Mæja systir gaf mér hugmyndina að þessum rétti. Það er svo skemmtilegt með mat að stundum þarf maður ekki uppskriftina – stundum er bara nóg að fá hugmynd að rétti og svo föndrar maður eitthvað sniðugt í eldhúsinu.
Þó að ég segi sjálf frá þá er þessi réttur ákaflega vel heppnaður. Hann er heldur ekki flókinn og inniheldur ekki mörg hráefni eða trilljón krydd. Hann tekur reyndar svolítinn tíma í undirbúningi ef maður tekur tímann með sem fer í að búa til kasjúhnetuostinn og leggja kínóagrjónin í bleyti. Fyrir utan það þá er þetta frekar einfaldur réttur sem allir ættu að geta eldað.
Eggaaldin með sveppa- og kínóafyllingu, sætum kartöflum og kasjúhnetuost
HRÁEFNI:
½ bolli kínóa, lögð í bleyti yfir nótt
3 stk eggaldin
1 msk kókosolía
1 lítill laukur
1 box af sveppum
3 litlar sætar kartöflur eða ein stór
sjávarsalt og pipar
+ smá paprikuduft og hvítlauksduft (má sleppa)
kasjúhnetuostur, magn eftir smekk (sjá uppskrift HÉR)
AÐFERÐ:
1. Skolið kínóagrjónin vel og sjóðið í potti ásamt 1 bolla af vatni. Þegar allur vökvi er farinn af kínóagrjónunum þá eru þau tilbúin. Setjið grjónin til hliðar á meðan þið steikjið grænmetið. Ath. það er mjög mikilvægt að láta kínóa liggja í bleyti áður en þau eru soðin. Ef þið sjóðið þau án þess að láta þau liggja í bleyti þá er hætta á að það fylgi þeim rammt aukabragð (sem er ekki gott). Auk þess styttir það suðutímann töluvert að vera búinn að leggja grjónin í bleyti (þetta á líka við um baunir).
2. Stillið bakarofninn á 200° (með blæstri).
3. Setjið kókosolíuna í pott og stillið á hæsta straum.
4. Saxið laukinn fremur smátt niður og steikjið. Ef ykkur finnst vanta meiri vökva til að steikja, setjið þá smá vatn í pottinn. Óþarfi að setja meiri olíu.
5. Saxið sveppina fremur smátt niður og setjið í pottinn og steikið.
6. Kryddið með sjávarsalti og vel af svörtum pipar. Ég setti líka smá hvítlauksduft og paprikukrydd en það er ekki nauðsynlegt.
7. Setjið kínóagrjónin út í og hrærið vel saman.
8. Saxið sætu kartöflunar niður og setjið í pottinn. Ég er farin að kaupa aðeins lífrænar sætar kartöflur enda svo miklu betri á bragðið en þær ólífrænu. Lífrænu sætu kartöflurnar eru mun minni að stærð en ólífrænu. Ef þið notið ólífrænar þá þurfið þið sirka eina stóra, annars þrjár. Eins ef þið notið lífrænar þá getið þið haft hýðið á en ég mæli eindregið með því að flysja ólífrænu sætu karöflurnar.
9. Steikið sætu kartöflurnar í smá stund eða þar til þær byrja að mýkjast. Þær þurfa ekki mikinn tíma í pottinum því að þær eiga eftir að bakast meira í bakaraofninum.
10. Þvoið eggaldinin vel, sér í lagi ef þau eru ekki íslensk eða lífræn. Ég mæli með GSE (grapefruit seed extract) til að þvo grænmeti en það er alveg náttúrulegt efni og þrífur grænmeti og ávexti sérlega vel.
11. Skerið eggaldinin í tvennt og skafið innan úr þeim.
12. Notið stóra skeið til að setja fyllinguna í eggaldinin. Ath. Það er líklegt að það verði einhver afgangur af fyllingunni, fer þó allt eftir því hvað eggaldinin eru stór sem þið notið.
13. Setjið kasjúhnetuostinn yfir og kryddið með smá svörtum pipar.
14. Bakið í ofni í sirka 20 mín.
Njótið!
Ást & friður
Ykkar,
J Ó H A N N A