Fiskur – hinn eini sanni skyndibiti

Nanna Rögnvaldardóttir hefur undanfarin ár eldað fisk alla daga í febrúar og kallar mánuðinn fiskbrúar. Hún ákvað að taka pásu í ár en segir aldrei að vita nema hún taki aftur upp þráðinn í febrúar 2021.

„Þegar ég heyrði fyrst af veganúar fannst mér það fín hugmynd en langaði samt til að gera eitthvað annað frekar. Og þar sem ég elda hvort eð er fisk og fiskmeti þrjá til fjóra daga í viku lá það beint við að fjölga þeim dögum bara svolítið. Dóttursonur minn, sem reyndar borðar fisk með bestu lyst en þykir kjöt enn betra, sagði að það væri allavega gott að ég skyldi velja febrúar því að hann væri svo stuttur,“ segir Nanna, sem er flestum að góðu kunn fyrir frábærar matreiðslubækur.

-Hvernig gekk að halda sig við þetta plan?

„Afskaplega vel. Að vísu hef ég yfirleitt þurft að gera undantekningu einn dag í mánuðinum vegna sprengidags. Þá kemur fjölskyldan í saltkjöt og baunir og ég gat ekki sannfært þau um að breyta yfir í saltfisk og baunir. – Svo varð fiskbrúar endasleppur í fyrra því að ég fór í aðgerð um miðjan mánuðinn og eldaði ekkert í langan tíma og ég tók ekki upp þráðinn aftur í ár af einhverri ástæðu. En kannski næst. Ég hef stundum sagt að ég gæti vel hugsað mér að sleppa kjöti alveg úr mataræðinu en ekki fiski.“

-Hvernig gekk að finna nýjar uppskriftir?

„Það var nú ekki vandamál því að ég nota eiginlega aldrei uppskriftir, bara hugmyndir. Fer bara í fiskbúð eða kjörbúð með fiskborði – þær eru reyndar sorglega fáar – vel það fiskmeti sem mér líst best á í það skipti, rifja upp hvað ég á til heima eða kaupi eitthvert grænmeti, kornmeti og annað og bý svo til eitthvað úr því. En þetta var vissulega hvatning til að prófa ýmislegt og velja sem flestar tegundir til að auka fjölbreytnina –þorsk, steinbít, hlýra, löngu, keilu, skötusel, saltfisk, lax, silung, lúðu, karfa, rauðsprettu, túnfisk, síld, humar, rækjur, krækling, hörpuskel og ýmislegt fleira. Jú, og einu sinni eða tvisvar ýsu en ég er ekki mikið fyrir ýsu, satt að segja.“

-Hvað kom út úr því að borða aðeins fisk í febrúar?

„Endanleg staðfesting á því að fiskur er góður, fjölbreyttur og girnilegur matur sem maður verður ekki leiður á – og hinn eini sanni skyndibiti. Það tekur bara örfáar mínútur að krydda og steikja fiskbita og ef notað er fljótlegt meðlæti getur maturinn verið til 10-15 mínútum eftir að maður kemur heim.“

Tíu mínútna máltíð

Ég var með lítið rauðsprettuflak, hæfilegt fyrir einn og afgangur fyrir nesti í vinnuna daginn eftir, en þetta getur verið fyrir tvo ef haft er meira meðlæti, t.d. kartöflur eða ýmislegt grænmeti, soðið bygg, hrísgrjón eða annað. Svo er ekkert mál að stækka uppskriftina. Og þetta tekur í alvöru bara tíu mínútur.

Steikt rauðspretta á salati

rauðsprettuflak, 250-300 g
1 egg
3 msk heilhveiti
1/4 tsk þurrkuð basilíka (eða annað krydd eftir smekk)
pipar og salt
1 msk olía
1 msk smjör

Tómat-klettasalat

2 tómatar, vel þroskaðir
1/4 paprika, fræhreinsuð
1 vorlaukur
væn lúka af klettasalati
1-2 greinar ferskt óreganó (má sleppa)
1 msk ólífuolía
safi úr 1 límónubát
nokkrir dropar sojasósa
pipar og salt

Taktu tvo diska, brjóttu egg á annan og sláðu það létt. Blandaðu saman á hinum heilhveiti, basilíku, pipar og salti. Veltu rauðsprettunni upp úr egginu og þrýstu henni svo vel niður í heilhveitiblönduna.

Hitaðu olíu og smjör á pönnu, settu fiskinn á hana með roðhliðina upp og steiktu við nokkuð góðan hita í um tvær mínútur. Snúðu því svo (tilvalið að nota pönnukökuspaða) og steiktu það í 2-3 mínútur á roðhliðinni, eftir þykkt.

Skerðu á meðan niður tómata, papriku og vorlauk og blandaðu saman við klettasalat og e.t.v. óreganó (ég notaði það af því að ég átti það til). Hristu saman olíu, límónusafa, sojasósu, pipar og salt og blandaðu saman við. Settu salatið á disk eða lítið fat og leggðu rauðsprettuflakið ofan á. Berðu fram með límónubátum.

Heimasíða Nönnu