NÆRANDI BLÖNDUR FYRIR HEILSULIND HEIMA
HUNANG + ÓLÍVUOLÍA = DJÚPNÆRING/RAKAMASKI
Hitið örlítið ½ bolla af hunangi (ef þarf) og blandið saman við ¼ bolla af ólívuolíu. Makið því í hárið og setjið það í snúð í 30 mín. Skolið úr og þvoið vel með sjampói. Einnig gott að nota þessa blöndu á þurra húð.
Við bendum einning á þennan andlitsmaska
HUNANG + HRÁSYKUR = ANDLITS- OG LÍKAMSSKRÚBBUR
Takið jafnt hlutfall af hunangi og fínmöluðum hrásykri og blandið saman. Nuddið á raka húð með hringlaga hreyfingu þar til húðin roðnar. Skolið af með volgu vatni og berið gott rakakrem á húðina á eftir.
EGGJARAUÐA + SÍTRÓNUSAFI = ANDLITSMASKI
Blandið saman eggjarauðu og safa úr hálfri sítrónu. Berið á andlitið og passið að það fari ekki í augun. Leyfið blöndunni að vera á í 30 mín. Hreinsið af með volgu vatni og berið á ykkur rakagefandi krem. Nærandi maski, góður gegn bólum og/eða roða í húð.
HAFRAMJÖL + NÆLONSOKKUR = NÆRANDI BAÐ
Setjið handfylli eða tvær af haframjöli í sokk eða ofan í klipptar sokkabuxur. Bindið hnút fyrir gatið og setjið pokann undir vatnsbununa á meðan þið fyllið baðið. Liggið í baðinu í a.m.k. 20 mínútur og nuddið húðina af og til með hafrasokknum! Húðin verður silkimjúk og haframjölið getur haft mjög góð áhrif á exem, sólbruna o.fl.