Gómsætur lax með engifer

lax með engifer
UPPSKRIFT Hadda Björk Gísladóttir MYNDIR Karl Petersson

Lax með engifer, soja og sesamolíu (fyrir 6-8 manns)

Hráefni
1 kg lax 
2 msk hunang
1 msk sojasósa
3 msk sesamolía
1 msk rifið engifer
2 tsk fínt skorið chili
1 tsk svört sesamfræ

Skraut
vorlaukur
ferskt kóríander

Þú getur notað hvaða bleika fisk sem er, lax, sjóbirting eða bleikju, í þessari gómsætu uppskrift sem  Ingibjörg, vinkona, eldar stundum hér í gistihúsinu. Hrífunes er staðsett nálægt einni bestu uppsprettunni fyrir bleikjuveiði og nýtum við okkur það óspart. Við erum líka mjög heppin að geta keypt ferskan sjóbirting frá bónda, sem býr í næsta nágrenni. 

Laxinn er settur í eldfast mót. Blandið saman öllum hráefnunum og setjið yfir fiskinn. 

Eldað í ofni við 180° C eða í álbakka á grilli, í 15-20 mínútur.

Ferska kóríanderinu og/eða þunnt skorna vorlauknum er stráð yfir fiskinn.

Borið fram með kúskús eða hrísgrjónum.

Í Hrífunesi Guesthouse, sem staðsett er milli Vík og Kirkjubæjarklausturs, blasir landslagið við allt um kring enda fullkominn áningarstaður fyrir ferðamenn sem vilja skoða og upplifa náttúru landsins. Haukur og Hadda, eins og þau eru kölluð, hafa gert upp og rekið gistiheimilið síðan 2010 og hefur mikil uppbygging átt sér stað síðan. En þau bjóða ekki einungis upp á gistingu heldur ljósmyndaferðir, þar sem Haukur fer með ferðamenn um nágrennið í þeim tilgangi að fanga fegurðina. Maturinn sem Hadda hefur veg og vanda að má svo kalla sanna matarupplifun, sem gestir þeirra hafa mært í hástert, og er ómissandi partur af dvölinni í Hrífunesi. Þau tóku sig saman ekki alls fyrir löngu og gerðu skemmtilega matreiðslu- og ljósmyndabók, sem segir sögu þeirra, staðarins og nágrennis á einstaklega fallegan og girnilegan hátt. 

Þessi grein er úr sumarblaði Lifum betur – í boði náttúrunnar 2021.