Það fór eins og við systur spáðum. Flotið með tilheyrandi íslenskum flotbúnaði breiðist hratt yfir heimsbyggðina og nú er svo komið að víðsvegar um heiminn hefur fólk fjárfest í Flothettu. Og það er fyrir utan alla þá Íslendinga sem hafa fyrir lögnu kveikt á perunni og notið þess að fljóta í sundlaugum, heitum pottum og hinum ýmsu vatnsuppsprettum landins. Þá hafa margir Íslendingar þegar ferðast með Flothettuna til Flórida, Balí, Ítalíu, Spánar og í Gömlu laugina Flúðum, sem hefur alla burði til þess að verða ein dýrmætasta uppspretta Samflots á Íslandi. Ekki síst á veturna, til að komast úr ljósmengunni í beina snertingu við Norðurljósin og kannski almættið.
Um leið og við systur sáum glitta í hugmynd Unnar urðum við hugfangnar. Hvað gat verið annað þarna á ferð en alger klassík sem heimurinn myndi smám saman uppgötva? Það hefur líklega engin orðað það betur en sú sem benti á að Flothettan hefði, eins KitcenAid hrærivélin, fæðst sígild. Fljótlega fórum við að stunda tilraunaflot með Unni, fyrst í Sóley Natura Spa, en þegar ljóst varð að við systur myndum opna heilsuhof fyrir framan Sundlaug Seltjarnarness lá beinast við að efna til Samflots undir berum himni og leyfa fleirum að fljóta og njóta með okkur. Upplýsingar um flotviðburði og samflot eru á facebooksíðu Flothettunnar.