KUBBABYLTINGIN

LIFUM BETUR + ETHIQUE

Hart vs. fljótandi

Meira en 40% af allri plastnotkun heims er tilkomin vegna ýmissa vöruumbúða og alls enda um átta milljónir tonna af plasti í sjónum á hverju ári vegna foks frá landfyllingu og vegna rangrar förgunar. Stór hluti af þessu plasti er tilkomið vegna baðherbergisins, ekki síst vegna umbúða utan af hárvörum, bæði sjampói og næringu. Þessar staðreyndir urðu einmitt kveikjan að því að nýsjálenski lífefnafræðingurinn Brianne West fór að fikra sig áfram í að þróa hágæða hreinlætisvörur í föstu formi án plastumbúða. Þetta var árið 2012 en síðan þá hefur Ethique hlotið fjölda verðlauna, m.a. fyrir að vera eitt sjálfbærasta snyrtivörumerki í heimi. Vörur Ethique eru handgerðar hágæða hreinlætisvörur fyrir hár, andlit og líkama og henta þeim sem eru vegan. Þær eru án pálmaolíu og koma í 100% niðurbrjótanlegum pappaumbúðum. Fyrirtækið hefur það sem meginmarkmið að minnka plast í heiminum og láta í leiðinni gott af sér leiða. Í því felst að afla hráefna til framleiðslunnar með eins sjálfbærum hætti og mögulegt er, á þann hátt jafna þeir út kolefnisspor sitt og gefa 20% af hagnaði sínum til góðgerðarmála.

Kubbar spara vatn og umbúðir

Ethique-vörurnar koma í stykkjum eða kubbum, sem er töluvert umhverfisvænna af ýmsum ástæðum, ekki aðeins þegar kemur að plastnotkun. Sem dæmi er allt að 75% af innihaldi hefðbundinnar sjampóflösku og um 90% af hárnæringu vatn og er það því vissulega mikilvæg uppistaða þessara vara. En hugmyndafræði Ethique snýst um að sleppa einfaldlega vatninu og halda í stað þess öllum innihaldsefnum sem gera vöruna góða, því við fáum jú nóg af vatni í sturtunni! Með því að hafa vörurnar í föstu formi er hægt að spara bæði vatn og umbúðir án þess að tapa gæðum og virkni vörunnar.

Allt að 75% af innihaldi hefðbundinnar sjampóflösku og um 90% af hárnæringu er vatn

Eingöngu hágæða hráefni af vistvænum og sjálfbærum býlum eru notuð í kubbana, þar sem tryggt er að ræktendur njóti góðs af ágóðanum. Þar af leiðandi er kostnaðurinn við framleiðslu vörunnar hár en á móti kemur er hún gríðarlega endingargóð. Til að mynda er einn Ethique-sjampókubbur á við þrjá 350 ml sjampóbrúsa og einn næringarkubbur er á við fimm 350 ml brúsa. Þar sem þessar vörur eru yfirleitt seldar í plastumbúðum er alveg ljóst hversu mikið umhverfið græðir.

Einstakir í sinni röð

Ethique-sjampókubbarnir eru ólíkir mörgum öðrum hárhreinsikubbum, því um er að ræða sjampó sem inniheldur enga sápu, sem er gjarnan lykilinnihaldsefni margra hárkubba. Sápa er hins vegar sterkara efni en sjampó og fer ekki sérlega vel með hárið. Hún á það til að þurrka hárið og hreinsar oft burt eðlilega hárolíu, sem þarf síðan að bæta upp fyrir með næringu. Vegna þeirra eiginleika Ehtique-sjampókubbanna að innihalda ekki sápu má nota þá í litað hár og ekki þarf að ná niður PH-gildinu með ediksskoli eða öðrum súrum vökva á eftir. Því er oft haldið fram að hárið þurfi að ganga í gegnum aðlögunartímabil til að venjast umhverfisvænum kubbum svo hárið haldist mjúkt og glansandi. Ef kubburinn er hins vegar sjampó; þ.e.a.s sápulaus, á notandinn að finna eftir tvo til þrjá hárþvotta hvort varan henti sínu hári.

Ethique-næringarkubbur er á við fimm 350 ml brúsa

Eru kubbar fyrir þig?

Ethique býður ekki eingöngu upp á hárvörur heldur einnig svitalyktareyði og skrúbba, s.s. fyrir andlit og líkama og henta vörurnar öllum sem vilja sleppa plasti. Sumir eru auðvitað komnir lengra en aðrir í að skipta yfir í umhverfisvænni kost og eru löngu komnir á kubbavagninn. Aðrir eru kannski ekki alveg tilbúnir að segja algjörlega skilið við plastið og nota þá Ethique samhliða hefðbundnari, fljótandi vörum til þess að kaupa sjaldnar umbúðir. Fyrir þá sem eru forvitnir að prófa, en eru ekki tilbúnir að taka stóra stökkið, er hægt að kaupa prufupakka á flestum sölustöðum merkisins, sem inniheldur sjampó, hárnæringu, andlitshreinsi og líkamshreinsi eða body lotion.

Ethique-vörurnar eru fáanlegar á eftirfarandi stöðum:
Í Hagkaup Skeifunni, Kringlunni, Smáralind og Garðabæ, Fjarðarkaup, Vistveru, Heimkaup.is, Beautybox.is og sérapótekum víðs vegar um landið.

www.ethique.com

TEXTI  Brynhildur Björnsdóttir          

Tögg úr greininni
, ,