Fyrir 18 árum steig ég fyrst fæti á Traustholtshólma í Þjórsá. Þá líkt og núna var það í fylgd Hákonar Kjalar Hjördísarsonar en eyjan hefur verið í eigu fjölskyldu hans um langt skeið. Á sínum tíma voru viðraðar háleitar hugmyndir að uppbyggingu á þessari fallegu eyðieyju en engin þeirra var neitt í líkingu við þá aðstöðu sem Hákon hefur komið sér upp þar í dag. Nú getur hann búið og starfað í eyjunni á sumrin og siglt um Karabíska hafið á veturna.
Hákon hefur alla tíð haft sterkar taugar til hólmans sem hefur gengið mann frá manni í fjölskyldu hans. Fyrir rúmu ári eða þegar hann varð fertugur féll hólmurinn í skaut hans og uppbygging fór á fullt skrið. Ég frétti að hann væri að byggja upp ferðaþjónustu með sjálfbæru tvisti og lék forvitni að vita meira og var tekið vel í heimsókn númer tvö.
Hákon beið mín, ásamt hundinum Skugga (sem fylgir honum eins og skugginn), við bakkann neðst í Þjórsá. Þar stigum við um borð í gúmmíbát, sem er eina leiðin til að komast út í hólmann. Hólminn var upphaflega fastur við meginlandið og var þá bæjarstæðið kallað Traustholt en breyttist í Traustholtshólma eftir mikið flóð í Þjórsá í lok 17. aldar. Tengingin við land rofnaði og nýr árfarvegur myndaðist, sem eflaust hefur gerbreytt lífi ábúenda á sínum tíma. „Það hefur verið búið á jörðinni í c.a. 1000 ár og er hún talin vera ein af fyrstu landnámsjörðunum og var þetta stórbýli þar til 1880 eða þegar Magnús Guðmundsson bóndi lagði niður búskap. Það hefur ýmislegt komið í ljós þegar ég hef verið að grafa holur á eyjunni, eins og bein, gamall mór, hleðslur og fornt eldstæði sem fornleifafræðingar telja að sé frá 890,“ útskýrir Hákon, sem vanur er að segja ferðamönnum sögu eyjunnar við komuna. Hann vonast til að hægt verði einhvern tímann að kortleggja fornminjarnar á eyjunni, enda hafa þær varðveist vel þar sem engar vinnuvélar eða stórar framkvæmdir hafi átt sér stað sem oft á tíðum eyðileggja slíkar minjar.
Framkvæmdir hefjast
Ævintýrið byrjaði fyrir um tveimur árum þegar Hákon komst í svokallað „Startup tourism program“ sem er ætlað að hjálpar frumkvöðlum í ferðaþjónustu að þróa hugmyndir sínar og koma þeim í framkvæmd. Upp frá því hóf Hákon framkvæmdir á eyjunni af fullri alvöru en í mörg ár hafði hann dreymt um að geta dvalið þar í meira mæli. Með því að koma upp ferðaþjónustu á hólmanum sá hann fram á þann möguleika að láta drauminn rætast. En hann vildi gera þetta öðruvísi og skapa eitthvað einstakt á þessum frábæra stað.
Hákon er smiður og hefur það komið sér vel í þeim fjölmörgu verkefnum sem hann hefur þurft að glíma við. „Hér fær handaflið að njóta sín og eru flestar framkvæmdir gerðar í höndunum. Það er mikill burður á efni milli staða enda eyjan 23 hektarar og drjúgur spölur frá bryggjunni að húsinu. En það var þó mikil breyting eftir að ég fékk nokkur fjórhjól út í eyjuna fyrir tveimur árum. Svo fæ ég mikla og velþegna hjálp frá sjálboðaliðum sem koma frá öllum heimsins hornum sem finnst mikið ævintýri að vera hér á þessari litlu eyju.“
Lax og nýuppteknar kartöflur
Hákon tók á móti fyrstu ferðamönnunum s.l. sumar og hefur hann frá upphafi lagt mikla áherslu á nýta það sem eyjan býður upp á. Hann leggur net í Þjórsá og í júní og júlí býður hann gestunum upp á nýveiddan lax sem hann grillar yfir eldi með ferskum villtum kryddjurtum úr náttúrunni og vekur sú upplifun ætíð mikla lukku. En fólki finnst ekki síður gaman að fá nýuppteknar kartöflur sem eru tilbúnar seinnipart sumars. „Ég hef stundum farið með gestina í kartöflugarðinn og leyft þeim að taka upp nokkur grös og svo sjóðum við kartöflurnar með laxinum. Þó að okkur Íslendingum finnist þetta ekkert merkilegt þá finnst flestum gestanna þetta einstakt enda eru svo margir komnir langt frá uppruna matarins.“ Útskýrir Hákon um leið og hann viðurkennir að hann sé kominn með leið á laxi, seinnipart sumars, fái sér stundum bara pylsu þegar hann sé búinn að grilla fyrir gestina. Kálgarðarnir þar sem kartöflurnar eru ræktaðar eru aldagamlir og hefur Hákon endurlífgað tvo slíka garða á eyjunni. Þeir eru einstaklega vel hannaðir, gamlir hlaðnir skjólveggir liggja allt um kring um þá og framkalla gott skjól. Þeir halla til suðurs og drena því vel og er jarðvegurinn fullkominn fyrir kartöflurækt eða 50% mold og 50% sandur. „Það var gífurlega góð uppskera í fyrra og ég er ennþá að nota kartöflurnar sem við tókum upp s.l. haust. Ég byggði jarðhýsi fyrir ofan garðinn sem er niðurgrafið og heldur það jöfnum hita, eða c.a. 5 gráðum, allt árið og er alger snilld,“ útskýrir Hákon.
Fyrir utan laxinn og kartöflurnar þá hefur hann unnið ötullega að því að koma aftur upp æðavarpi sem var mikið á eyjunni á árum áður og einnig er hann byrjaður að stinga niður trjám þar sem hann sér fyrir sér að koma upp litlum skógi sem skapar gott skjól eftir c.a. þrjátíu ár. „Það eru hér nokkur stór grenitré á stangli á einum stað á eyjunni og þegar ég tala um skóginn minn þá finnst ferðamönnum það mjög fyndið.“ Ekkert rafmagn er á eyjunni og hefur hann þurft að framkalla sitt eigið rafmagn með vindmyllu sem dugar fyrir það helsta en er ekki nóg fyrir upphitun á húsinu.
„Ég vonast til þess að fá leitt rafmagn hingað einhvern tímann í framtíðinni, svo ég geti mögulega dvalið hér allt árið.“
Eftir að Hákon ákvað að gera Traustholtshólma að áfangastað fyrir ferðamenn þá þurfti hann að sleppa takinu á því að eiga þessa litlu eyju eingöngu út af fyrir sig. „Þrátt fyrir að njóta þess að vera hér einn þá finnst mér líka gaman að vera innan um fólk og ef þetta gerir það að verkum að ég get verið hér á eyjunni hluta úr árinu og svo á skútunni minni í Karabíska hafinu í 3-4 mánuði þá er þetta þess virði. Ég þarf bara að læra að koma á einhvers konar jafnvægi á vinnuna hér á sumrin. Ég áttaði mig t.d. á því um daginn þegar ég lagðist út í grasið að það var alltof langt síðan ég hafði leyft mér að njóta þess að vera hér og hlusta bara á fuglasönginn.“
Upplifun mikilvæg
„Ég hef bæði fengið hingað í eyjuna úberríka útlendinga og venjulegt fólk sem bókar gistingu í gegnum Airbnb og það sem stendur upp úr hjá flestum er kyrrðin og tengingin við náttúruna. Einnig eru flestir að gista í fyrsta sinn í mongólsku tjaldi eða „Urt“ eins og það er oft kallað. En slík tjöld eru einangruð með þæfðri ull og eru einstaklega hlý og notaleg en öll náttúruhljóð heyrast mjög vel. Það kom til dæmis einn gestur til mín um daginn og spurði mig út í skrítið og mjög framandi hljóð sem hann vaknaði við um morguninn og varð mjög hissa þegar ég sagði honum að þetta hefði verið fugl, nánar tiltekið hrossagaukur. En honum hafði helst dottið í hug að þetta væri hljóð frá geimverum,segir Hákon og hlær.“
Í miðju tjaldinu er kamína og Hákon talar um að það verði ekki rómantískara en að liggja upp í rúmi og horfa á eldinn snarka í kamínunni. Við hliðina á tjaldinu er lítill kofi sem Hákon tjáir mér að sé kamarinn. „Það er alltaf gaman að sjá viðbrögð fólks við kamrinum svokallaða eða klósettinu sem er eini staðurinn á eyjunni með rennandi vatn. Þar nota ég bensíndælu til að dæla vatninu upp úr þjórsá og inn í stóran vatnstank sem falinn er baka til í kofanum. Ég nostraði sérstaklega mikið við klósettkofann og lagði mig fram að skapa gamalt og sveitalegt útlit að utan en þegar inn er komið blasir allt annar heimur við. Þar er umhverfið hreint og fallegt með alls konar skrauti á veggjunum eins og portrett Jóns Sigurðssonar, Kindaleggur, gamlar ljósmyndir og listaverk sem ég fann í Góða hirðinum. Fólk kemur oft til mín eftir fyrstu klósettferðina og segir „I just love your toilet“. Það eru ekki margir sem fá slíkt hól!, segir Hákon og glottir.
Framtíðardraumar
Þegar Hákon er spurður út í framtíðina þá segist hann vera að bíða eftir þremur tjöldum til viðbótar og sé að klára að smíða pallinn undir þau. Þau koma alla leið frá Mongólíu og vonast hann til að þau verði komin áður en gestirnir mæta sem eiga bókað í júní en nú þegar hefur orðið töf á komu þeirra, enda margt sem getur komið upp á á ferðalagi á milli Mongólíu og Íslands. „Þetta verður alltaf lítil, umhverfisvæn og persónuleg ferðaþjónusta þar sem ég get boðið sex manns gistingu í einu.“ Hann segist jafnframt vilja nýta náttúruna enn betur í framtíðinni enda segir hann gestina kunna vel að meta slíkt. „Einnig langar mig að rækta rabarbara í meira magni, smíða skemmu þar sem ég get haft vinnuaðstöðu og svo væri gaman að geta byggt upp gamla torfbæinn, en það er á langtímaplaninu,“ segir Hákon áður en við höldum inn í hús og fáum okkur kaffisopa í eina steinhúsinu í hólmanum.