Betri eða bitrari?

„Ég kalla breytingaskeiðið seinna kynþroskaskeiðið. Þetta tímabil getur falið í sér gríðarmikil tækifæri til umbreytinga og fólk annað hvort orðið betra eða bitrara,“ segir Árelía Eydís Guðmundsdóttir, dósent í leiðtogafræðum við Háskóla Íslands. Hún verður ein fyrirlesara á námskeiði á Heilsustofnun í Hveragerði sem haldið verður dagana 17.-23. febrúar og hefur yfirskriftina Hamskiptin – Breytingskeiðið, sterkari í seinni hálfleik.

Hér má lesa meira um námskeiðið

Seinni hálfleikur undirbúinn

„Á breytingaskeiðinu eiga sér stað miklar líffræðilegar breytingar sem bæði  konur og karlar ganga í gegnum. Auðveldast er að hugsa þetta út frá gelgjuskeiðinu en flestir muna hvaða sveiflur fylgja unglingsárunum en þá byrjar líkaminn að springa út og oft koma fram nýir þættir í persónuleikanum sem ekki hafa áður verið til staðar. Á námskeiðinu verður ekki aðeins fjallað um tíðahvörf og breytingaskeiðið heldur einnig hvernig hægt er að undirbúa sig fyrir seinni hálfleik í lífinu,“ segir Árelía Eydís.

Tilfinningalegt uppnám

Hitakóf og svefnleysi eru ekki einu einkenni breytingaskeiðisins. „Sumar konur fara líka í tilfinningalegt uppnám. Rannsóknir benda til þess að á þessu lífsskeiði séu konur tólf sinnum líklegri til að verða þunglyndar en á öðrum tímabilum í lífi sínu. Með réttu verkfærunum er hægt að nota þann kraft sem breytingaskeiðið hefur í för með sér til að breyta lífinu til hins betra,“ segir Árelía Eydís.

Hún nefnir að sjálfsskoðun sé algjört lykilatriði í því sambandi og einnig að takast á við það sem hingað til hefur haldið konum aftur. „Það getur verið gert á eigin vegum eða með fagaðilum. Oft er gott að byrja á einhverju nýju eða endurnýja ástríðu sína á þessu lífsskeiði og takast á við það sem þarf að taka á, hvort sem það er hjónabandið, vinna, líkami eða sál,“ segir hún.

Spurð hvort hægt sé að láta taka blóðprufu til að sjá hvort breytingaskeið sé hafið segir Árelía Eydís að svo sé. „Þá er mælt hversu hátt eða lágt hlutfall af estrógeni og prógesteróni er í blóðinu en það gefur vísbendingu um var viðkomandi er staddur í ferlinu.“

Árelía Eydís segist leggja áherslu á að konur umfaðmi það sem gerist á breytingaskeiðinu því það hjálpi þeim að verða sterkari í seinni hálfleik. „Það er alveg í lagi að brotna, ganga inn í depurð og sorg en konur ættu ekki að vera hræddar við þetta skeið,“ segir hún.

Á námskeiðinu á Heilustofnun í Hveragerði verður farið yfir líkamlega sem andlega þætti en margar konur átta sig ekki endilega á því þegar þær eru að sigla inn í breytingaskeiðið. „Það er tilgangur með þessu öllu. Við höfum í raun hamskipti og nýtt tímabil tekur við í lífinu,“ segir Árelía Eydís.

Þegar Árelía Eydís er beðin um góð ráð fyrir lesendur Í boði náttúrunnar stendur ekki á svari:

„Það má leyfa sér að finna dimmar tilfinningar, upplifa þær og vita að þetta líður hjá. Fræðsla, fræðsla, fræðsla skiptir öllu máli. Þekktu hverju má eiga von á bæði líkamlega og andlega. Það er svo oft komið að því að gefa sér tíma til hvíldar og ráðrúms og svo má hefja breytingar á lífsstíl sínum ef þess er þörf.“

HÉR ER HÆGT AÐ GERAST ÁSKRIFANDI AÐ Í BOÐI NÁTTÚRUNNAR

Sjá aðra viðburði og námskeið

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.