Setur þú skilyrði fyrir eigin hamingju?

Hvaða skilyrði setur þú fyrir hamingju þinni? Hvað þarft þú að vera búin að gera til þess að þú upplifir sátt með þig sjálfa/n?

Það kannast eflaust margir við það að vera með markmið og drauma sem maður leitast eftir því að klára eða upplifa. Það getur verið ótrúlega hvetjandi og mögnuð tilfinning að vakna upp á hverjum morgni meðvitaður um að í dag ætli maður að ganga nokkur lítil skref í átt að draumi sínum. En það getur einnig verið ótrúlega hamlandi að leyfa sér ekki að dvelja í eigin skinni hér og nú í sátt og samlyndi fyrr en maður hefur klárað X og Y eða náð draumastarfinu eða sé komin með drauma fjölskylduna.

Þetta er viðkvæmur dans á milli þess að fara á eftir draumum sínum og markmiðum en á sama tíma njóta lífsins til fulls þar sem maður er staddur hér og nú.

Við verðum oft alltof upptekin af því að ná markmiðum okkar og upplifa drauma okkar og gleymum að njóta þess að vera. Samfélagið á eflaust stóran þátt í því að móta hugarfar okkar á þennan veg, þar sem okkur er verðlaunað og við erum viðurkennd fyrir að lifa lífinu okkar á ákveðinn hátt. Það byggir upp ákveðna staðalímynd að hinu fullkomna lífi sem fólk gerir sér hugmynd um að geri það hamingjusamt.

Brjótum þessa staðalímynd og verum vakandi fyrir því að við eigum skilið að vera hamingjusöm og elskuð ákkurat hér og nú. Við þurfum ekki að vera búin að gera X og Y til að upplifa sátt og kærleika innra með okkur. Það er enginn sem stendur í vegi fyrir okkur nema við sjálf, við þurfum að gefa okkur leyfi til að elska okkur sjálf skilyrðislaust. Það eina sem þarf til er að vera hér og nú og samþykkja okkur alveg nákvæmlega eins og við erum. Þetta fer allt eftir viðhorfi okkar. Ætlum við að gefa okkur færi á að vera elskuð hér og nú eða ætlum við að bíða eftir að við náum markmiði X og Y þangað til við gerum það?

Kannaðu hvort þú hafir sett einhver skilyrði fyrir því að þú getir lifað í sátt og samlyndi með sjálfri/um þér. Hvort sem það er að vera búin með einhverja menntun, komin með eitthvað ákveðið starf, hús, komin með ákveðinn maka, barn, sjálfsþroska, pening o.fl. Bara hvað sem er, athugaðu hvort að það sé eitthvað sem stendur í vegi fyrir að því að þú sért sátt/ur með þig sjálfa/n.

Í framhaldi af því hvet ég ykkur til að íhuga það að leyfa ykkur að upplifa alla þá sátt og þann kærleika sem í ykkur býr í dag, í kvöld og á morgun o.s.fr. Þótt að þið náið ekki þessum markmiðum ykkar eða draumum í dag, í kvöld né á morgun.

Mundu að þessi djúpa kyrrð kemur ekki þegar heimurinn staðnæmist eða þegar hugurinn er hljóður – við hlúum að kyrrðinni þegar við leyfum hlutunum að vera eins og þeir eru, frá einu augnabliki til annars og frá einum andardrætti til hins næsta.

– Tekið úr núvitundarhugleiðslu Önnu Dóru Frostadóttur –

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.