Ein af mínum uppáhalds hugleiðslum er Hamingju hugleiðslan. Reyndar eru mjög margar hugleiðslur í uppáhaldi en þessi er ótrúlega góð og áhrifarík og gerir einhvern veginn allt léttara. Hún er talin hafa verið iðkuð af Búdda en þessi útgáfa kemur úr Kundalini fræðunum sem eru yfir fimm þúsund ára gömul, ævagömul speki sem var á sínum tíma ekki aðgengileg mörgum. Það var svo Yogi Bhajan sem kynnti Kundalini jóga fyrir hinum vestræna heimi og hefur orðið gríðarleg útbreiðsla á því enda er Kundalini jóga einstaklega kraftmikið og áhrifaríkt. Tækni sem ótrúlega margir út um allan heim nýta sér við að finna jafnvægi og sinn innri styrk og kraft. Þegar lífið getur verið hvað flóknast og reynir hvað mest á getur verið gott að grípa í þessa hugleiðslu til að endurheimta innri hamingju og auka gleðina.
Þegar við hugleiðum samkvæmt Kundalini fræðunum þá byrjum við ávallt á því að tóna okkur inn, kjarna okkur með því að fara með möntruna Ong Namo Gurudev Namo þrisvar sinnum. Þetta finnst mér vera lykillinn að góðri hugleiðslu, en mantran færir mann miklu dýpra inni í hugleiðsluna en maður annars kæmist.
Hugtakið Mudra segir til um hvernig hendurnar eru í hugleiðslunni og í þessari tilteknu hugleiðslu þá heldur maður baugfingri og litla fingri niðri með þumlinum. Maður heldur upphandleggjum og olnbogum þétt upp að líkamanum og lyftir fingrum upp svo þeir vísa upp. Hendur vísa ekki beint upp í loft heldur aðeins á ská eins og ég sýni hér á myndinni. Við sitjum með bakið beint, augun lokuð og rúllum augunum inn og upp þannig að við horfum upp í áttina að punktinum milli augabrúna.
Mantra hugleiðslunnar er SA TA NA MA en hún er mjög góð fyrir stormasama tíma og þegar fólk upplifir mikið álag í lífi sínu en einnig þegar fólk upplifir breytingar eða vill sjálft gera breytingar í sínu lífi. Mantran tengir við hringrás lífsins og leiðir okkur í innri frið.
Tónlist getur aukið á dýpt hugleiðslunnar. Ég mæli með tónlist Sirgun Kaur, en hún gaf út disk sem heitir Reclaim Your Happiness en lagið við hugleiðsluna heitir Meditation to Reclaim Your Happiness. Hægt er að finna tónlistina til dæmis á Spotify.
Gott er að gera þessa hugleiðslu í 3 – 11 mín. Fínt er að byrja á stuttum tíma og bæta svo smám saman tímann.
Ég hvet þig til að prufa, gangi þér vel og njóttu hamingjunnar.
Lóa
Fylgstu með Kundalini með Lóu HÉR