Eins og við minntumst á í síðasta pistli ætluðum við að gefa ykkur kæru lesendur innsýn inn í þær hefðir sem við Ampersand stúlkur höldum heilagar að kvöldi dags. Það er dásamleg tilfinning og sannkölluð töfrastund þegar maður hreinsar af sér borgina, þreytuna og ef til vill snyrtivörurnar eftir daginn.
Síðast stungum við upp á að flétta tedrykkjuna inn í andlitshreinsun kvöldsins. Kamillute er tilvalið til einmitt þess og erum við miklir aðdáendur þess að nýta, njóta og gefa aukin tilgang.
Hreinsir : Kamillu- og lavender hreinsivatn/te
Blandið í teketil:
2 msk þurrkuð kamillublóm
1 msk þurrkuð lavenderblóm
Fáðu þér tebolla, leyfðu afgangnum að kólna, bleyttu svo þvottastykki upp úr vökvanum og þvoðu andlitið með því. Afgangin af teinu er svo kjörið að geyma í ísskápnum því það er ekki verra að blandan sé köld þegar hún er notuð. Bæði kamillu og lavenderblómið ætti að vera auðvelt að nálgast í bæði stórmörkuðum og heilsubúðum.
Kamillublómið eins og áður var nefnt er gætt ýmsum góðum eiginleikum og hjálpar meðal annars við svefn og stöðugleika í maganum. Þegar það er notað í andlitsvatn er það einnig sérstaklega gott þar sem það sótthreinsar húðina á mildan og náttúrulegan hátt.
Lavenderblómið hefur löngum verið til margs nýtt; allt frá því að hreinsa sár, sporna við svefnvandamálum og lækna höfuðverk til þess að lavender-vöndum var komið fyrir inni í klæðaskápum til að dreifa hinum ljúfa ilmi blómsins. Einnig má nota blómið til slökunar, sem kvíðastilli, og við maga- og meltingatruflunum. Það er einnig sagt frábært fyrir barnshafandi konur til að losna við bjúg og til að minnka ásýnd slita fyrir og eftir barnsburð. Listinn um kosti Lavender er ansi langur en hér er aðeins stiklað á stóru um gæði blómsins. Lyktin af Lavender er náttúrulega himnesk og hún ein myndi nægja til að Lavender fengi að vera með í hreinsivatninu okkar.
Tóner : Indverskt rósavatn & Eplaedik
Eplaedik notum við sem tónik eða andlitsvatn en það inniheldur súlfur sem hægir á öldrun húðarinnar. Eplaedikið vinnur einnig á roða og hjálpar til við að koma jafnvægi á PH-gildi húðarinnar.
Næst setjum við svo á okkur:
Rósavatn en það er frábært til að ferska aðeins upp á húðina eftir að hún hefur verið þrifin. Það á ekki eingöngu við þegar um kvöldhreinsun er að ræða heldur finnst okkur gott að hafa rósavatn á spreybrúsa í töskunni svona til að fríska sig upp í amstri dagsins. Það rósavatn sem við notum er indverskt, en til er alls kyns rósavatn og fæst í flestum heilsubúðum og jafnvel apótekum.
Athugið að best er að nota bómul til að bera eplaedikið á húðina og slíkt hið sama má að sjálfsögðu gera með rósavatnið þó okkur þyki einkar hentugt að hafa það í spreybrúsa.
Næturkrem : Argan olía/möndluolía
Þegar þú hefur hreinsað húðina er upplagt að nota hreina arganolíu til að gefa húðinni raka yfir vetrartímann en möndluolía hentar líka vel, sér í lagi fyrir fólk sem er með blandaða húð, þar eð feita sums staðar og þurra á öðrum stöðum.
Varasalvi : Hunang
Að lokum má svo setja hunang á varirnar, hungangið nærir og gefur raka svo þær verða dúnmjúkar þegar þú vaknar daginn eftir. Það er ekki aðalatriði hvernig hunang er notað en því hreinna því betra. Svo skemmir það ekki fyrir að morgunkossinn verður líka hunangssætur.
Ein besta leiðin til að halda húðinni ungri og fallegri er að hreinsa vel og þessi hreinsunarrútína er bæði fljótleg og ódýr og stuðlar auðvitað að hollri tedrykkju!
Njótið vel