Um daginn sá ég tvær manneskjur faðmast svo innilega úti á götu að ég fór að hugleiða mátt snertingar og faðmlaga yfirhöfuð. Ég hef alltaf verið með miklar skoðanir á faðmlögum og átt huglægan topp tíu lista af vinum, elskhugum og vandamönnum sem hafa gefið allra bestu knúsin. Ég veit ekkert betra en þegar einhver sem manni þykir vænt um mætir manni með opinn faðminn og faðmar mann alúðlega að sér, með kærleik og hlýju.
Þegar ég horfði á þetta fólk faðmast út á götu, alveg í hálfa mínútu eða svo, var ég að horfa upp á einlæga tengingu og fögnuð milli tveggja einstaklinga. Þá fór ég að spá í hversu oft ÉG gef almennileg, kærleiksrík faðmlög? Ég varð að viðurkenna fyrir sjálfri mér að oftast geri ég það ekki, heldur rétt faðma, slæ í bak og dríf mig svo áfram. Nema kannski þegar mikið liggur undir.
Mér brá dálítið við að átta mig á þessu, ég sem hef alltaf vitað af mikilvægi kærleiksríkra faðmlaga hef verið að gefa innihaldslaus knús árum saman. Þetta er fyrir mér af sama meiði og yfirborðslegt samtal, eitthvað sem ég hef aldrei haft mikinn áhuga á.
Svo að niðurstaðan mín er að fara að gefa innilegri og kærleiksríkari faðmlög héðan í frá án þess þó að láta fólki líða óþægilega, eða hippa alveg yfir mig. Þegar ég svo kynnti mér málið, á internetinu vissulega engar vísindarlegar sannanir, komst ég líka að því að fallegt faðmlag getur gefið af sér fleiri kosti en bara notalegheitin:
I. Losar um oxyticin, ástarhormónið og þú tengist manneskjunni dýpra.
II. Losar til um egóið og eykur samkennd og skilning á milli manneskjanna og eykur þannig traust.
III. Kemur jafnvægi á og róar taugakerfið.
IV. Færir mann í núið og gefur þannig aukinn fókus.
V. Faðmlag í lengri tíma hefur áhrif á serotónín og bætir þannig geð og eykur hamingjutilfinningu.
Hvort sem að þessi listi er réttur eða rangur þá hvet ég ykkur til að staldra við og leggja meiri alúð og meiningu í faðmlög héðan í frá!
KNÚS
Dagný