Frelsi til að fljóta

Flothettan er íslensk hönnun Unnar Valdísar Kristjánsdóttur vöruhönnuðar, en hún varð til út frá hugleiðingum hennar um aukna áherslu á ró og slökun í heilsueflingu. Markmið Unnar var að freista þess að bjóða upp á nýja og skemmtilega siði í baðmenningu þjóðarinnar sem á þessa miklu vatnsauðlegð. 

Það fór eins og við systur spáðum. Flotið með tilheyrandi íslenskum flotbúnaði breiðist hratt yfir heimsbyggðina og nú er svo komið að víðsvegar um heiminn hefur fólk fjárfest í Flothettu. Og það er fyrir utan alla þá Íslendinga sem hafa fyrir lögnu kveikt á perunni og notið þess að fljóta í sundlaugum, heitum pottum og hinum ýmsu vatnsuppsprettum landins. Þá hafa margir Íslendingar þegar ferðast með Flothettuna til Flórida, Balí, Ítalíu, Spánar og í Gömlu laugina Flúðum, sem hefur alla burði til þess að verða ein dýrmætasta uppspretta Samflots á Íslandi. Ekki síst á veturna, til að komast úr ljósmengunni í beina snertingu við Norðurljósin og kannski almættið.

Um leið og við systur sáum glitta í hugmynd Unnar urðum við hugfangnar. Hvað gat verið annað þarna á ferð en alger klassík sem heimurinn myndi smám saman uppgötva? Það hefur líklega engin orðað það betur en sú sem benti á að Flothettan hefði, eins KitcenAid hrærivélin, fæðst sígild. Fljótlega fórum við að stunda tilraunaflot með Unni, fyrst í Sóley Natura Spa, en þegar ljóst varð að við systur myndum opna heilsuhof fyrir framan Sundlaug Seltjarnarness lá beinast við að efna til Samflots undir berum himni og leyfa fleirum að fljóta og njóta með okkur. Upplýsingar um flotviðburði og samflot eru á facebooksíðu Flothettunnar.

Flothetta

Uppgötvun aldarinnar

En það er nú ekki svo að mannkynssagan sé ekki uppfull af sögum af allskyns floti og tilraunum mannsins til að fljóta. Alveg erum við vissar um að Snorri Sturluson hefði tekið Flothettunni fagnandi á 13. öld. En maske kunni hann þá tækni að fljóta sjálfur. Snilligáfa hans ber ýmis merki um það. Því sumir eru búnir þeim kostum að geta flotið án aðstoðar. Það eru þó býsna fáir. Þess vegna hafa orðið til sérstakir flottankar og allskyns útbúnaður. En ekkert í líkingu við íslensku Flothettuna sem veitir fólki algert frelsi til að fljóta inni sem úti.

Þessi áhugi fólks á floti hefur líka orðið til þess að margir hafa rannsakað kosti flotsins. Hér má líka sjá myndband um upplifun þess að fljóta á heimasíðu Float  Í stórskemmtilegri grein um Zen og flot sem birt var á The Week  fullyrðir greninarhöfundur að það að fljóta sé það næsta sem þú kemst vímu án þess að nota vímuefni. En mjög líklegt verður þó að telja að margt varðandi flot mannsins sé ennþá handan vísindanna . Í greininni segir líka af reynslu Zen meistara sem prófaði að fljóta í tanki á tilraunastofu. Einstaklingi sem hafði þá reynslu að hugleiða allt að fimm tíma á dag í mörg ár. Það er skemmst frá því að segja að reynsla hans af flotinu gerði hann agndofa. Dýpið sem hann fór á við það fljóta í klukkustund jafnaðist kannski á við það “bliss” sem varð hjá honum einu sinni á ári. 

Það er mýmargt framundan sem snýr að flotinu. Það er sannarlega að snerta djúpt við mörgum sem hafa prófað. Þannig hefur Auður Bjarnadóttir, einn okkar reynslumesti og virtasti jógakennari, ákveðið að nota flotið sem hluta af sinni jógakennslu. Aqua Nidra (sbr Jóga nidra) er það sem hún hefur í huga. Það verður mjög áhugavert að fylgjast með því. Ferðamennskan er auðvitað að kveikja á perunni, hvað annað? Og margt er í bígerð sem snýr að skemmtilegum upplifunarferðum íslenskra og erlendra ferðamanna. Þar á Gamla laugin á Flúðum alveg örugglega eftir að spila mikilvæga rullu. Hver veit nema allar sundlaugar landsins verði komnar með Samflot áður en varir?

Tögg úr greininni
, , , ,