Betri stofan

Einn af mörgum kostum þess að eiga börn er að þá gerir maður stundum ótrúlega hluti sem manni dytti annars ekki í hug … eins og til dæmis að byggja snjóhús.

Einn laugardagsmorguninn þegar við fjölskyldan vöknuðum var garðurinn þakinn þykku lagi af nýföllnum snjó. Þessi fullkomni, brakandi snjór öskraði bókstaflega á aðgerðir. Þegar allir voru komnir í snjógalla og aðgerðaráætlun lá fyrir var hafist handa við að byggja snjóhús. Fljótt myndaðist myndarlegur hóll sem litlu snúðarnir mínir grófu innan úr af miklu kappi. Eftir dágóða stund og vel unnin störf var snjóhúsið orðið nógu stórt til að hægt væri að skríða inn og tylla sér. Rjóð, sveitt og sæl tylltum við okkur inn með heitt kakó og kex.

snjohus4

Þetta vakti mikla lukku, eða þangað til kakóið var búið. Þá fannst krökkunum nóg komið og drifu sig inn. Ég sat eftir bogin í baki og fannst þetta frekar léleg nýting á þessu myndarlega snjóhúsi. En þá mundi ég allt í einu eftir því að við hjónin áttum von á tveimur gestum um kvöldið og um leið fékk ég snilldarhugmynd – bjóða þeim í snjóhúsið! Full eftirvæntingar og gleði fór ég á flug í innanhússpælingum. Ég þurfti jú að koma fyrir fjórum fullvaxta einstaklingum án þess að þeir fengju í bakið eða frysu á rassinum. Ég tók mér skóflu í hönd og fór að moka og móta. Ég bjó til aukarými með því að grafa fjórar hvelfingar inni í snjóhúsinu, gerði hillur fyrir kertaluktir til að fá góða lýsingu og svefnpoki og ullarteppi komu í veg fyrir gólfkulda. Svo setti ég mottu í anddyrið svo auðvelt væri að fara úr skónum og til öryggis var hitapoki til taks fyrir fótkalda.

Gestirnir birtust grandalausir og eftir borðhaldið bauð ég þeim í betri stofuna – eða út í snjóhús! Þar bauð ég upp á heitt súkkulaði, romm og smákökur sem hurfu hratt ofananí mannskapinn. Nálægðin, einangrunin, kertaljósin og eflaust rommið líka átti sinn þátt í því að skapa stemningu sem erfitt er að lýsa eða búa til inni í stofu undir raflýsingu og nútímaþægindum. Þessi samverustund kallaði á djúpar og einlægar samræður, spádóma og spekúlasjónir um heima og geima.

Voru allir sammála því að þessi notalega samvera í litla snjóhúsinu væri upplifun sem lengi myndi lifa í minningunni.

Vá, hvað það er gaman að leika sér! Takk krakkar!


Texti og myndir Guðbjörg Gissurardóttir

Greinin birtist fyrst í vetrarblaðinu 2013 – Kauptu hér á aðeins 850 kr!

Tögg úr greininni
, , , , ,