Berja “vinaigrette”

Það yndislega við lok sumarsins er tími berjanna. Það er svo æðislegt að vera úti í nátturunni í hreina loftinu og stútfylla dallana og munninn af berjum. Við fjölskyldan; ég, unnustinn og litla stelpan okkar, fórum í berjamó um miðjan ágúst. Stelpan okkar elskar ber, rifsber, bláber, sólber, hvaða ber sem er og það er alltaf pláss fyrir fleiri í maganum á henni. Hún er rosalega dugleg að tína og stússast með manni í þessu og það er ótrúlega gaman að hafa hana með í berjamó. En við foreldrarnir þurftum að hafa smá eftirlit því áður en ég vissi var hún komin á hvolf ofan í gamlan mjólkurbrúsa að kafa eftir bláberjum. Hún fattaði nefnilega fljótt að það var miklu auðveldara að fylla lúkuna af því sem foreldrarnir voru búnir að tína!

Við tíndum meira af krækiberjum en bláberjum í þessari ferð, vegna þess að það er fljótlegra að tína þau en bláber því þau eru harðari og því hægt að skófla þeim upp. Þegar heim var komið þurfti auðvitað að hreinsa afraksturinn. Ég get alveg gleymt mér í því, finnst það afskaplega róandi og það virkar fyrir mig eins og hugleiðsla. En ef fleiri eru við verkið, þá er um að gera að setja á góða tónlist og vinna þetta skemmtilega verkefni í góðum félagsskap.

IMG0639

IMG_0639_fix

IMG_0639_fix

IMG_0639_fix

Við litla fjölskyldan og fólkið í kringum okkur erum ansi dugleg við að sulta og eigum nóg af sultu í köldu geymslunni og ísskápnum en eftir þennan berjamó voru berin notuð í berja- vinaigrette, sem getur verið frábær salatsósa eða sósa á kjöt. Við fengum svo góða gesti í nautalaund með berja-vinaigrette og meðlæti.

Uppskrift:

Krækiberjasafi 1 bolli

Edik 2 msk

Olía ½ bolli

Salt

Fersk ber

Aðferð:

Krækiberjasafi gerður úr berjum dagsins með því að mauka þau og sía svo hratið frá. Ediki bætt við og þar á eftir er olían hrærð rólega út í. Þetta er saltað til eftir smekk og ferskum bláberjum bætt út í í lokin.

Vinegrettan ein og sér virkar mjög vel með rauðu kjöti og þá sérstaklega lambi. Í þetta skipti notuðum við sýrðan rjóma með nautakjötinu líka sem virkaði vel með vinegrettunni.

 

Ljósmyndir: Helga Einarsdóttir
Uppskrift: Matthías Emanúel Pétursson

Tögg úr greininni
, , ,