Ebba Guðný: Hreinar húð- og snyrtivörur

Ebba Guðný stendur brosandi úti í fallegu vetrarveðri.
Ljósmynd/ Nína Björk Hlöðversdóttir

Ebbu Guðnýju heilsukokk þurfum við vart að kynna. Hún hefur um árabil miðlað visku sinni um góðar matarvenjur til þjóðarinnar, gefið út matreiðslubækur, haldið fjölda námskeiða, verið með matreiðsluþætti og áfram gætum við talið.
Ebba leggur ríka áherslu á að borða hreina og holla fæðu, en segir það ekki síður mikilvægt að nota hreinar snyrti- og húðvörur. Við fengum hana til að segja okkur frá sinni snyrti- og húðrútínu.

 

Húð

Ég reyni að bera ekkert á húðina annað en það sem er eiturefnalaust og helst það sem má borða. Ég nota nánast eingöngu lífrænar/hreinar snyrtivörur og krem. Ég er mjög hrifin af Taramar kremunum og hef notað þau í um 5 ár. Ég nota nánast enga sápu á húðina nema einstaka sinnum smá sturtusápu frá Weleda sem er gott og hreint merki. Einnig á ég alltaf svitalyktareyði frá þeim. Ég set kaldpressaða kókosolíu í handakrikana og á fæturna áður en ég fer í sturtu, olían tekur alla lykt og mýkir. Kókosolían er þar að auki sveppa- og bakteríudrepandi. Svo hef ég notað kaldpressaða kókosolíu til að taka af mér farða í mörg ár og geri enn (sem og heitt vatn og bómull/þvottapoka). Mér finnst það langþægilegast. Ég þurrbursta stundum húðina fyrir sturtu en nenni því bara einstaka sinnum 🙂

Hár

Ég er með þykkt, þurrt, óstýrilátt og krullað hár. Sem er orðið enn þá þurrara af því ég lita það ljóst núna, því ég er farin að grána. Ég nota náttúrulegt, lífrænt og fáránlega gott sjampó og hárnæringu í hárið mitt sem heitir Bruns og er frá Grænu stofunni. Græna stofan er lífrænt vottuð hárstofa og hægt er að kaupa áfyllingar þannig að maður kaupir ekki aftur og aftur hárvörur í plasti heldur notar alltaf sömu brúsana. En ég þvæ hárið mitt bara einu sinni í viku.

Ilmur

Ég nota bara ilmkjarnaolíur sem ilmi. Ég kaupi aldrei ilmvötn með kemískri lykt og þoli mjög illa kemíska lykt. Stundum er hægt að kaupa roll on með ilmkjarnaolíu blöndum og þá nota ég það sem ilmvatn. Ég á alltaf ilmkjarnaolíur og úða þeim á mig eftir því í hvernig stuði ég er. En oft nota ég bara enga ilmi.

Ljósmynd/Lucinda Du Toit

Farði

Ég nota líklega Pacifica og mest en einnig Lavera, Sante, Inika og Anni Marie Börlind sem dæmi.

Næring og svefn

Ég reyni að fá nægan svefn og er því að reyna að vera komin upp í rúm ekki seinna en klukkan 23. Legg áherslu á orðið reyna! Það eru nokkur ár síðan ég hætti að vinna á kvöldin í tölvunni. Það jók á streitu hjá mér svo ég er hætt því. Ég les yfirleitt í smástund uppi í rúmi. Það er róandi og notalegt.

Ég borða fjölbreyttan og hreinan mat. Oftast einfaldan því hann fer betur í magann minn. Ég reyni að vera ekki sí-bryðjandi bætiefni en ég passa vel upp á D-vítamínið, B12 og járnið mitt. Einnig tek ég yfirleitt magnesíum Threonite frá Dr. Mercola áður en ég fer að sofa. Svo tek ég MSM ef ég er með verki einhvers staðar. Svo á ég alltaf til oreganó og negul hylki ef einhver veikindi gera vart við sig en D-vítamín og nægar járnbirgðir styrkja líka ónæmiskerfið gífurlega og bægja alla jafna frá umgangspestum. Svo finnst mér astaxhan gera húðina mjög fallega og tek það alltaf með mér ef ég fer til útlanda í sól. Maður verður fallega brúnn fyrr, brennur síður og liturinn helst lengur (tek það líka er ég er komin heim). Einnig tek ég stundum joð. Það er joð í vegan spreyinu frá Better You sem dæmi.