Hrekkjavöku nammi

Það er langt síðan ég hef verið jafn spennt yfir einhverri uppskrift og þessu Halloween nammi. Hugmyndin að þessu nammi kom þegar ég var við það festa svefn á laugardagskvöldið. Þetta gerist stundum – að ég er komin upp í rúm og alveg að sofna þegar ég fæ einhverja brjálæðislega góða hugmynd að einhverjum guðdómlegum rétt.

Þegar maður hefur svona mikinn áhuga á (hollum) mat þá er ekkert skrítið að áhugamálið taki stundum alveg yfirhöndina og hugmyndir sem hafa verið að grassera í undirmeðvitundinni finni sér leið upp á yfirborðið þegar maður er alveg að sofna. Það er sagt að bestu hugmyndirnar komi þegar maður er milli svefns og vöku og einmitt þess vegna á maður alltaf að hafa blað og penna við rúmstokkinn. Sem ég geri oftast en stundum fer þetta blað á eitthvað flakk, eins og t.d. inn í eldhús!

Einfalt & gott <3

halloween3

En að uppskriftinni. Karamellupopp er engin ný uppfinning en flestar uppskriftir að karamellupoppi er einhver sykur-smjör-drulla => eitthvað sem er allt annað en hollt! Popp er nefnilega alls ekkert óhollt og enginn skyldi hafa samviskubit yfir að borða mikið af því og oft (svo framarlega að það sé ekki örbylgjupopp!).

„Trikkið“ sem ég notaði til að búa til þessa karamellu (sem er aðalmálið í þessum nammi) er komin frá Jóa bróður mínum sem er meistarakokkur (í alvöru sko). Jói hefur kennt mér ótal mörg trix í eldhúsinu og án hans kynni ég í mesta lagi að sjóða kartöflur og búa til Royal búðing! No joke!

Aðferðin við að búa til karamelluna er mjög lík aðferðinni við að brúna kartöflurnar um jólin en það kannast örugglega flestir við hvað það getur verið ótrúlega mikið vesen.

Halloween nammi sem allir elska <3

Það er skemmst frá því að segja að þetta Halloween nammi sló algjörlega í gegn á meðal heimilismeðlima! Allir voru sjúkir í karamellupoppið og það var slegist um að sleikja sleikjuna!

Stóri kosturinn við þetta Halloween nammi er hversu einfalt það er – og inniheldur ekki trilljón hráefni. Allir ættu að geta búið þetta til.

Það eina sem fólk þarf að passa sig eitthvað sérstaklega á er að láta karamelluna ekki brenna við á pönnunni, annars er þetta allt saman ofureinfalt – og ofurgott! 🙂

Þetta Halloween nammi er alveg ekta til að hafa í krakkapartýjum/afmælum eða þegar þið eigið von á góðum gestum. Já eða bara til að borða á meðan þið horfið á uppáhalds sjónvarpsþáttinn ykkar 🙂

Halloween nammi sem hentar vel fyrir unga sem aldna <3

Halloween nammi

Hráefni:

2 dl kókospálmasykur

2 msk vatn

4 msk kókosmjólk

½ tsk lífræn vanilla (duft en ekki dropar)

Pínu sjávarsalt

8 bollar ósaltað popp (það er sirka 1 dl poppmaís)

1 súkkulaðiplata (ég notaði 85% súkkulaði en þið notið bara eins dökkt/ljóst og þið viljið)

1 msk kókosolía

Aðferð:

1. Byrjið á að poppa poppið og leggið til hliðar. 
2. Setjið kókospálmasykurinn í blandara og setjið blandarann á fullan kraft en bara í smá stund. Við erum bara að tala um max 10 sekúndur. Kókospálmasykurinn er mjög fljótur að verða að dufti. Þetta er gert svo að það sé auðveldara að bræða hann en kókospálmasykurinn er oft heldur grófur.
 3. Hellið kókospálmasykrinum(duftinu) á pönnu.
 4. Setjið 2 msk af vatni á pönnuna og hærið saman með sleif þannig að sykurduftið blotni. Stillið helluna á hæsta straum. 
5. Um leið og pannan fer að hitna setjið þá kókosmjólkina út í og hærið vel. 
6. Þegar sykurinn hefur blandast kókosmjólkinni almennilega, takið þá pönnuna af hellunni. Passið vel upp á að karamellan brenni ekki við!

 

7. Setjið vanilluna og sjávarsaltið út í og blandið vel saman.
 8. Setjið poppið í stóra skál. Passið að fjarlægja allan poppmaíisinn sem hefur ekki poppast (þið viljið ekki hafa steina í namminu ykkar!). 
9. Hellið karamellunni yfir poppið og blandið vel saman með sleikju þannig að karamellan þekji allt poppið.
 10. Setjið bökunarpappír í kassalaga form og hellið karamellupoppinu í formið. Notið gaffal til að þjappa poppinu betur í formið.

Karamellupoppið komið í formið og bara eftir að þjappa því betur niður með gaffli.

halloween2

11. Setjið formið inn í frysti á meðan þið bræðið súkkulaðið.
 12. Bræðið súkkulaðið ásamt kókosolíunni í vatnsbaði.
 13. Þegar súkkulaðið hefur náð fljótandi formi takið þá formið úr frystinum og notið skeið til að láta súkkulaðið leka yfir poppið þannig að það komi súkkulaðilínur.
 14. Setjið formið aftur inn í frysti í sirka 30 mínútur.
 15. Takið formið úr frystinum og skerið í bita. Poppið gerir það að verkum að bitarnir verða ekki mjög reglulegir í laginu (kassalega) en það er allt í lagi. Þetta er ekta svona nammi sem lúkkar bara betur þegar það er í alls konar stærðum 🙂


ATH. #1 Þið megið líka alveg sleppa súkkulaðinu. Þetta Halloween nammi er líka alveg guðdómlegt án súkkulaðsins. Ef þið viljið nota ljóst mjólkurlaust súkkulaði þá er Vivani með mjög gott súkkulaði.

ATH. #2 Þið getið líka sett karamellupoppið í lítil muffinsmót (í staðinn fyrir kassalaga formið) og svo inn í frysti. Það getur verið sniðugt til ef þið ætlið að bjóða upp á þetta í krakkapartýi. Puttarnir verða nefnilega ansi klístraðir þegar maður heldur á namminu 🙂

ATH. #3 Ég notaði sérstaka poppvél til að poppa poppið sem ég keypti í Elko á sínum tíma. Ég nota þá poppvél mjög mikið enda elska ég popp!

ATH. #4 Þið getið líka notað meira popp en sama magn af karamellu ef þið viljið bara karamellan rétt svo þekji poppið.

ATH. #5 Látið ekki nafnið kókospálmaSYKUR hræða ykkur. Kókospálmasykurinn (og kókospálmasírópið) hefur mjög lágan sykurstuðul eða GI35. Það þýðir að hann veldur mjög litlum sveiflum á blóðsykrinum. Allt sem er undir 50 er gott.

ATH. #6 Þegar ég segi „lífræn vanilla, duft en ekki dropar“, þá er ég að tala um ekta vanillu. Brúna vanilluduftið sem fæst t.d. í litlum glerkrukkum á heilsugöngum stórmarkaðanna. Vanilludropar er ekki það sama og ekta vanilla og vanillusykur er bara eitthvað allt annað og verra svo í guðanna bænum ekki nota það heldur! 🙂

Ást & friður

Ykkar, 
J Ó H A N N A