1. Orkustöðin – Vöknum með rauðum morgundrykk

Kröftugur með dansandi sveppi

Það er fátt áhugaverðara en að rýna í leyndardómsfullar orkustöðvar mannsins. Vísindin hafa enn sem komið er ekki tæki og tól til að glöggva sig á þeim nákvæmlega en reynslan er sannarlega löng, áhugaverð og litrík.
Það var ekki að ástæðulausu að við systur tókum sjónarhornið orkustöðvar og matur inn í hina frábæru bók Áslaugar Snorradóttur, Íslensk ofurfæða villt og tamin, sem átti svo eftir að verða ein vinsælasta bók sumarsins 2016. Á næstunni ætlar Í boði náttúrunnar að birta ítarlegri úgáfu af næringu og uppskrift fyrir hverja orkustöð ásamt ljósmyndum Áslaugar úr bókinni.
Það er alltént þannig að jógar finna áþreifanlega fyrir fíngerðum orkustöðvum líkamans. Sagt er að eftir því sem við tengjumst betur náttúrunni og okkar innri náttúru finnum við hvernig mismunandi lit fæða og hvenær við borðum hana hafi áhrif á jafnvægi okkar í daglegu lífi.
Hver orkustöð er einstök og hefur sinn lit. Nærandi matur með sömu eiginleika og langoftast í sama lit mun mjög líklega verða sýnilegri hluti af matarmenningu framtíðarinnar með vaxandi áhuga á jógafræðunm.

1. orkustöðin

Rauður drykkur í morgunsárið
Gott er að hefja daginn á kröftugum djúprauðum þeytingi sem nærir rótarstöðina og tengir okkur á ný við Móður jörð. Í þessum þeytingi eru grillaðar rauðrófur, ferskt rauðkál, rauð epli, sveppakraftur af maitake (þekktur lækningaseiður úr kínverskri læknisfræði), ögn af hunangi og eilíf æska; Kapha sulta sem er byggð á aldagamalli Ayurveda hefð (þekkt undir nafninu chyavanaprash). Hún er sögð auka lífsorku og styrkja ónæmiskerfið á meðan maitake sveppurinn geymir mikið af B-vítamínum, jafnar blóðsykurinn og færir okkur margkonar krabbameinshamlandi efni, þar með talið beta-glúkan. Maitake þýðir á japönsku hinn “dansandi sveppur” því að til forna dönsuðu menn af gleði þegar þeir fundu þennan sjaldgæfa og verðmæta lækningasvepp.

Þetta er sú sterka en fíngerða orka sem við þurfum að tengja við þegar við vöknum til lífsins og byggir grunninn að deginum, eða bara lífinu öllu. Hér býr grunnkrafturinn sem færir okkur úr draumaheimum yfir í efnið. Þar með talið heilann sem er nátengdur rótarstöðinni.

Í morgunsárið er mikilvægt að fara kröftuglega af stað svo orkan dugi út daginn. Amma og afi okkar systra í móðurætt ræktuðu mikið af rótarávöxtum og byggðu þannig grunninn fyrir gott líf til síðasta dags, en þau urðu bæði nálægt níræðu og alla tíð hraust.

Fæða sem hjálpar okkur að tengjast jörðinni á ný og vera frjó í hugsun eru rótarávextir, sveppir, rauðir ávextir, og grænmeti og jafnvel gott prótein.

Ef við hugum ekki að rótarstöðinni er hætt við að við verður ófrjó, orkulaus og illa jarðtengd.

2 glös:

2 litlar rauðrófur

1 rautt epli

3 msk rauðkál

1 bréf maitake

1 tsk chyavanaprash

1 tsk hunang

Grillið rauðrófur í ofni í hýðinu í um það bil klukkustund, þar til rauðrófan er orðin mjúk viðkomu (gott að gera deginum áður). Kælið og afhýðið. Setjið í blandara ásamt epli, rauðkáli, maitake og chyavanaprash sultunni og hunanginu. Má sæta meira eða minnka sætu, eftir smekk. Hræið uns blandan er orðin silkimjúk. ATH að gott er að leysa maitake sveppaduftið upp í örlitlu af heitu vatni áður en því er blandað við drykkinn.

Önnur og einfaldari útgáfa af kröftugum morgundrykk í þessum anda eru líka gulrætur (sem jafnvel þótt þær séu appelsínugular að lit eru þær sagðar undantekning vegna sterkra róta). Blandið saman við rauð epli og rauðrófur.

Rótarstöðin tengist liðum, beinum, vöðvum, fótum, húð og heila. Rótarstöðin er nátengd kafa náttúruorkunni (jörðinni og vatninu) samkvæmt Ayurveda, indversku lífsvísindunum.

Bókin Íslensk ofurfæða
Bókin Íslensk ofurfæða

1 athugasemd

Lokað er fyrir athugasemdir