Eldhúsapótekið – Hósti

Það er algengt að árstíðir virðast færast til. Einn daginn er vor í lofti og svo allt í einu, skyndilega kyngir niður alveg heilum helling af snjó!  Í slíkum hitabreytingum er algengt að fólk taki til sín pestir sem taka á sig ólíkar myndir. Eldhúsapótekið heldur áfram en nú tökum við saman náttúruleg húsráð við hósta.

Hósti

Hósti gefur til kynna að líkaminn sé að losa sig við slím eða annan skít í öndunarfærum. Hóstamixtúrur eru misáhrifaríkar og brjóstsykur dugar sjaldnast. Reynið frekar eftirfarandi:

RÓFA: Skerið rófu til helminga og skafið úr henni miðri þannig að góð hola myndist. Setið hunang ofaní rófuna og látið standa í 2-3 tíma. Þegar hunangið er búið að draga til sín safa úr rófunni er það tekið inn með skeið. Hægt að geyma í krukku í nokkra daga.

LAUKUR: Setja hálfan lauk inn í grisju eða sokk og tyllið honum á koddann þegar maður fer að sofa.

HUNANG: Hunang og sítrónusafi hafa góð áhrif á flestar tegundir hósta. Hrærið þessum tveimur hráefnum saman og takið með skeið nokkrum sinnum yfir daginn.

HVÍTLAUKUR: Látið smáttskorinn eða pressaðan hvítlauk liggja í hunangi yfir nótt og takið með skeið eftir þörfum. Gott er að bæta smá turmeric útí sem er mjög heilandi krydd.

EPLAEDIK: Til að losna við kláðann sem veldur oft óstjórnlegum hósta settu tvær msk. af eplaediki ásamt tveimur msk. Af hunangi út í örlítið af volgu vatn og drekktu. Gott að taka fyrir svefninn.

FJALLAGRÖS: Búið til te úr fjallagrösum og drekkið yfir daginn. Einnig er gott að gera drykk með 1 stk. apótekaralakkrís og ca. hálfum poka af fjallagrösum. Sjóðið í 1.1/2 lítra af vatni og látið malla í smástund. Hellið á flösku og þá áttu heimatilbúinn hóstasafa.

SÍTRÓNA: Vefjið sítrónubakstur um hálsinn. Kreistið sítrónu í c.a. 20 gráðu heitt vatn, dýfið efnisbút ofan í og vindið. Skellið þessu utan um hálsinn og vefjið ullartrefli yfir.

Þessi grein er úr vetrarblaði Lifum Betur – í boði náttúrunnar 2010

 

 

Tögg úr greininni
,

1 athugasemd

Lokað er fyrir athugasemdir