Með nýja sýn á lífið

Davíð Rafn Kristjánsson gjörbylti lífi sínu fyrir tæplega sjö árum þegar hann sagði skilið við fjármálaheiminn og sneri sér að andlegum málefnum. Hann dvaldi í Bandaríkjunum, Kína, Kambódíu og Indlandi þar sem hann sökkti sér ofan í búddisma, jóga og hugleiðslu og er nú kominn heim með nýja sýn á lífið. (Greinin birtist í vetrarblaði Í Boði Náttúrunnar 2015 – KAUPA HÉR)

Undanfarin ár hafa verið viðburðarík í lífi Davíðs. Hann hefur verið á andlegu ferðalagi sem hófst í raun á fremur hversdagslegan hátt haustið 2008. Um viku fyrir hrun íslenska bankakerfisins lá leið Davíðs í banka í Kringlunni til að borga reikninga. Þar sem hann stóð í langri röð hjá gjaldkeranum fann hann fyrir kvíðahnúti í maganum vegna láns sem hann var með á bakinu. Hann ákvað skyndilega að stíga út úr röðinni og fara í bókabúðina við hliðina á bankanum. „Ég fékk svo sterkt á tilfinninguna að ég yrði að fara í þessa búð og kaupa mér bók. Þetta var mjög spes tilfinning. Þegar ég kom inn í Eymundsson sat þar kona með eldrautt, úfið hár og var að árita ævisögu sína, Journey to the Center of the Self. Þegar ég kom inn leit hún á mig og hrópaði upp yfir sig: „You are here for a reason.“ Ég sagðist vita að svo væri og við töluðum saman í nokkrar mínútur. Konan, sem heitir Maxine Gaudio, lét mig fá bókina sína, sagði mér að lesa hana og hafa svo samband. Ég gerði það og sagði henni þá að ég vildi læra meira um andleg málefni. Viku seinna var ég fluttur heim til hennar úti í Bandaríkjunum.“

Þegar ég kom inn leit hún á mig og hrópaði upp yfir sig: „You are here for a reason.“

Á þessum tíma vann Davíð hjá fjármála- og tryggingafélagi og segist hafa viljað taka þátt í stemningunni sem þá var ríkjandi í íslensku samfélagi og verða fljótt ríkur. Hann hafði stundað grunnnám í lögfræði við Háskólann á Akureyri en átti eftir að skrifa lokaritgerðina. „Á þriðja námsárinu mínu fór ég í skiptinám til Kína. Þegar ég kom heim fór ég að vinna og ritgerðin er enn ókláruð. Ég var skuldugur en vann samt við að leiðbeina fólki við að spara. Ég var ekkert hamingjusamur. Lengi vel var ég að ströggla með áfengi og sjálfan mig og það var margt í lífi mínu sem ég var ekki búinn að gera upp,“ segir hann og bætir við að andleg málefni hafi ekki verið honum mjög ofarlega í huga. „En ég var samt dálítið leitandi í þeim efnum. Ég var aðeins byrjaður að kynna mér jóga, hugleiðslu og lesa sjálfshjálparbækur. Þegar ég hitti Maxine fann ég allt í einu svo sterkt fyrir því að mig langaði til að læra meira um andleg málefni svo að á einni viku seldi ég flatskjáinn, bílinn og allt annað sem ég átti og fór út til Bandaríkjanna. Maður festir sig alltof oft í einhverju, hvort sem það eru skuldir eða að vera fastur í sama farinu, en þarna fann ég einhvern innri styrk til að brjótast úr viðjum vanans,“ segir Davíð íhugull og yfir honum er einhver stóísk ró sem einkennir oft fólk sem er í góðu andlegu jafnvægi.

Maxine er bandarísk en hefur verið mikið á Íslandi. Hún hefur stúderað andleg málefni um árabil, eða allt frá unglingsaldri. Síðar sagði hún við Davíð að þegar hún hafi séð hann fyrst hafi hún séð einhvern neista í honum sem varð til þess að hún hvatti hann til að hafa samband. „Ég var nógu áhugasamur og um leið nógu örvæntingarfullur til að hella mér út í þetta,“ segir Davíð og brosir.

DSC_0545
Mynd: Jordan Paul

 

Þegar til Bandaríkjanna kom varð Maxine kennari Davíðs í andlegum málefnum um tveggja mánaða skeið. Hann segir þann tíma sem hann dvaldi hjá henni hafa verið lærdómsríkan en jafnframt mjög strembinn. „Þetta var eitt það erfiðasta sem ég hef gert. Það var mjög erfitt að læra og kafa djúpt í sjálfan sig og leita inn á við. Við notuðum allan daginn til að stúdera og tala saman og þetta var mjög mikil keyrsla. Eftir á að hyggja var þetta of mikið. Sagt er að góður kennari eigi að beygja mann en ekki brjóta – en ég brotnaði. Það var samt ekki Maxine sem braut mig niður. Ég var bara ekki tilbúinn. Ég fór að upplifa mig sem skrítinn. Ég var þessi lögfræðigæi í jakkafötum að sökkva mér ofan í andleg málefni en ég fann samt innst inni að þetta var rétta leiðin. Þegar ég lít til baka finnst mér þetta besta ákvörðun sem ég hef tekið en ég var ungur og þetta var bara of mikið í einu. Eftir tvo mánuði vildi ég komast í burtu, sem ég og gerði. Ég fór því til vinar míns sem bjó á Manhattan og vann í banka. Þar fór ég að umgangast fólk sem vann í fjármálageiranum þannig að á augabragði var ég kominn aftur yfir í þann heim – sem var mjög áhugavert. Þekkingin kemur með reynslunni og ég lærði margt sem ég hefði annars ekki lært ef ég hefði ekki farið út til Bandaríkjanna og búið hjá Maxine.“ Aðspurður hvers vegna hann hafi búið hjá henni segir Davíð að ekki sé óalgengt að nemendur búi heima hjá kennara eða leiðbeinanda sínum og jóga hafi til dæmis verið kennt á þann máta í gegnum aldirnar. „Kennarinn heldur ekki fyrirlestra um hvernig maður eigi að haga lífi sínu. Hann á að hjálpa manni að leita inn á við og skapa þannig umhverfi. Hann á að spegla mann sjálfan og sýna fram á hvernig maður er í raun og veru. Hann sýnir manni erfiða hluti sem getur verið erfitt að horfast í augu við.“

Uppreisn gegn ótta

Eftir mánuð á Manhattan ákvað Davíð að fara aftur til Kína. „Ég flutti til Beijing og fór í uppreisn gegn þessu andlega. Ég vildi bara meika það á framabrautinni en það er eins og ég leiti uppi fólk sem er í uppreisn gegn hinu efnislega. Í Kína kynntist ég mörgu fólki sem var inni á andlegu línunni og stundaði m.a. hugleiðslu og jóga. Ég fór inn í ákveðið listamannaumhverfi og þar voru allir að vinna í sjálfum sér. Einn vinur minn þar varð bæði eins og kennarinn minn og stóri bróðir. Hann heitir Chris og er núna munkur í Myanmar. Hann bjó í Tíbet í sex ár og hefur stundað hugleiðslu í þrjátíu ár. Þarna kynntist ég aftur manneskju sem leiddi mig inn á andlegar brautir. Þegar ég hugsa til baka um tímann í Beijing sé ég að hann snerist fyrst og fremst um að fjarlægja óttann úr lífi mínu. Það var Chris sem kenndi mér að sjá betur hvað ég hafði verið óttasleginn í gegnum tíðina. Ég sá að það var svo mikill ótti í lífi mínu; ótti við álit annarra, ótti við framtíðina. Þetta var skemmtilegt tímabil og ég gerði uppreisn gegn óttanum. Ég fór að spila á gítar, byrjaði að mála, fór að taka upp myndir og setti mig í alls konar nýjar aðstæður; til dæmis að tjalda á Kínamúrnum eða taka danshugleiðsluhelgi uppi á fjöllum. Ég vildi ögra sjálfum mér. Ég hafði aldrei séð mig sem listrænan og hef til dæmis alltaf tönnlast á því að ég gæti ekki teiknað. Svo ég fór að hugsa. Hvenær fékk ég þá hugmynd að ég væri lélegur teiknari? Var það þegar ég var sex ára og einhver sagði við mig að þessi mynd sem ég var að teikna væri ekkert flott? Það eru alls konar hugmyndir á borð við þessa sem maður tekur með sér út í lífið. Ég vildi brjóta niður þessar hugmyndir sem ég hafði um sjálfan mig, sem byggðu í raun ekki á neinu sérstöku,“ rifjar Davíð upp og bætir við að hann hafi líka lært að meta það sem er ekta. „Margir eru með grímu sem þeir sýna umheiminum og geta ekki talað um ákveðin mál sem eru tabú. Chris var til dæmis ekkert hoppandi glaður alla daga en það var eitthvað við hann sem mér líkaði. Hann var svo óttalaus og ekta og líf hans snerist um að hjálpa öðrum. Hann var ekki feiminn við að gráta eða hlæja hvar sem hann var. Hann var laus við allar grímur.“

í þessu ferli fór ég að velta fyrir mér af hverju ég hefði valið að læra lögfræði

Fljótlega eftir komuna til Beijing ákvað Davíð að segja alveg skilið við lögfræðina. „Snemma í þessu ferli fór ég að velta fyrir mér af hverju ég hefði valið að læra lögfræði. Í rauninni var það fyrir vinina, fjölskylduna, til að vera flottur, til að fólk segði við mig: „Dabbi, mikið ertu klár.“ Í raun og veru hafði ég ekki hugmynd um hvers vegna ég hafði verið að læra lögfræði en það var vegna ótta. Ótta við að vera dæmdur, ótta við að fara mína eigin leið. Í Kína vann ég til að byrja með á lögfræðistofu en hætti því og fór að vinna á leikskóla. Síðan kenndi ég ensku í tvo tíma á dag og það var algjör draumur.“

Nýr kennari í Kambódíu

Eftir fjögur ár í Kína fannst Davíð kominn tími til að halda áfram ferð sinni um heiminn þótt það reyndist erfitt að kveðja Kína. Hann hélt til Kambódíu þar sem ný ævintýri biðu hans. „Ég ákvað að flytja þangað út af vinnu sem mér þótti spennandi og langaði að prófa eitthvað nýtt. Þar bjó ég svo í tvö ár. Í Kambódíu átti ég erfitt með að finna samfélag með andlega þenkjandi fólki. Hins vegar kynntist ég alls konar frábærum einstaklingum sem voru að gera allt aðra hluti.“ Á meðal þess sem Davíð fékkst við var að setja upp jógastúdíó en það átti eftir að taka óvænta stefnu. „Ég ætlaði að opna mitt eigið jógastúdíó. Ég fékk oft fólk í heimsókn í gegnum vefsíðuna Couch surfer; síðu fyrir ferðalanga sem leita sér að ókeypis gistingu. Í eitt skiptið kom til mín maður ásamt vinkonu sinni og þau fengu gistingu hjá mér. Ég var með stórar hugmyndir um jógastúdíóið og fór að segja þessum manni frá fyrirætlunum mínum og allt sem ég taldi mig vita um jóga. Á fimmta degi kom svo í ljós að hann var búinn að stunda jóga af alvöru í langan tíma og var með sitt eigið ashram á Indlandi. Ashram er jógamiðstöð eða klaustur í kringum einn kennara. Þarna komst ég að því hvað ég vissi í raun lítið. Ég vildi endilega læra meira af þessum manni sem var búinn að tileinka líf sitt jóga, búa í hellum í Indlandi og upplifa tímana tvenna en hann vildi ekkert með mig hafa. Hann vildi ekki kenna mér jóga og sagði að ég væri ekki tilbúinn. Þetta var sjokk fyrir egóið. Þegar hann var að fara frá Kambódíu fékk ég aftur þessa sterku tilfinningu að ég bókstaflega yrði að læra jóga hjá honum svo að ég sendi honum skilaboð og spurði hvert hann væri að fara því að ég ætlaði að koma og fá að læra meira af honum. Hann sendi mér einföld skilaboð þar sem stóð aðeins eitt orð: Santosh. Ég vissi ekki hvað þetta þýddi en gerði ráð fyrir að þetta væri heiti á þorp á Indlandi og var staðráðinn í að fara þangað. Við nánari athugun komst ég þó að því að þetta þýðir: Vertu sáttur þar sem þú ert. Ég vildi hins vegar ekki gefast upp svo að ég hafði aftur samband og eftir ítrekaðar tilraunir opnuðust loksins dyrnar. Það eru til sögur sem segja að maður banki þrisvar á dyr musterisins áður en manni er hleypt inn og þarna opnuðust mér dyr í Indlandi,“ segir Davíð en það hafði lengi verið draumur hans að fara þangað. Samt sem áður fékk hann bakþanka, enda undirbúningur að opnun jógastúdíósins í fullum gangi. Daginn áður en hann þurfti endanlega að ákveða sig flæddi vatn inn í stúdíóið og þá tók Davíð ákvörðun. „Mér fannst þetta vera skilaboð til mín. Ég var ekki tilbúinn að binda mig í Kambódíu og ákvað að fara til Indlands.“

Screen Shot 2015-05-06 at 11.19.52 AM

Hugleitt á Indlandi

Indland tók vel á móti Davíð. Hann sökkti sér ofan í jóga og búddisma og dvaldi í ashram-jógamiðstöð í þrjá mánuði. Daglegt líf var fábreytt og einfalt og snerist aðallega um jóga og hugleiðslu. Davíð segir þessa reynslu hafa verið afar lærdómsríka en jafnframt mjög erfiða. „Maður losar sig við öll þægindi og það var kennsla allan daginn. Við hugleiddum í þrjátíu mínútur á dag, í níutíu daga samfleytt. Hugleiðslan hjá mér gjörbreyttist á Indlandi. Margir telja að þeir þurfi að hugleiða lengi í einu en það er ekki magnið sem skiptir máli heldur hvernig þetta er gert. Kennarinn byrjar til dæmis ekki á að kenna hugleiðslu heldur undirstöðuatriðin í góðum lífsgildum sem eru að það eigi hvorki að meiða, ljúga né stela og lögð er áhersla á að maður sé alltaf sáttur, sama í hvaða aðstæðum maður er í. Þannig lærir maður að vaxa sem manneskja. Þetta er kallað Yama og Niyama og er undirstaðan í jóga. Þetta eru margslungin fræði og fjölmargar bækur hafa verið skrifaðar um þetta og til dæmis varðandi stuld þá er hægt að stela fleira en dauðum hlutum, svo sem orku frá fólki og tíma með því að koma of seint,“ útskýrir Davíð og heldur áfram: „Fyrir mér byggist góð hugleiðsla fyrst og fremst á því að hafa átt góðan dag. Það er mikilvægt að dagurinn sé vandaður og laus við græðgi og andúð. Þá er hugleiðslan mín góð. Ég er ekki að hugleiða til að lagfæra daginn heldur er ég með daginn pottþéttan svo að hugleiðslan sé góð. Þetta er lykilatriði sem tók mig langan tíma að átta mig á. Ég fór að taka eftir því að ef dagurinn var ekki vandaður og undirstöðuatriðin í lagi, ef ég var öfundsjúkur eða reiður, þá var hugleiðslan glötuð. Þannig að fyrir mig er hugleiðslan nánast tilgangslaus ef dagurinn er ekki í lagi. Ég man sérstaklega eftir einni hugleiðslu sem var mjög áhrifarík. Í hugleiðslu geta komið fram alls konar tilfinningar, bæði góðar og slæmar, svo sem reiði, sorg og gleði en í þetta sinn fékk ég algjöra fullvissu um að það væri leið út úr þjáningunni, og sú leið hafði ekkert með veraldleg gæði að gera heldur þvert á móti.“

Það er mikilvægt að dagurinn sé vandaður og laus við græðgi og andúð.

 

En hvað myndi Davíð ráðleggja þeim sem langar byrja að hugleiða og hafa áhuga á andlegum málefnum?

„Tímanum er aldrei sóað og það er gott að byrja bara einhvers staðar og þá með gagnrýnu hugarfari. Það þarf bara að byrja, gera mistök, læra af reynslunni og takast á við sjálfan sig. Ef þú þolir ekki að mála, byrjaðu þá að mála. Ef þú þolir ekki ketti, farðu að vinna í Kattholti. Þegar ég lít til baka óttaðist ég mest að vera ekki með rétta kennarann eða „læra“ réttu hugleiðsluna en það var ástæðulaus ótti.“

Spurður hvað hann hafi öðlast á þessu andlega ferðalagi stendur ekki á svari: „Í andlegri vinnu er tekist á við fimm þætti sem eru græðgi, andúð, efi, leti og eirðarleysi. Mér hefur vonandi tekist að draga úr þessum þáttum í fari mínu og ég er orðinn töluvert hamingjusamari, óhræddari, sáttari og betri við aðra.“

Um það bil ár er frá því að Davíð flutti aftur til Íslands frá Indlandi, reynslunni ríkari, og hann lítur framtíðina björtum augum. „Áður fyrr hélt ég að hið andlega snerist um að lifa í núinu og framtíðin kæmi bara en ég hef lært að þetta er ekki svona. Það þarf að skapa aðstæður sem gera framtíðina góða, sá fræjum fyrir framtíðina, gera gott karma svo að það geri manni gott í framtíðinni. Einn kennarinn minn sagði að ef fólk skildi lögmál Karma myndi það vera á hlaupum við að hjálpa öðrum. Hið andlega snýst í raun um að reyna gera gott og vera góður,“ segir Davíð að lokum.

Það verður gaman að fylgjast með Davíð sem er á leið til Þýskalands í kvikmyndanám og var að fá útgáfusamning í Englandi vegna skáldsögu sem hann skrifaði á þessu ferðalagi sínu! Við hlökkum til að lesa!

UPPFÆRT Apríl 2016 – Skáldsaga hans Burning Karma er komin út. Meira HÉR

Fylgist með ferðum hans á Twitter

GREININ BIRTIST Í VETRARBLAÐI Í BOÐI NÁTTÚRUNNAR: KAUPTU BLAÐIÐ HÉR

DSCF1982

 TEXTI: GUÐBJÖRG GISSURARDÓTTIR
MYNDIR: JORDAN PAUL