Hreinsun fyrir huga og líkama

Heimir Logi Gunnarsson hefur stundað svett um árabil og hefur auk þess byggt og þróað sína eigin aðferð þar sem gætir íslenskra áhrifa, enda telur hann að Íslendingar til forna hafi í raun verið í svetti þegar talað var um að leggjast undir feld. Svett, eða Sweat Lodge eins og það er kallað á ensku, er talið eiga sér þúsund ára langa sögu. Frumbyggjar Ameríku þróuðu svett og notuðu oft í upphafi athafna eða í lækningaskyni og þá ekki síður fyrir andlegu hliðina en þá líkamlegu. Heimir Logi telur að allir ættu að prófa svett einhvern tíma á lífsleiðinni, enda sé það mikil upplifun sem tengi okkur við okkar innsta sjálf og náttúruöflin.

Svett er fyrst og fremst upplifun. Það er hreinsunarathöfn fyrir líkamann og hugann.

Við mæltum okkur mót við Heimi á kaffihúsi til að fræðast nánar um svett, sem hefur lengi verið stundað á Íslandi af fólki sem kann að meta þau áhrif sem slík hreinsun framkallar. Svett fer fram í lokuðu tjaldi þar sem sérstakt eldstæði er í miðjunni með sjóðheitum steinum. Steinarnir eru hitaðir upp í þrjá klukkutíma á eldi áður en þeir eru bornir inn í tjaldið, rauðglóandi. Mikill hiti myndast í tjaldinu og vatni, sem stundum er blandað jurtum og olíum, er skvett á steinana sem framkallar mikla og mjög heita gufu. Eftir að hafa stundað svett í tvö ár ákvað Heimir Logi að taka flugið og útbúa sitt eigið svett-tjald í Kjósinni, þar sem hann hefur stundað svett ásamt vinum og kunningjum sem kunna einnig að meta þau góðu áhrif sem margir tala um. Síðan eru liðin 17 ár og enn heldur hann svett sem öllum er velkomið að taka þátt í. „Mér finnst að allir ættu að fara í svett einhvern tíma á ævinni. Það hafa allir gott af því. Þetta er bara önnur veröld þar sem maður finnur sjálfan sig og upplifir sig á alveg nýjan hátt. Svett er fyrst og fremst upplifun. Það er hreinsunarathöfn fyrir líkamann og hugann. Sumir segja fyrir sálina líka en ég tel að sálin sé alltaf hrein. Við erum að hreinsa huga og líkama til að komast í snertingu við sálina í okkur og komast þannig að kjarnanum,“ segir Heimir Logi ákveðinn í bragði. Hann trúir því að þegar við fæðumst séum við öll eitt risastórt ljós. „En svo hlaðast utan um okkur skuggar svo að ljósið hverfur einhvern veginn. Mörg okkar vakna síðan upp einhvern tíma á lífsleiðinni og vilja finna þetta ljós aftur. Svettið er mjög góð leið til þess. Svettinu fylgir mikill hiti og það er góð leið til að bræða allt utan af okkur. En eins og ég segi, þá er svettið upplifun og hver og einn upplifir það á sinn hátt,“ segir Heimir Logi og brosir.

Svett í fornöld

Þegar talið berst að því hvaðan svett sé upprunnið, segir Heimir Logi að það hafi sennilega alltaf verið til um allan heim. „Sagan segir að þetta hafi verið einhvers konar hreinsunarathöfn, alltaf tengd litlu rými, eldi og miklum hita, og jafnvel meira hér á norðurhjaranum en annars staðar. Ég fékk eitt sinn gamlan indíána í heimsókn, Gary Raven, og hann var sannfærður um að svett væri ekki síður okkar Íslendinga en annarra. Á sínum tíma fóru trúarbrögðin að blandast inn í mannskepnuna. Kristni bannaði svona samkomur og einhvern veginn hlýddum við en indíánar fóru með svettið inn í skógana og gátu þannig varðveitt það. Fyrir um fjórum áratugum fengu margir shamanar, eða seiðskrattar indíána, þau skilaboð að þeir yrðu að hleypa fleiri inn í svettið og það var gert,“ segir Heimir Logi. Eftir að hafa hitt Gary Raven hóf hann að kynna sér hvernig svettið gæti hafa verið hérlendis á öldum áður og hefur ákveðnar skoðanir hvað það varðar. „Ég vissi ekki alveg hvar ég ætti að hefja leitina svo að ég byrjaði á því að fara á Þjóðminjasafnið. Það leiddi mig til fornleifafræðings sem hefur unnið við uppgröft á fornum mannvirkjum. Þar höfðu komið í ljós nokkurs konar útihús sem voru grafin niður en minjarnar sýna að raftar héldu uppi þakinu og í því miðju var steinhellum raðað upp eins og tvískiptum ofni. Ég er á því að þetta hafi verið svett. Í Eyrbyggju er líka talað um svett og það passar við þessar fornminjar. Fornmenn lögðust undir feld; þeir fóru í svett,“ heldur Heimir Logi fram. Hann nefnir einnig að við Íslendingar ættum að vera stoltir af okkur rótum, víkingum og göldrum. „Þetta er vannýttur fjársjóður sem við eigum ekkert að skammast okkar fyrir,“ segir hann einbeittur.

Maður liggur á móður jörð og gefur henni þann sársauka og vonbrigði og í raun allt sem maður vill losa sig við.

Svettið var opinberun


spessi2

Heimir Logi hóf að stunda svett eftir að hafa tekið líf sitt í gegn og sagt skilið við fortíðina. „Ég var í mikilli neyslu í mörg ár en hafði samt alltaf áhuga á sálrænum málefnum. Ég var harðákveðinn í því að þegar ég hætti í neyslu myndi ég kynna mér þau nánar og ég stóð við það. Eftir að hafa verið edrú í heilt ár frétti ég af svetti en það liðu þrjú ár þar til ég hóf að stunda það sjálfur og það var í Elliðaárdalnum. Það var algjör opinberun fyrir mig. Mér fannst ég vera inni í rými sem ég þekkti. Næstu tvö árin fór ég reglulega í svett og leit strax á það sem alveg heilagan hlut. Innst inni vissi ég að ég myndi byrja með þetta sjálfur einn góðan veðurdag. Sjálfsvirðingin hefur líka aukist þessi nítján ár sem ég hef verið edrú,“ segir hann.

Ég var í mikilli neyslu í um tuttugu ár en hafði samt alltaf áhuga á sálrænum málefnum. Ég var harðákveðinn í því að þegar ég hætti í neyslu myndi ég kynna mér þau nánar og ég stóð við það.

Erlendir ferðamenn eru á meðal þeirra sem hafa komið í svett til Heimis Loga. Hann segir þá jafnspennta fyrir íslensku svetti og við Íslendingar fyrir arfleifð indíána. En hvernig hefur hann þróað sitt eigið svett? „Ég fékk grunnuppskriftina hjá þeim Heiðari og Nonna, sem hafa verið með svett í Elliðaárdalnum um árabil. Síðan hefur það þróast hægt og rólega eftir því sem kjarkurinn kemur og svo er þessu líka stjórnað að ofan, eða neðan, eftir því hvernig á það er litið,“ segir hann og hlær.

Aðspurður hverju fólk megi eiga von á í svetti segir hann erfitt að útskýra það vel. „Eins og ég sagði, þá er svett upplifun. Þótt ég segi fólki að það verði inni í lokuðu tjaldi, þar sem eru heitir steinar og myrkur, þá verður það engu nær. Þetta er ekki eins og sána, þótt margir haldi það. Þarna er mikill hiti, maður fer yfir einhverja þröskulda hjá sjálfum sér og upplifir síðan frelsi þegar maður kemur út úr tjaldinu. Auðvitað er mismunandi hvernig fólk upplifir það. Það getur heldur enginn sagt hvers vegna hann kemur aftur og aftur. Svett er líka mikil líkamleg hreinsun og ekki síður andleg, ef maður þorir að sleppa sér alveg. Maður liggur á móður jörð og gefur henni þann sársauka og vonbrigði og í raun allt sem maður vill losa sig við,“ útskýrir Heimir Logi.

Eru það margir sem fara reglulega með þér í svett?

Já, það eru margir en svo eru líka margir sem gera þetta á ákveðnu tímabili í lífi sínu. Koma kannski oft en taka svo langt hlé. Ég vil fara í svett einu sinni í viku. Mér finnst of lítið að fara á tveggja vikna fresti.“

Andleg vakning

össi

Ekki er langt síðan aðeins þröngur hópur fólks stundaði svett en það hefur breyst mikið að undanförnu og nú eru þrjú svett starfandi á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni þess. Heimir Logi segir að vonandi sé vitundarvakning í gangi og fólk orðið meira vakandi fyrir einhverju andlegu í lífinu. Þegar hann er spurður hvort fólk geti upplifað innilokunarkennd í svetti segir hann svo vera en það hafi aðeins einu sinni gerst að kona hafi yfirgefið svett af þeim orsökum. „Þegar fólk með innilokunarkennd kemur í svett fær það að vera nálægt útganginum en þegar svettið byrjar er fólk fljótt að gleyma þessari tilfinningu. Svett er ekki auðvelt. Fyrsta skiptið er kannski létt en fólk getur líka upplifað mikinn ótta og óþægindi. En það er ekkert að óttast. Það er alltaf nóg af súrefni og vatni í tjaldinu. Maður fær líka meiri völd í eigin lífi ef maður sigrast á óttanum,“segir Heimir Logi.

Maður fær meiri völd í eigin lífi ef maður sigrast á óttanum.

Hluti af svettinu sem hann býður upp á er að fólk tali um það sem kemur upp inni í tjaldinu eða það sem því liggur á hjarta. Það á rætur að rekja til indíána en þeir notuðu þá aðferð til að fólk gæti öðlast sálarró. „Margir koma bara til að tjá sig. Það getur verið mjög áhugavert og mikil upplifun að sitja í myrkrinu og hlusta á fólk tala. Margir segja frá mjög persónulegum málefnum. Þetta er svo bara skilið eftir í tjaldinu og er ekkert mál þegar fólk kemur út.“

Heimir Logi segir Hvalfjörðinn mjög magnaðan stað, þar sé kyrrð og ró og góð orka. „Það skiptir mig miklu máli. Ég vil helst að fólk komi um klukkutíma áður en svettið hefst, til að ná góðri slökun áður en það fer inn í tjaldið. Það eina sem fólk þarf að gera er að koma með opinn huga og ekkert meira; ja, nema þægilegan klæðnað. Svettið er önnur veröld, maður finnur sjálfan sig og upplifir sig á alveg nýjan hátt,“ segir Heimir Logi að lokum.

Hægt er að sjá nánari upplýsingar um Goðheima Sweat á Facebook í hópnum Sweat eða á heimasíðu Heimis Loga, www.sweat.is.


VIÐTAL:: Dagný Gísladóttir og Sigríður I. Sigurðardóttir

MYNDIR:: Spessi mynd 1 & 2 og Össi Árnason mynd 3


GREININ BIRTIST FYRST Í VETRARBLAÐI Í BOÐI NÁTTÚRUNNAR 2015 – SMELLTU HÉR OG KAUPTU ÞAÐ Á 850 KR.

forsidavetur

1 athugasemd

  • Hææ, Hvað kostar í sweat hjá ykkur og er hægt að fara á föstudaginn ?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.