ERT ÞÚ MEÐ INNKAUPASTEFNU?

Af hverju græn innkaupastefna? Því allt sem við kaupum hefur áhrif á jörðina og við höfum vald til að ákveða hver þau áhrif verða.

Fyrsta græna skrefið er að taka ábyrgð á því sem við kaupum og velja vöru sem hefur sem minnst áhrif á umhverfið. Það getur stundum verið flókið mál en ef þú skoðar hvað það er sem skiptir þig eða fjölskyldu þína mestu máli er hægt að móta græna innkaupastefnu sem allir eru tilbúnir að fylgja.

Það er góð byrjun að velja eitt eða fleiri atriði sem maður vill leggja áherslu á og skoða svo í framhaldinu leiðir til að fylgja nýju jóla-innkaupastefnunni. Gerum þetta að áskorun og höfum gaman af 🙂

 UM ÞESSI JÓL ÆTLA ÉG/VIÐ AÐ:

Versla staðbundið/íslenskt (local)

 • Versla við vinina í hverfinu og/eða velja íslenska framleiðslu eða ræktun og styðja þannig nærumhverfið
 • Með styttri vegalengd til kaupandanna minnkar mengun tengd flutningum og akstri. Nú, eða fá sér bara körfu á hjólið!

Velja umhverfisvænan kost (ECO friendly)

 • Það getur verið vara sem er endurunnin, sparar orku, er úr náttúrulegu hráefni, siðferðisleg (ethical), eiturefnalaus, endurnýtanleg og endurvinnanleg. Græna bomban!
 • Vörur eða þjónusta með Svansvottun eða önnur viðurkennd umhverfismerki.

Kaupa lífrænt

 • Hugsa um jörðina og ómengaðan jarðveg fyrir komandi kynslóðir, lausan við áburð og skordýraeitur sem getur bæði mengað umhverfið og líkamann.
 • Tryggir líka að varan sé ekki erfðabreytt og að dýr séu alin upp án sýklalyfja og hormóna.
 • Tún er íslenska vottunarmerkið fyrir lífrænar vörur

DÆMI UM GRÆNAR GJAFIR

Stunda sanngjörn viðskipti (fair trade)

 • Hugsum um fólkið á bak við vöruna, sérstaklega framleiðendur í vanþróuðum löndum.
 • Fair trade-merkið þýðir að það hafi verið gerður viðskiptasamningur milli bænda og framleiðenda þar sem gagnsæi og virðing fyrir fólki og náttúru eru höfð að leiðarljósi.

Hlífa dýrum (cruelty free)

 • Yfir 100 milljónir dýra deyja á rannsóknarstofnun á ári hverju í heiminum. Þar eru mýs og rottur, kanínur og hamstrar í meirihluta.
 • (CCIC) eða LeapingBunny-merkingin á vöru tryggir að vara hefur aldrei verið prófuð á dýrum.

Forðast plast og önnur skaðleg efni

 • Prófa að nota enga plastpoka um jólin og forðast plastílát með BPA sem getur haft slæm áhrif á hormónabúskapinn hjá mönnum og dýrum
 • Sneiða hjá gerviefnum í fatnaði, t.d.pólýester.
 • Forðast snyrtivörur sem innihalda t.d. paraben, tilbúin litar- og ilmefni, petrolatum, DBP, DEHP og BBP sem eru bönnuð víða.

Gefa upplifun

 • Sleppa því að gefa dauða hluti og gefa hugmyndafluginu lausan tauminn. Af nógu er að taka!

Láta gott af mér leiða

 • Stuðla að betri heimi með góðum gjöfum. Hjálpar- og góðgerðarsamtök selja mörg hver fjölbreyttan varning. Auk þess gefa mörg fyrirtæki hlutfall af sölu vöru sinnar eða gefa til baka með öðrum hætti til náttúru eða mannúðarstarfa.

Á HandPicked Iceland má svo fá hugmyndir að vörum og verslunum sem hafa kannski það sem þú leitar að.

Gleðileg græn jól!  Guðbjörg ritstjóri

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.