Með lítilli fyrirhöfn er hægt að skipta yfir í umhverfisvænni hreinsiefni og sápur sem lágmarka skaðann á náttúrunni en virka jafn vel. Enn skemmtilegra og ódýrara er að búa til sín eigin hreinsiefni, t.d. með matarsóda, ediki og jurtasápu. Þegar búið er að bæta við nokkrum dropum af ilmkjarnaolíu erum við ekki aðeins komin með vellyktandi heimagerðan uppþvottalögur heldur kröftugt efni sem virkar vel bæði á líkama og sál.
Eldhúsið er hjarta heimilisins en því miður líka himnaríki fyrir sýkla. Um leið er eldhúsið sennilega sá staður heimilisins þar sem mest er notað af hreinsiefnum. Vikulega munum við birta uppskriftir að umhverfisvænum tilbrigðum við hefðbundin hreinisefni. Gott er að nota uppskriftirnar sem grunn og þróa svo sína eigin uppskrift með þeim ilmi sem er í mestu uppáhaldi.