Eldhúsapótekið: Kvef

Þegar hiti og kuldi skiptast oft á er líkt og ónæmiskerfi allrar þjóðarinnar fari í uppnám. Það fer að leka úr litlum jafnt sem stórum nefjum og hóstaköst halda vöku fyrir heilu fjölskyldunum. Forvarnir eru að sjálfsögðu besta meðalið. Það er mikilvægt að halda öllum í jafnvægi, nærast vel, fá góða hvíld og upplagt er að stunda jóga.

En raunveruleikinn er þó sá að forvarnir virka ekki alltaf og áður en maður veit af er einhver er orðinn veikur og maður er kominn í hlutverk heimilislæknisins. Eftir því sem börnin mín verða eldri verða þau tregari til að taka þátt í heilunartilraunum mínum. “ Ekki að ræða það að ég drekki þetta ógeð!” kemur iðulega frá unglingnum þegar ég hef útbúið seyði sem á að lækna meinið. Það er aðeins auðveldara að eiga við minni börnin sem trúa enn á móður sína. Að sjálfsögðu geri ég líka tilraunir á sjálfri mér ef á þarf að halda. Í fyrravetur fór ég á námskeið hjá hollenska mannspekilækninum Aart van der Stel, þar sem hann kenndi fólki að nota meðal annars sítrónu og lauk og annað hráefni sem tiltækt er á heimilinu til lækninga. Þar fékk ég enn fleiri ráð sem nýta má þegar veikindi banka á dyrnar. Í framhaldi af því ákvað ég að safna saman aðferðum sem hafa virkað vel í minni fjölskyldu í bland við nokkrar af aðferðum Arts og svo bætti ég við öðrum góðum húsráðum úr hinum og þessum áttum. Hafa verður í huga að eldhúsapótekið er aðeins viðbót við hefðbundnar læknisaðferðir og lyf og ef einhver óvissa ríkir um sjúkdómsgreiningu eða alvarleika ástandsins þá skal að sjálfsögðu leita læknis. Eldhúsapótekið verður reglulegur liður á ibodinatturunnar.is og fyrst tökum við kvefið fyrir: 

KVEF

Það er alltaf áhrifaríkast að byrja meðferð um leið og fyrstu einkenni finnast en þannig getur maður annaðhvort komið í veg fyrir veikindin eða stytt tímann sem það tekur að jafna sig. Kvef smitast fyrst og fremst með handasnertingu og því er mikilvægt að þvo sér reglulega um hendurnar. Það er gott að sneiða hjá slímmyndandi mat eins og mjólkurvörum, banönum og appelsínum (þær geta valdið ofnæmi). Einnig ber að forðast allan unninn sykur því hann veikir ónæmiskerfið. En mikilvægt er að hvílast vel á meðan pestin gengur yfir annars er hætta á því að veikindin dragist á langinn. Sýklalyf duga ekki gegn kvefvírusum en ef kvefið virðist ekki vera að batna eftir 10 daga þá gæti verið um bakteríusýkingu að ræða (oft í ennisholum) og borgar sig þá að fara til læknis.

LAUKUR: Skerið hálfan lauk í búta og setjið inn í grisju eða sokk og leggið á koddann þegar farið er að sofa. Laukurinn getur ráðið niðurlögum kvefs ef hann er notaður strax í upphafi veikinda.

HVÍTLAUKUR: Hrár hvítlaukur virkar betur en eldaður. Kreistið 2 – 3 hvítlauksrif og setjið saman við olíu og takið inn með skeið eða setjið hann út í mat. Einnig er gott að gera te. Setjið heitt vatn í bolla og kreistið 2 hvítlauksrif úti og látið standa í eina eða tvær mínútur. Bætið teskeið af hunangi útí og drekkið. Endurtakið eftir þörfum. Gott er að setja tvo dropa af hvítlauksolíu í nefið og leggjast aftur í fimm mínútur, það dregur úr hættu á að sýkingin fari út í eyru.

TÓMATSAFA TE: Blandið saman einu glasi af tómatsafa, safa úr tveimur sítrónum, tveimur kreistum hvítlauksrifjum, tveimur matskeiðum af hunangi og örlitlu af cayenne pipar. Setjið í pott og hitið við vægan hita í nokkrar mínútur og drekkið nokkrum sinnum yfir daginn. Stillið styrkleika eftir þörfum. Virkar einnig vel á hósta, hálsbólgu og eyrnabólgu.

VATNSGUFA: Setjið sjóðandi vatn í skál og andið gufunni að ykkur. Hyljið höfuðið með handklæði. Gott er að setja 2-5 dropa af eucalyptus, piparmyntu eða lavender ilmkjarnaolíu út í. Fyrir ung börn er gott að láta heitt vatn renna inni á baðherbergi með lokaðri hurð og búa til nokkurs konar gufubað. Endurtakið 2 – 3 sinnum yfir daginn.

SALTVATN: Volgt saltvatn getur getur losað um stíflað nef. Setjið 1 tsk. af salti út í glas af vatni og hrærið. Saltvatninu er síðan hellt uppí aðra nösina með svokölluðum “netti pot”. Ef þessi sérstaka kanna er ekki til á heimilinu (fæst í heilsubúðum) þá er hægt að nota stóra plastsprautu. Hallið höfðinu niður yfir vaskinn og sprautið vatninu inn í aðra nösina og fljótlega fer að renna út um hina og þannig hreinsar og losar saltvatnið um slím og annan óþverra. Gott að gera þetta reglulega á meðan á kvefinu stendur. Þetta heldur líka raka í nefgöngunum og þá eiga bakteríur erfiðar uppdráttar. Virkar einnig vel til að halda gróðurofnæmi í skefjum.

C VÍTAMÍN BÚST: Gott er að blanda saman C-vítamínríkum ávöxtum eins og kíví, jarðarberjum og sítrónu og búa til bragðgóðan ávaxtahristing. Það er gott að þynna hann með vatni fyrir krakka.

KJÚKLINGASÚPA: Sterk kjúklingasúpa (ekki úr dós) með nóg af chili eða cayenne pipar hjálpar til við að þynna og losa um slím í lungum.

VATN: Drekka vel af vatni (6-8 glös á dag) og kreista jafnvel sítrónu út í.

TE: Nokkrar tegundir tes eru góðar við kvefi og flensu eins og til dæmis lakkrís te og grænt te.

FÆÐA/FOOD - fyrir matgæðinginn

Sérrit Í Boði náttúrunnar um mat og matarmenningu á íslensku og ensku. skoða nánar

Gjafaáskrift

Gefðu fallega og innihaldsríka gjöf Skoða nánar

Tögg úr greininni
,