Ertu að flýja tækifæri til að þroskast?

Það er ekki góð tilfinning að vera hrædd/ur. Finna fyrir kvíða, spennu og óþægindum í líkama og að lokum þreytu í líkama og sál eftir alla þessa spennu.

Í mjög einfaldri mynd er hægt að sjá tilgang óttans sem skilaboð til okkar um að flýja aðstæður. Þar hefur hann komið okkur ótal oft að gagni og við getum verið þakklát fyrir það!

Hins vegar getur óttinn einnig verið skilaboð um að framundan sé tækifæri til þess að horfast í augu við eitthvað og þroskast í gegnum það. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því ef aðstæður eru erfiðar eða jafnvel hættulegar að hlusta þá á skilaboð óttans. Það geta verið mjög gagnleg skilaboð.

En mörgum hættir til að bregðast alltaf við óttanum á þennan sama hátt, með því að forðast eða flýja aðstæður. Án þess að spyrja sig:

„Hvað er óttinn/kvíðinn að segja mér núna? Hvað er það sem ég er að flýja? Get ég lært eitthvað af þessum aðstæðum?“

„Er það eitthvað innra með mér, einhverjar hugsanir sem ég er að flýja?“

„Ef það eru einhverjar hugsanir, þá hverjar?“

Næsta skref væri síðan að horfast í augu við þessar hugsanir, spyrja sig hvort það sé eitthvað vit í þeim: „Er þetta raunhæft ? Getur þetta passað?“

HAMLANDI HUGSANIR

Dæmi um slíkar óttablendnar hugsanir eru til dæmis. :

,,Ég er ekki nóg”, ,,Ég geri þetta aldrei rétt”, ,,Enginn kann vel við mig” , ,,Þetta er of erfitt fyrir mig” , ,,Ég verð að gera þetta fullkomið”, ,,Ég kann þetta ekki”

Það er að segja, einhverjar hugsanir sem gefa það í skyn að þú sért ekki nógu góð/ur, getir þetta ekki eða kunnir ekki. Einhverjar hugsanir sem stoppa þig af, gera lítið úr þér og hindra þig í að gera það sem þig langar raunverulega að gera. Að sjálfsögðu eru hlutir sem eru okkur erfiðir, stundum þurfum við bara raunverulega aðstoð við eitthvað, t.d. að læra eitthvað nýtt í vinnunni eða fá hjálp við verkefni. Það er nauðsynlegt að sækja aðstoð í slíkum aðstæðum. Minnka við sig ef álagið er of mikið.

Þetta eru allt gild og góð hjálpartæki sem er gott fyrir alla að nýta sér þegar maður upplifir hluti of erfiða eða óttast þá. Hins vegar er stóra tækifærið ennþá eftir. Tækifærið til að horfast í augu við hugsanir sem eru að koma í veg fyrir að við fáum að njóta okkar og láta ljós okkar skína. Hugsanir sem hvísla að okkur allan daginn að við séum ekki nóg, að við getum þetta ekki, að þetta sé of erfitt eða að hinum og þessum finnist maður asnalegur.

Það er svo sorglegt hvað mörg okkar láta þessar hugsanir koma í veg fyrir að aðrir fái að njóta góðs af okkar nærveru. Það er svo mikil synd að missa af hverjum og einum sem sleppir því að láta ljós sitt skína vegna hamlandi hugsana. Þetta snýst nefnilega ekki bara um þessa einu manneskju, að hún ein nái árangri, sé töff eða flott. Heldur snýst þetta um að þessi manneskja býr yfir ákveðnum eiginleikum sem aðrir ættu að fá að njóta góðs af. Þannig snýst þetta um stærra samhengið.

Með þessu er ég ekki að reyna að ýta undir sektarkennd og samviskubit,  þegar við eigum það til að flýja hluti og sleppa því að gera hluti vegna hindrandi hugsana. Ég er einfaldlega að vekja athygli á því að þarna gefst okkur tækifæri til að sjá þetta sem möguleika til að þroskast. Þá er bara að mæta til leiks og einfaldlega vera nóg og láta ljós okkar skína í þeirri nærveru sem við erum dags daglega.

Í lokin þá hvet ég ykkur til að staldra við næst þegar þið takið eftir því að þið finnið fyrir ótta og spyrja ykkur hvað óttinn er að segja ykkur.

Eru aðstæður raunverulega ekki heilbrigðar og góðar fyrir ykkur, er ástæða til þess að breyta um umhverfi eða forðast aðstæður?

EÐA ertu að flýja eitthvað ? Ertu að flýja tækifæri til að þroskast ? Eru þetta aðstæður sem þú getur lært eitthvað af ? Sem munu stuðla á endanum að aukinni vellíðan?

Megi þið hafa hugrekki til að horfast í augu við þær hugsanir sem hindra ykkur og að lokum frelsi frá þeirri vanlíðan sem þær hafa valdið ykkur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.