Hugsum um fuglana

Fyrir vængjuðu vini okkar er veturinn fyrirboði erfiðra tíma, en þó einnig loforð um allsnægtir handan við hornið. Við getum gert þeim lífið örlítið léttara með því að setja fuglafóður í garðinn, en á jörðinni eiga þeir þó á hættu að rekast á ketti og aðra óvini. Þá er ráð að búa til fallegan krans úr þeim fræjum sem maður á til í eldhúsinu og skreytir jafnframt lauflaus trén. 

Innihald:

250 g hafrar
400 g heimagerð fræblanda: sesamfræ, sólblómafræ, hörfræ, graskersfræ
175 g rúsínur
500 g kókosolía
2 msk. hnetusmjör
trönuber

Aðferð:

1. Fræin eru sett saman í skál og blandað saman. Þá er rúsínum bætt við.
Gott er að setja öll þurrefnin í form til að sjá hvort þetta er
nægilega mikið magn til að fylla það.
2. Kókosolían brædd í potti, en passa þarf að sjóða hana ekki.
3. Þá er potturinn tekinn af hellunni og hnetusmjörinu hrært út í brædda
olíuna.
4. Blöndunni er hellt yfir þurru hráefnin og öllu blandað vel saman.
5. Þá er blöndunni hellt í formið, blandað vel og þjappað til að fá
olíuna, sem gjarna lekur á undan ofan í formið, til að fara betur í öll
þurrefnin því hún heldur kransinum svo saman.
6. Trönuberin eru þá sett ofan á til að gefa skemmtilegan lit og leyfa
fuglunum að narta í.
7. Formið er þá sett inn í ísskáp og látið standa í 3 klst. eða þar til
olían hefur harðnað aftur.

Screen shot 2014-10-29 at 11.53.33 AM
Til að hengja kransinn upp er gott að nota vír og band úr lífrænum
efnum. Til að kransinn geti hangið í góðan tíma þarf að setja víra
þversum á kransinn og styrkja hann með bandi. Þá er bara eftir að binda
hann upp í tré og leyfa honum að iða af fuglalífi.

Ljósmyndir: Helga Einarsdóttir
Texti: Helga Einarsdóttir og Dagný Gísladóttir

Hér er hægt að gerast áskrifandi að Lifum betur – Í boði náttúrunnar 

Hér má lesa meira um fuglavernd og fuglafóðrun