Dísæt og einföld skyrkaka

dísæt og einföld skyrkaka
UPPSKRIFT Hadda Björk Gísladóttir MYNDIR Karl Petersson

Hadda Björk Gísladóttir er meðlimur í kvennaklúbbi sem kallar sig Saumasysturnar. Þær eru ellefu manna hópur, sem byrjuðu með klúbbinn þegar þær voru 15 ára gamlar. Í hverjum mánuði yfir vetrartímann hittast þær og hafa gaman. Stundum sauma þær eða prjóna en í allri hreinskilni sagt þá er megintilgangur fundanna sá að borða góðan mat og njóta félagsskapar hver annarrar. Þessi skyrkaka er dísæt, einföld og hefur verið gerð í ófá skipti.

Skyrkaka (fyrir 11 manns)

Hráefni 

1 pakki kanilkex
80 gr smjör
500 gr vanilluskyr
500 ml þeyttur rjómi
Sulta af hvaða gerð sem er
Ber til skreytingar 

Kremjið kexið þar til það er orðið að fínum mulningi. 

Bræðið smjörið og blandið saman við kexið og setjið í form og pressið niður. 

Blandið skyri og rjóma saman og hellið yfir kexið. 

Setjið sultuna yfir allt og skreytið með berjum. 

Í Hrífunesi Guesthouse, sem staðsett er milli Vík og Kirkjubæjarklausturs, blasir landslagið við allt um kring enda fullkominn áningarstaður fyrir ferðamenn sem vilja skoða og upplifa náttúru landsins. Haukur og Hadda, eins og þau eru kölluð, hafa gert upp og rekið gistiheimilið síðan 2010 og hefur mikil uppbygging átt sér stað síðan. En þau bjóða ekki einungis upp á gistingu heldur ljósmyndaferðir, þar sem Haukur fer með ferðamenn um nágrennið í þeim tilgangi að fanga fegurðina. Maturinn sem Hadda hefur veg og vanda að má svo kalla sanna matarupplifun, sem gestir þeirra hafa mært í hástert, og er ómissandi partur af dvölinni í Hrífunesi. Þau tóku sig saman ekki alls fyrir löngu og gerðu skemmtilega matreiðslu- og ljósmyndabók, sem segir sögu þeirra, staðarins og nágrennis á einstaklega fallegan og girnilegan hátt. 

Sjá einnig Ilmandi eggabaka Elfu

Þessi grein er úr sumarblaði Lifum betur – í boði náttúrunnar 2021.