Það þarf að efla núvitund og finna og hlusta á líkamann vinna. Mörgum finnst mjög erfitt að halda einbeitingu lengi og þá sérstaklega í jóga þar sem auðvelt er að láta hugann reika ef halda þarf stöðu í langan tíma. Að þjálfa hugann og læra að vinna með einbeitinguna er ómetanlegur lærdómur sem nýtist okkur vel gegn hraðanum  í samfélaginu. Að hafa góða einbeitingu getur hjálpað okkur í mörgu eins og t.d. í samskiptum við aðra, í vinnu, þegar huga þarf að mörgu í einu, við mikið álag og á erfiðum tímum.

Hreinsun: Mikil hreinsun (e.detox) á sér stað í jóga. Jógastöðurnar hjálpa bæði við að hreinsa líkamann sem og að styrkja líffærin. Jógastöður eru þó misjafnar og ávinningur þeirra er ólíkur. Þær geta m.a. styrkt hjartað og önnur líffæri, hreinsað blóðið, aukið súrefnisflæðið um líkamann og stuðlað að betri meltingu. Jóga getur einnig komið í veg fyrir ýmsa kvilla ásamt því að halda niðri sjúkdómum og verkjum. Rannsóknir hafa m.a. sýnt fram á að jóga hjálpi til við að halda niðri mígreni, vinni á bakmeiðslum og geti aðstoðað einstaklinga sem glíma við kvíða eða þunglyndi.

Bætt líkamsstaða: Bætt og betri líkamsstaða er einnig einn af ávinningum jóga. Við jógaiðkun lærist að vera meðvitari um rétta líkamsstöðu. Margir einstaklingar temja sér ómeðvitað óeðlilega og slæma líkamstöðu t.d. við skrifborðið í vinnunni. En með jógaiðkun fer einstaklingur ósjálfrátt að rétta úr sér og sækja meira í heilbrigðari og réttari líkamsstöðu.

Þessir ávinningar sem nefndir eru hér að ofan eru aðeins nokkrir af ótal mörgum. Jóga hjálpar okkur og styrkir sem einstaklinga og er það lærdómsferli ómetanlegt. Ávinningurinn af jógaiðkun næst ekki eingöngu hjá þeim sem eru liðugir eða „góðir“ í jógastöðum. Hann næst hjá þeim sem er trúr sjálfum sér á æfingunni og nýtur þess að stunda jóga.

Sara 

Tögg úr greininni
, , ,