HOLLARI PIPARKÖKUR

Á mörgum heimilum er það svo að einhverjir eru á sérstöku mataræði á meðan aðrir leyfa sér allt. Þá gerist það oft að sá sem borðar ekki hveiti eða mjólkurvörur fær ekkert nema rískex á meðan hinir njóta kræsinganna. Þessi piparkökuuppskrift ætti að henta flestum fjölskyldumeðlimum því að hún er laus við hveiti og hvítan sykur og svo er fljótlegt að undirbúa hana. Uppskriftin hentar þeim vel sem hafa eggjaóþol, mjólkuróþol eða hnetuóþol og einnig jurtaætum (e. vegan), því að engar dýraafurðir eru í henni.

Búa má til piparkökukarla, konur, dýr og alls kyns fígúrur úr þessu holla piparkökudeigi. Það hentar einnig vel til að búa til piparkökuhús, fyrir þá sem vilja fara alla leið. Piparkökurnar eru ekki mjög mikið kryddaðar svo að þær henta vel fyrir börnin, en ef þið viljið meira kryddbragð, setjið þá eina teskeið af negul út í deigið.

 

Innihald

Uppskrift gerir um 40 piparkökur

 

185 g spelti (gott að nota gróft og fínt til helminga)

1 tsk. bökunarsódi

3 tsk. kanill

0,25 tsk. múskat (má sleppa)

6 msk. kókosolía

115 ml hreint hlynsíróp (eða hrátt agavesíróp fyrir meira bragð)

4 msk. Rapadura-hrásykur (eða annar hrásykur)

 

  1. Sigtaðu saman bökunarsóda, kanil, múskat og spelti í stóra skál. Hrærðu vel.
  2. Taktu fram aðra skál og hrærðu saman hlynsírópi, hrásykri og kókosolíu. Helltu því svo út í stóru skálina og hrærðu öllu vel saman.
  3. Hnoðaðu deigið smástund til að allt blandist vel saman. Pakkaðu því svo inn í plast og kældu í 30 mínútur eða lengur í ísskápnum.
  4. Skiptu deiginu í nokkra búta og flettu út með kökukefli eða stórri glerflösku. Deigið ætti að vera sirka einn millimetri að þykkt.
  5. Ef deigið festist við borð eða kökukefli er ágætt að dreifa svolitlu spelti yfir borðið, deigið og kökukeflið.
  6. Skerðu næst út deigið með kökuskurðarmótum (til dæmis hreindýr, stjörnur, jólatré, piparkökukarla og konur). Gott er að miða við um 5-7 sentimetra í þvermál.
  7. Settu bökunarpappír á plötu og raðaðu kökunum á hana.
  8. Bakaðu við 180°C í 10-12 mínútur eða þangað til kökurnar eru orðnar gullnar. Þær eru ekki grjótharðar á þessum tímapunkti en munu kólna og harðna.

 

Gott að hafa í huga

 

Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.

Ef kökurnar eru ekki harðar þegar þær hafa kólnað má baka þær í um 5 mínútur til viðbótar. Ef þær eru þykkar þurfa þær aðeins lengri tíma en ella.

Dásamlegar piparkökur í hollari kantinum.

 

 

 

Texti: Sigrún Þorsteinsdóttir

Sigrún heldur úti vefnum cafesigrun.com

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.