BLÓM – NÁTTÚRULEG LOFTRÆSTING

Hreint loft er ekki lengur sjálfsagður hlutur í nútímahíbýlum og það eru pottaplöntur ekki heldur. Minimalískir tískustraumar hafa ekki verið blómunum hliðholl, en það hefur aldrei verið meiri ástæða til að koma þeim aftur í tísku en einmitt nú.

Margir líta á blóm fyrst og fremst sem augnayndi á meðan aðrir sjá blómin sem gamaldags vandræðagripi og tímaþjófa sem erfitt er að halda lífi í. Þetta eru góð og gild sjónarmið en þegar skoðað er hvers megnug blómin eru í því að bæta umhverfi okkar og heilsu þá mun álit margra á þeim eflaust breytast. Inniblóm hafa í raun aldrei verið eins mikilvæg og einmitt núna. Í nútímaþjóðfélagi þar sem við erum umkringd verksmiðjuframleiddum hlutum, hreinsiefnum og rafbylgjum frá tölvum, sjónvarpi og öðrum raftækjum, þá er loftmengunin oft á tíðum meiri inni í híbýlum okkar en hún er úti á götu. Í dag eyðir fólk einnig meiri tíma innanhúss og situr jafnvel við tölvu stóran hluta af deginum. Þetta skapar meiri streitu á líkama og sál en við gerum okkur grein fyrir. Fjöldi rannsókna á síðustu árum gefa til kynna að gamla góða inniplantan sé áhrifarík vörn gegn þessum neikvæðu áhrifum nútímalifnaðar. Með því að koma plöntum fyrir inná heimilum, vinnustöðum og í skólum er hægt að draga úr veikindum, minnka stress, auka einbeitingu og afköst ásamt því að auka almenna vellíðan.

Betra andrúmsloft

Allar plöntur nýta koltvísíringinn sem við öndum frá okkur og gefa í staðinn frá sér súrefni út í andrúmsloftið. Þetta mikilvæga ferli köllum við ljóstillífun. Allar plöntur hafa þann eiginleika að hreinsa andrúmsloftið í einhverjum mæli. Laufblöðin og moldin soga til sín óhreinindi og óæskileg efnasambönd úr andrúmsloftinu sem koma m.a. frá málningu, teppum, húsgögnum, tölvum og hreinsiefnum. Eiturefnin flytjast frá blöðum blómanna niður í rótarkerfið og breytast þar í næringu sem plantan tekur og nýtir sér. Fullkomin endurvinnsla! Það hefur einnig góð áhrif á rakastig híbýla (40-60% raki er talinn ákjósanlegur), að hafa plöntur inni þar sem þær gefa frá sér 97% af því vatni sem þær fá við vökvun. Þetta á þó frekar við um vatnsfrekar plöntur. Einnig hafa blóm þann eiginleika að geta minnkað vonda lykt og dregið úr umhverfishljóðum.

Ánægðari starfskraftar

Það hefur verið vitað um alllangt skeið að fólk sem vinnur lengur en 4 tíma við tölvu á dag hefur meiri afkastagetu og er almennt ánægðara þegar blóm eru á vinnustaðnum. Nýleg rannsókn sem framkvæmd var í Þýskalandi af TNO- quality of life, sýnir að plöntur geta einnig haft andlega nærandi áhrif. Rannsóknin sýndi fram á það að blómin höfðu sérstaklega góð áhrif á þá sem voru með heilsubresti og mjög þreyttir. Því má einkum þakka endurnærandi áhrifum plantna. Plöntur tengja fólk við það náttúrulega umhverfi sem við lifðum og þróuðumst í, í margar aldir. Þess vegna líður fólki vel í náttúrulegu umhverfi og endurnærist oft og afstressast við það eitt að fara út á græn svæði.

Önnur rannsókn sem framvæmd var af landbúnaðarháskóla í Noregi sem náði til 305 starfsmanna á þremur mismunandi vinnustöðum, sýndi fram á það að því fleiri plöntur sem væru í augsýn því færri veikindadagar. Þessi rannsókn sýndi líka fram á það að plönturnar gátu dregið úr þreytu, komið í veg fyrir þurrk í hálsi, hausverk og þurra húð. Geta plantnanna til að hreinsa vissa loftmengun var helsta skýringinn á þessum mun og svo eflaust þau góðu andlegu áhrif sem m.a. plönturnar hafa með því að gefa tilfinningu fyrir heilbrigðara umhverfi. Svipuð rannsókn sem framkvæmd var á spítala í Noregi sýndi fram á mælanlega hreinna loft þar sem plöntur voru í herbergjum og eftir að blómum hafði verið komið fyrir á röntgendeild spítalans þá fækkuðu vekindadögum starfmanna deildarinnar um rúm 60%. Radium spítalalinn í Osló tók einnig þátt í 5 ára tilraun þar sem plöntum var dreift um spítalann og fækkaði það vekindadögum úr 15% í rúm 5%. Kannski blómin geti komið íslensku heilbrigðiskerfi til bjargar enda felst mikill sparnaður í færri veikindadögum hjá stórum vinnustöðum og í kaupbæti fengist hreinna loft, fegurra umhverfi og ánægðara starfsfólk!

Talið er að ein stór planta á tvo starfsmenn eða 1 stór planta á hverja 12 fermetra dugi til að kalla fram jákvæð áhrif. Einnig er talið áhrifaríkara að hafa blómin í augsýn þannig að þegar litið er upp frá vinnu þá blasi fallegt blóm við starfsmanninum.

Aðdráttarafl blóma

Með öll þau góðu áhrif sem pottablóm hafa á umhverfi sitt þá virðast þau líka hafa einstakt aðdráttarafl. Rannsókn á vegum Royal Collage of Agriculture í Cirencester í Bretlandi gerði samanburð á tveim kennslustofum, önnur með blómum og hin án blóma og tók saman áhrifin sem þessi ólíki aðbúnaður hafði á nemendur. Nemendurnir sóttu fyrirlestra einu sinni í viku og voru látnir mæta aðra hvora viku í kennslustofu án blóma og hina vikuna í þá með plöntunum. Fylgst var með nemendum með upptökuvélum í heila önn. Niðurstaðan var sú að mætinginn var 100% í blómastofunni en ekki nema 86% í stofunni án blóma. Ókyrrð var um 70% minni í kennslustofunni með plöntunum. Í annarri samanburðarrannsókn var sýnt fram á meiri afkastagetu og betri athygli hjá þeim sem lærðu með blóm í umhverfinu. Og nú þar sem stór hluti nemenda í framhaldskólum og háskólum mætir með fartölvuna sína í tíma þá ætti að vera enn meiri þörf fyrir blóm í umhverfinu til að stemma stigu við öllum þeim raftækjum og mengun sem við komumst í snertingu við í nútímakennslustofu.

Það er því ljóst af öllum þeim rannsóknum sem gerðar hafa verið á áhrifum pottaplantna á umhverfið okkar og líðan að það getur margborgað sig að gera sér ferð útí blómabúð og velja nokkrar fallegar og gagnlegar plöntur til að hreinsa loftmengun, auka súrefni í andrúmsloftinu og um leið gera umhverfi okkar meira aðlaðandi. Mikilvægt er þó að velja plöntur sem henta okkar lífstíl og önnum. Það eiga allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Greinin birtist árið 2010 í vetrarblaði Í boði náttúrunnar. Kauptu eintak af blaðinu HÉR, aðeins 850 kr. Frí heimsending!

Ljósmynd: Jón Árnason