Gómsætur grautur með eplum og möndlum

Mér finnst ég hafa verið afskaplega nægjusöm á unga aldri þegar ég sat sátt við morgunverðarborðið og smjattaði á gamla góða grautnum sem samanstóð einungis af höfrum og vatni. Með árunum hefur þó sitt hvað breyst og sú uppskrift ekki lengur nógu gleðjandi fyrir bragðlaukana. Ég hef því verið að prófa mig áfram með alls konar útgáfur bæði til þess að bragðbæta grautinn og auka næringainntöku enda mikilvægt að byrja morguninn á réttum nótum og fá góða orku inn í daginn. Þessi uppskrift hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér upp á síðkastið en hún er bæði einföld og fljótleg í framkvæmd.

Uppskrift

1 dl hafrar
1 msk chia fræ
2 dl hnetumjólk að eigin vali
1 msk kakónibbur
handfylli möndlur
1 epli
1 tsk hunang
1/2-1 msk kókosolía með bragði
kanill eftir smekk
smá vanilluduft
kókosmjöl til skreytingar

Aðferð

Blandið höfrum, chiafræum, mjólk, vanillu og kakónibbum saman í krukku eða annað ílát og látið standa í kæli yfir nótt. Látið kókosolíu og hunang hitna á pönnu, steikið svo eplin og möndlurnar og kryddið með kanil. Hellið epla- og hnetublöndunni í grautarskálina og stráið kókosmjöli yfir.

Verði ykkur að góðu
Karítas Hvönn

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.