Fiskur með byggottó

Fiskur er hráefni sem maður fær sjaldan leið á. Oft lítum við Íslendingar öfundaraugum til landanna handan hafsins þar sem fjölbreytni er meiri í mat. En ferskleiki fisksins sem við höfum hér er torfundinn annarsstaðar. Í raun má segja að fiskbúðirnar séu okkar matarmusteri með sínum breytileika eftir árstíðum. Annað hráefni sem við höldum mikið upp á er íslenska byggið en það fer einstaklega vel með fiskinum.

Bakaður fiskur með kryddjurtaþekju, byggottói og appelsínujógúrtsósu

– Fyrir 4
1 msk. ólífuolía
4 x 200 g fisksteikur, t.d. þorskur, keila eða blálanga
4 franskbrauðsneiðar, ristaðar
1 1/2 hvítlauksrif, pressað
rifinn börkur af einni sítrónu
1 tsk. sítrónusafi
lauf af u.þ.b. 8 stilkum af ferskum kryddjurtum s.s. steinselju, dilli eða estragoni
1/2 tsk. Maldon-salt

Stillið ofninn á 220°C
Ristið brauðsneiðarnar í brauðrist eða ofni og rífið þær ofan í matvinnsluvél. Bætið við hvítlauksrifinu og sítrónuberkinum. Hakkið niður í grófa mylsnu. Bætið þá við kryddjurtunum, ólífuolíunni og sítrónusafanum og hakkið fínt.
Setjið fiskstykkin á bökunarplötu eða mót sem hefur verið olíuborið. Saltið og piprið fiskinn. Takið mylsnuna og þjappið henni ofan á fiskstykkin.
Bakið í ofni í 10–12 mínútur.

APPELSÍNUJÓGÚRTSÓSA

3 msk. jógúrt eða súrmjólk
3 msk. sýrður rjómi
rifinn börkur af 1 appelsínu
salt og pipar
Hrærið allt saman. 

BYGGOTTÓ

3 msk. ólífufuolía
175 g perlubygg
1 laukur, smátt saxaður
1 hvítlauksrif, smátt saxað
700 ml grænmetis- eða kjúklingasoð
1/2 paprika, skorin í strimla
4 sneiðar beikon, skorið í u.þ.b. 1 cm strimla
salt og pipar

Hitið pönnu og setjið ólífuolíuna á hana. Bætið bygginu saman við og hrærið stöðugt í þar til það hefur tekið á sig gullinn lit eða í 4–5 mínútur. Setjið þá laukinn út í og hrærið stöðugt áfram í 5–10 mínútur. Bætið loks hvítlauknum út í. Hellið þá soðinu saman við og látið malla svo byggið dragi í sig vökvann.

Eftir 25 mínútur, steikið paprikuna og beikonið á annarri pönnu og blandið síðan út í byggottóið. Hrærið í öðru hverju. Látið malla í 10–15 mínútur eða þar til byggið hefur dregið í sig vökvann.

Tögg úr greininni
, , , ,